Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:50:31 (8169)

2004-05-14 11:50:31# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Pétur H. Blöndal (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að skilja stöðuna. Ég bað um andsvar við ræðu hv. þm. Nú veit ég ekki hvort ræðan er enn í gangi. Ég hefði talið eðlilegt að hún hefði hafist um leið og fundur var hafinn aftur, það er venjan að ræða haldi áfram, ég þekki ekki annað en nú er sem sagt allt í einu komin umræða um stjórn fundarins.

Ég verð að segja eins og er að málið sem við ræðum hér er á forræði þingsins. Fyrsta umræða hefur farið fram, það er búið að vísa málinu til þingnefndar og nefndin hefur skilað áliti og breytingartillögum. Ég sé ekki hvað flutningsmaðurinn hafi lengur með málið að gera. Mér finnst það vera lítilsvirðing við almenna þingmenn að vera að kalla til ráðherra í þessu máli sem er á forræði þingsins.

Ég skil hins vegar fullkomlega að formaður nefndarinnar verði viðstaddur umræðuna og að hann upplýsi um þær breytingar og það álit sem hv. nefnd gerði við málið og hann eigi að svara spurningum nefndarmanna um frv. eins og það stendur núna því það er búið að gera tillögur um breytingu á því.