Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 14:26:32 (8186)

2004-05-14 14:26:32# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Þarna hefurðu það, Sjálfstfl. er orðinn grjótharður og eldrauður kommúnistaflokkur.

Undanfarna daga hefur efh.- og viðskn. fundað um frv. hæstv. forsrh. sem hér er til umræðu. Á morgunfundi nefndarinnar í gær lagði ég fram beiðni til formanns og nefndarmanna um að fulltrúar frá Kauphöllinni og fulltrúar frá sex lífeyrissjóðum kæmu á fund nefndarinnar og svöruðu spurningum fundarmanna. Ég taldi það rétt og grundvallaratriði að fulltrúi frá Kauphöll Íslands kæmi á fund nefndarinnar en yfirlýst markmið frumvarpsins er að tryggja dreifða eignaraðild í fjölmiðlafyrirtækjum, með öðrum orðum: stuðla að fjölbreytni á eignarhaldi í fjölmiðlarekstri. Enn fremur lagði ég til grundvallar beiðni minnar varðandi fundarþátttöku fulltrúa frá sex lífeyrissjóðum að sömu lífeyrissjóðir gætu átt alvarlega undir högg að sækja með að innheimta lögveðslausar lánakröfur sínar á hendur fyrirtækinu Norðurljós ef frv. hæstv. forsrh. næði fram að ganga.

Þessari beiðni minni var svarað játandi af hálfu fundarmanna og morgunfundur settur á en þeim fundi lauk nú um klukkan 10 í morgun. Á fundinum í morgun dró til enn frekari tíðinda sem enn og aftur undirstrikar mikilvægi þess að nefndin starfi áfram að málinu. Á næsta fundi nefndarinnar munu lagaprófessorar mæta og ræða sérstaklega við nefndarmenn um þau ákvæði stjórnarskrárinnar er snúa að atvinnufrelsi og eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands. Að mínu mati hefur bæði festa og ákveðni stjórnarandstæðinga í efh.- og viðskn. tryggt betri og ítarlegri efnisumfjöllun um frv. hæstv. forsrh.

Á fundi nefndarinnar í morgun upplýsti fulltrúi Kauphallarinnar nefndarmenn um að líklega væru ekki lagalegar skorður fyrir skráningu fjölmiðlafyrirtækja í Kauphöll Íslands ef fjölmiðlafrumvarpið næði fram að ganga. Fulltrúi Kauphallarinnar sagði engu að síður praktískar skorður fyrir því að fjölmiðlafyrirtæki næði inn skráningu í Kauphöllina ef frv. næði fram að ganga. Í því ljósi voru nefnd þrjú atriði, með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi mun mögulegum kaupendum á hlutum í fjölmiðlafyrirtækjum fækka allverulega.

Í öðru lagi munu fjölmiðlafyrirtæki eiga takmarkaðri möguleika á að stækka þar sem samlegðar- og hagræðingaráhrifum fyrirtækja í fjölmiðlarekstri eru settar miklar skorður.

Í þriðja lagi munu þær pólitísku breytingar sem nú eru í sjónmáli draga úr áhuga fjárfesta á fjölmiðlagreininni.

Þessar upplýsingar frá Kauphöllinni eru að mínu mati mjög athyglisverðar. Meginmarkmið forsrh., samkvæmt frv. hans, er að tryggja fjölbreytileika í eignarhaldi á fjölmiðlum, með öðrum orðum dreifða eignaraðild. Ef fyrirtæki í fjölmiðlarekstri komast á skrá í Kauphöll Íslands er jafnframt verið að tryggja sama fyrirtæki mjög dreifða eignaraðild. Því er með ólíkindum að frumvarpið endurspegli andstæðu sína með jafnafgerandi hætti án þess að stjórnarliðar hreyfi við skoðun sinni á frumvarpinu.

Einnig komu fram upplýsingar á fundinum er varða veðlausar kröfur frá lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum hjá Norðurljósum. Upplýsingarnar eru trúnaðarmál en þó leyfi ég mér að segja að þær auka enn frekar á áhyggjur mínar af afleiðingum frv. ef það nær fram að ganga.

