Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:41:31 (8160)

2004-05-14 11:41:31# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ætli það sé þá ekki viðeigandi að við eigum orðastað undir þessum lið, ég kveðji mér hljóðs um fundarstjórn forseta til þess að upplýsa virðulegan forseta og geri það ekki með frammíkalli utan úr sal að ég hef í sjálfu sér ekkert í ræðustólinn að gera fyrr en hæstv. forsrh. er kominn í salinn. Ég hafði lokið máli mínu að öðru leyti en því að ég ætlaði að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Ég mun ekki ljúka máli mínu og falla frá þeim rétti mínum að hafa forsrh. í salnum og leggja fyrir hann spurningar. Ég set það í hendur forseta hvernig hann vill hafa fundarhaldið. Ef aðrir þingmenn eru tilbúnir til að tala í staðinn er það í góðu lagi af minni hálfu. Ég get alveg frestað ræðu minni og haldið síðari hluta hennar eitthvað síðar í dag. Ég minnist þess t.d. að einu sinni liðu fjórir mánuðir á milli þess að maður hóf mál sitt og lauk því. Það var hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem tók til máls í nóvember um byggðamál og lauk svo ræðunni í mars.