Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:23:46 (8141)

2004-05-13 22:23:46# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við verðum alltaf að reyna að tala fyrir því að í lýðræðislegu þjóðfélagi höfum við ákveðnar aðferðir til að leiða mál til lykta. Ég er á þeirri skoðun að við megum ekki víkja frá því eða gefa því undir fótinn að samþykkja með einum eða öðrum hætti að ásættanlegt sé að menn fari aðrar leiðir, eða stytti sér leið eins og ég kalla það. Við verðum að hafa þrek til að halda þessum sjónarmiðum fram þannig að þeir sem eru í forustu á hverjum tíma í stjórnmálaflokkunum viti að það er ekki það sem almennir flokksmenn eða almenningur vill, að víkja frá viðurkenndum aðferðum sem við höfum tamið okkur við að ræða mál og komast að niðurstöðu. Ég held að það sé full þörf á því um þessar mundir að minna á það.

Lýðræðið er ekki fengið í eitt skipti fyrir öll. Það getur tekið breytingum bæði til hins betra og til hins verra. Það er stöðug vinna að halda við lýðræðislegum sjónarmiðum.