[14:30]

Herra forseti. Allir landsmenn vita hvaða ófögnuður er hér á ferðinni. Fyrrverandi aðstoðarmaður forsrh. tilkynnti nýlega úrsögn sína úr Sjálfstfl. Skömmu síðar upplýsti sami maður íslensku þjóðina um samskiptaferli hæstv. forsrh. og forsvarsmanna fyrirtækisins Baugs. Þær upplýsingar sem þjóðinni bárust frá fyrrum aðstoðarmanni ráðherra undirstrika þau illindi sem hlaupin eru í samskipti milli æðsta ráðamanns íslensku þjóðarinnar og forsvarsmanna fyrirtækisins Baugs. Ekki er þjóðinni né þeim sem hér stendur kunnugt af hverju hæstv. forsrh. hefur horn í síðu forsvarsmanna tiltekins fyrirtækis. Þó er íslensku þjóðinni enn í fersku minni þegar hæstv. forsrh. hljóp á milli sjónvarpsstöðva og lýsti yfir andúð sinni á þeirri ætlun forsvarsmanna fyrirtækisins Baugs sem hann brigslaði um að hafa ætlað að múta sér. Hæstv. ráðherra gekk svo langt í lýsingum sínum að segja að honum hafi ekki verið svefnsamt á eftir. Samkvæmt minni vitneskju hefur hæstv. forsrh. aldrei lagt fram kæru á hendur umræddum aðilum, sem óneitanlega dregur úr trúverðugleika hæstv. ráðherra í því máli.

Í raun má fullyrða að um sorglegan atburð sé að ræða í sögu þjóðarinnar. Hæstv. ráðherra hefur vegið að stolti og reisn íslensku þjóðarinnar. Eitt er fyrir þjóðkjörna fulltrúa þjóðarinnar að takast á í pólitík líðandi stundar, en hitt er vanvirðing við íslenska þjóð að nota Alþingi Íslendinga til að ná sér niðri á einstaka þjóðfélagsþegnum í íslensku atvinnulífi.

Því miður hefur íslensk þjóð á einu ári upplifað alvarleg mistök eða slæman ásetning hjá helstu ráðamönnum þjóðarinnar. Hvert þjóðarhneykslið á fætur öðru hefur litið dagsins ljós á undanförnum missirum. Mér sýnist hæstv. forsrh. íslensku þjóðarinnar ekki kunna með vald að fara. Hann býr ekki yfir því siðferðisþreki sem einkenna verður sterka einstaklinga til að fara fyrir þjóðríkjum. Forsrh. okkar skortir umburðarlyndi, auðmýkt og yfirvegun.

Tími hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar sem æðsta embættismanns íslensku þjóðarinnar er að renna sitt skeið. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur oft og iðulega verið lofaður fyrir ákveðni sína og foringjahæfni. En góða hæfileika verður að fara vel með, herra forseti. Í minningunni má ætla að hæstv. ráðherra verði maðurinn sem lofaði sig í hástert fyrir afrek annarra manna, til að mynda afrek Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem á heiðurinn af tilkomu EES-samningsins og þeirri framfaraþróun sem einkennt hefur verslun og viðskipti undanfarinn áratug í íslensku viðskiptalífi.

Verður hans minnst sem mannsins sem alla sína valdatíð hélt sjávarútveginum, stærsta atvinnuvegi íslensku þjóðarinnar, í heljargreipum, í greipum örfárra auðmanna? Mannsins sem hafði ekki pólitískt vit á íslenskum landbúnaði og nauðsynlegum breytingum sem beðið hafa um áratug handan við hornið? Verður hans minnst sem mannsins sem á þann vafasama heiður að hin friðsama íslenska þjóð tók í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins beinan þátt í misheppnuðu hernaðarbrölti á hendur annarri þjóð?

Verður hans minnst sem mannsins sem tryggði sjálfum sér og öðrum aðalsbornum lúkur fjár með breytingum á afar umdeildu lífeyrisfrumvarpi? Verður hans minnst sem mannsins sem niðurlægði forseta íslenska lýðveldisins og notaði Alþingi Íslendinga sem risavaxinn sandkassa í einkaerjum sínum við einstaklinga úr íslensku atvinnulífi?

