Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:51:58 (8170)

2004-05-14 11:51:58# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt hér um störf þingsins, um hvernig því reiðir öllu fram og ýmsar ákvarðanir hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, sem ég hef áður komið inn á, hafa ekki verið til að liðka fyrir. Ég vil því nota tækifærið og þakka hæstv. forseta fyrir það fundarhlé sem gert var áðan meðan reynt var að fá hæstv. forsrh. í salinn.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan og spyr því og vil kannski leggja það til, vegna þess að við stjórnarandstæðingar höfum sennilega, þegar farið er yfir sviðið, lagt til skynsamlegustu og bestu tillögurnar um hvernig það skyldi fara fram þó að forseti Alþingis, Halldór Blöndal, hafi aldrei farið eftir því, að það verði tilaga okkar hér nú til þess að liðka fyrir og ef það gæti orðið til þess að hæstv. forsrh. gæti komið í salinn á eftir, að matarhlé yrði fært fram og nú tekið hálftíma matarhlé þannig að hæstv. forsrh. geti klárað að sinna erindum sínum sem hann á hér í húsinu, vegna þess að hann er ekki úti í bæ, hann er í húsinu. Eftir hálftíma matarhlé yrði þá forsrh. kominn í salinn og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gæti haldið áfram, vegna þess að við skulum hafa það alveg á hreinu að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er í annarri ræðu sinni og getur því ekki komið upp síðar í dag til að bera fram þær fyrirspurnir sem hann hyggst leggja fyrir forsrh.

Jafnframt hafði ég hugsað mér að spyrja forseta Alþingis, Halldór Blöndal, vegna þess að ég sá hann rétt áðan en hann virðist vera farinn núna, álits á því hvort honum finnist það eðlileg ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að hann stýrir fundinum en ekki aðrir hv. þm. þannig að ég bið hv. þm. að beina orðum sínum til þess forseta sem nú stýrir fundi.)

Já, þá mundi ég vilja stoppa hér við en held mig við þá tillögu sem ég hef lagt fram vegna þess að ég held, eins og ég hef áður sagt, að það væri kannski besta innleggið í að ná áframhaldi á eðlilegum þingstörfum þannig að hægt sé að ræða málið áfram en fara ekki í karp um hvernig því skuli fram vinda.