2004-05-14 10:09:02# 130. lþ. 115.91 fundur 560#B fréttir af samskiptum forsætisráðherra og umboðsmanns Alþingis, viðvera ráðherra á þingfundum o.fl.# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[10:09]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Þessi frétt í DV í morgun kom nokkuð á óvart. Maður á bágt með að trúa því að hún sé rétt. Ég held að hún hljóti að kalla eftir því að bæði hæstv. forsrh. skýri þetta út og beri þá til baka og jafnframt að umboðsmaður Alþingis upplýsi Alþingi um hvað sé hæft í þessu.

Ég hlýt í annað sinn á skömmum tíma að vitna í lög nr. 85 frá 27. maí 1997, um umboðsmann Alþingis, en þar segir í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.`` --- Þá væntanlega líka hæstv. forsrh., hlýtur að vera. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, við hljótum hreinlega að leita eftir því að hæstv. forsrh. og líka umboðsmaður Alþingis útskýri fyrir hinu háa Alþingi hvað er á ferðinni.