2004-05-14 10:03:17# 130. lþ. 115.91 fundur 560#B fréttir af samskiptum forsætisráðherra og umboðsmanns Alþingis, viðvera ráðherra á þingfundum o.fl.# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[10:03]

Helgi Hjörvar:

Hæstv. forseti. Þær fréttir hafa verið fluttar í dag að hæstv. forsrh. hafi veitt tiltal umboðsmanni Alþingis sem er eftirlitsaðili þingsins með framkvæmdarvaldinu. Nú varðar þetta mál hæstv. forsrh. og ég hef ekki í hyggju að ræða það efnislega að hæstv. forsrh. fjarstöddum. Mér finnst ekki við hæfi, virðulegur forseti, og ekki við sóma Alþingis að ræða efnislega jafnalvarlegt mál er varðar hæstv. forsrh. að honum fjarstöddum. Ég óska þess vegna eftir því við hæstv. forseta, vegna þess að málið varðar þingið og sjálfstæði þess, að hann sjái til þess að svo fljótt sem verða má megi ég beina fyrirspurnum um þetta meinta samtal hæstv. forsrh. við umboðsmann Alþingis til hæstv. forsrh. og hann geti upplýst þingið um hvað hæft er í þessum fregnum og hvað þeim hafi farið á milli. Ég tel mjög mikilvægt að það verði upplýst og mun þá eiga um það efnislegar umræður.

Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. forsrh. sjái sér fært að koma í þingið, upplýsa okkur um þetta atriði og svara fyrirspurnum mínum þar um.