Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:19:38 (8181)

2004-05-14 12:19:38# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við erum að hluta sammála og sammála um að hin formlegu verkaskipti séu eins og raun ber vitni. Formlega séð er það sérstaklega og kannski í fyrsta lagi formaður viðkomandi fastanefndar og oddviti meiri hlutans sem ber fram brtt. sem á að vera til staðar og til svara. Síðan kemur til þessi hefð sem ég hef rækilega farið yfir. Ég vona að hv. þm. hafi heyrt hvað ég sagði um þær hefðir sem hafa ríkt um að ráðherra sé sömuleiðis til staðar.

Í þriðja lagi er vert að minnast á það sem hv. þm. Pétur Blöndal kom ekkert inn á í máli sínu. Það er að hæstv. forsrh. er meira en forsrh. Hann er ekki bara sá ráðherra sem flytur þetta frv. inn í þingið. Hann er formaður Sjálfstfl. Hann er oddviti ríkisstjórnarinnar. Hann stýrir meiri hlutanum á Alþingi. Hann er foringi hans. Vill ekki hv. þm. gangast við því? Það er við þann oddvita meiri hlutans, sem ber einnig ábyrgð á þessu máli, sem ég vil eiga orðastað og leggja spurningar fyrir. Það er alvenjulegt að menn kalli t.d. til formenn stjórnarflokka þegar ríkisstjórn á í einhverjum málum og vilji leggja spurningarnar fyrir þá sem slíka. Ég er búinn að óska eftir hæstv. utanrrh., sem formanni Framsfl., ekki sem utanrrh., ekki að ég ætli að fara að spyrja Halldór Ásgrímsson, af því að hann fer á NATO-fundi, út í þetta mál. Nei, vegna þess að hann er formaður Framsfl. og ber ábyrgð á því að bera þetta mál fyrir þingið.

Það var við þessa höfðingja sem slíka sem ég vildi eiga orðastað. Mér þykir mjög miður að brotinn skuli á mér sá réttur sem ég hef og hef hugsað mér að standa á meðan ég verð á Alþingi að ég geti krafið ráðherra og forustumenn svara um mikilverð málefni og eigi heimtingu á að fá þau svör eða a.m.k. viðleitni af þeirra hálfu til að veita þau.

Hvert fara orðaskipti okkar og rökræður á þinginu ef þetta þróast áfram í sömu átt? Þeir hætta algerlega að mæta hérna. Þetta er allt á hraðri niðurleið því miður, herra forseti.