Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:56:59 (8173)

2004-05-14 11:56:59# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:56]

Kolbrún Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki séð annað en að hér séu fáheyrð tíðindi á ferðinni. Ég vil rifja upp hvernig málin hafa gengið fyrir sig þegar við fjöllum um viðveru hæstv. ráðherra í salnum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óskaði eftir því í fyrstu ræðu sinni við umræðuna að ráðherrar yrðu kallaðir í salinn. Gerðar voru ráðstafanir á þeim tíma til þess að draga þá hingað, hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh., hæstv. samgrh. og hæstv. menntmrh. Það gekk ekki og hv. þm. tók þá fram við lok ræðu sinnar að hann gerði kröfu um að þessir ráðherrar yrðu viðstaddir síðari ræðu hans.

Nú hefur hann hafið síðari ræðu sína. Hann hóf hana á því að segja að hann hefði óskað eftir því að leggja fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra, sérstaklega hæstv. forsrh., reyndar nefndi hann líka hæstv. samgrh. og hæstv. viðskrh. Gerðar voru tilraunir til þess að fá þá ráðherra í salinn. Hv. þm. var kominn að lokum ræðu sinnar á innan við hálftíma og hæstv. forsrh. var í húsinu. Gerðar voru tilraunir til að fá hann hingað í stól sinn og það gekk ekki.

Þá biður hv. þm. hæstv. forseta um það að fá að fresta ræðu sinni. Hæstv. forseti neitar þingmanninum um það, þannig að nú erum við í þeirri klemmu að hv. þm. á eftir að leggja sjálfsagðar spurningar fyrir hæstv. ráðherra, nýta þann rétt sem hann á, og hæstv. forseti hefur neitað honum um að fá að fresta ræðunni.

Ég sé því ekki annað en að við séum hér í gífurlegri klemmu og tek undir sjálfsagðar óskir þingmanna um að þeirri óvissu verði að ljúka og henni verður ekki létt nema hv. þingflokksformenn fái að setjast niður með forseta núna og ræða þá stöðu sem upp er komin.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á rétt á því að vera hér í ræðustóli eins lengi og honum sýnist, en hann var búinn að ljúka ræðu sinni en átti eftir þann sjálfsagða rétt sinn að leggja spurningar fyrir hæstv. forsrh. Ég sé því ekki annað en að hæstv. forseti sé í vanda og það þurfi að leysa úr honum. Það verður best gert með samtali formanna þingflokkanna þannig að það hlýtur að vera eðlilegt að gera hlé á fundinum núna og leysa þennan hnút.