2004-05-14 10:04:46# 130. lþ. 115.91 fundur 560#B fréttir af samskiptum forsætisráðherra og umboðsmanns Alþingis, viðvera ráðherra á þingfundum o.fl.# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[10:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem vekur athygli mína sérstaklega er að hæstv. forsrh. er ekki við og ef rétt er að ríkisstjórnarfundur standi er það náttúrlega engan veginn við hæfi í ljósi þess að hæstv. forsrh. er fyrsti flm. frv. sem hér er á dagskrá, eina málsins á dagskrá. Það hefur ítrekað verið óskað eftir því að hæstv. ráðherra sé við umræðuna.

Ég óskaði t.d. eftir viðveru hans í minni fyrri ræðu. Það var ítrekað haft samband við hæstv. forsrh. og hann látinn vita af því að hans væri óskað í þingsalnum en það bar engan árangur. Ég lauk máli mínu og gerði ekki meira veður út af því en ég er ekki viss um að ég láti bjóða mér það aftur að hæstv. forsrh. verði fjarstaddur þegar ég flyt mína seinni ræðu. Ef ég veit rétt er ég næstur eða a.m.k. fljótlega á mælendaskrá. Mér finnst að virðulegur forseti eigi að gera gangskör að því að athuga hvort hæstv. forsrh. sé að koma til fundar.

Varðandi seinna atriðið vakti sú frétt líka athygli mína í dagblaði í dag að sagt er að forsrh. hafi hringt í umboðsmann Alþingis og veitt honum eitthvert tiltal í framhaldi af því að hann fékk í sínar hendur úrskurð eða álit umboðsmanns um skipan hæstaréttardómara. Forsætisnefnd þingsins er jafnframt eins konar stjórn Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns, umboðsmaður og embætti Ríkisendurskoðunar heyra undir þingið og forsætisnefnd fer með samskipti við þessar stofnanir, undirstofnanir þingsins, þannig að það er að sjálfsögðu forseta og forsætisnefndar að sjá um að embætti umboðsmanns sé látið í friði. Mér finnst full ástæða til þess að forsætisnefnd fái umboðsmann Alþingis á sinn fund af þessu tilefni og fái hjá honum upplýsingar um það hvort rétt sé að framkvæmdarvaldið hafi með þessum hætti, með óviðeigandi hætti, verið að blanda sér í störf umboðsmanns Alþingis.