Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:21:03 (8139)

2004-05-13 22:21:03# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Í stjórnmálum eiga menn alltaf val um hvaða afstöðu þeir taka og leiðirnar eru kannski jafnmargar og einstaklingarnir sem í stjórnmálunum eru. Mér finnst hins vegar að menn eigi að velja eftir málefnum en ekki persónum. Menn eiga að velja sér málflutning eftir því máli sem lagt er til grundvallar.

Hvernig halda menn að umræðan hefði orðið í þingsölum ef frv. hefði ekki lotið að tjáningarfrelsi heldur t.d. atkvæðisrétti í alþingiskosningum? Hvað ef menn hefðu verið með frv. sem segði: Undir tilteknum kringumstæðum hafa ákveðnir einstaklingar ekki atkvæðisrétt? Menn hefðu sagt: Þetta er grundvallarumræða og við gefum engan afslátt á réttindunum.

Það er nákvæmlega þannig sem ég lít á umræðuna hvað varðar tjáningarfrelsið. Ég er sammála hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um að það er grundvallaratriði í þessu máli.