Herra forseti. Sambankaláni til Norðurljósa, upp á 5,7 milljarða kr., er stefnt í alvarlega hættu ef frv. sem hér er til umræðu verður að lögum. Gjaldfelling skýrist af samnings\-ákvæði í umræddum lánasamningi og fjallar um gjaldfellingu skulda ef rekstrarumhverfi fjölmiða breytist með afgerandi hætti. Lánardrottnar Norðurljósa, þar með taldir lífeyrissjóðirnir, sáu til sólar með innkomu nýrra sterkra fjárfesta inn í fyrirtækið á síðasta ári, þ.e. útlit var fyrir greiðslu á skuldum fyrirtækisins til lánardrottna sinna. Ef frumvarp Davíðs Oddssonar nær fram að ganga má að líkindum búast við afskriftum hjá lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum upp á nokkra milljarða króna. Hér er um fjármuni almennings að ræða. En hæstv. forsrh. getur andað léttar í þessu ljósi en eins og frægt varð tryggði hann sjálfum sér betri lífeyriskjör í desember á síðasta ári.

Í samkeppnislögum er til fyrirbrigði sem heitir ,,sameiginleg markaðsráðandi staða``. Með öðrum orðum: nokkur fyrirtæki sem sameiginlega eru markaðsráðandi á landsvísu, t.d. olíufélögin, viðskiptabankarnir, tryggingafyrirtækin o.s.frv. Það segir okkur að banki sem á veðskuldir í ljósvakamiðli sem verður gjaldþrota getur ekki tekið yfir reksturinn. Hann hefur þá 120 daga til að selja slotið sem eftir stendur. Það er óyggjandi staðreynd að bankar munu hugsa sig tvisvar, stundum þrisvar, um áður en þeir lána fyrirtækjum sem stunda rekstur ljósvakamiðla. Áhættan verður hreinlega of mikil.

Markmið frumvarpsins er m.a. að stuðla að fjölbreytni í eignarhaldi á fjölmiðlum. Ljóst er að erfitt verður að stofna til reksturs ljósvakamiðils sem er fjárfrekur fyrirtækjarekstur því bankarnir verða fráhverfir lánveitingum til slíkra fyrirtækja í breyttu umhverfi. Þetta leiðir áfram til fábreytni í eignarhaldi á fjölmiðlum og snýst upp í andstæðu þess meginmarkmiðs sem frumvarpið stendur fyrir.

Stjórnarliðar eru vægast sagt fátækir af gildum rökum til að réttlæta þetta undarlega frumvarp. Í þessu máli er fjölmörgum stjórnarskrárákvæðum ýtt til hliðar. Samkvæmt framgöngu stjórnarliða í þessu máli má ætla að þeim finnist ekki aðfinnsluvert að í þessu tiltekna máli megi hefta atvinnu- og tjáningarfrelsi manna. Þessi ákvæði stjórnarskrárinnar ber að vernda. Það er með engu móti skynsamlegt né boðlegt að hefja slíka þróun sem stjórnarliðar tala nú fyrir. Það er skylda þingmanna, jafnt stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga, að standa vörð um stjórnarskrá Íslands og þar með lýðræðið. Erjur forsætisráðherra við einstakar persónur í íslensku atvinnulífi eiga ekki að ná til Alþingis með þessum hætti.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur farið stórum og sagt breytingartillögur húsbónda síns stórmerkilegar, að allir geti stundað ljósvakarekstur samkvæmt frumvarpinu, að húsbóndinn hafi af auðmýkt sinni slegið á frest gildistíma útvarpsleyfis Bylgjunnar. Hvað er að gerast í kolli hv. þingmanns? Ætlar hann þjóðinni að trúa þessu yfirvarpi sínu? Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir þeim vanda sem steðjar að einum stærsta vinnustað landsins? Býr hv. þm. yfir einhverri ofurbjartsýni?

Lífeyrissjóðirnir sem farnir voru að sjá fram á að fá skuld sína greidda frá Norðurljósum þegar reyndir og fjársterkir kaupsýslumenn komu að fyrirtækinu á síðasta ári eru nú í stórhættu með að gríðarlegar fjárhæðir fari í afskriftir. Hér er um fjármuni almennings að ræða, lífeyrissjóðina.

Telur hv. þm. að nokkur maður í þessu landi geti talið hann eða fyrrum frjálshyggjupostula og félaga hans úr Sjálfstfl. trúverðuga eftir framgöngu þeirra í þessu máli?

Ég minni hv. þm. á þá staðreynd, og alla aðra þingmenn stjórnarliða, að fyrirtækið Norðurljós sem frv. húsbónda hans beinist gegn hefur aldrei misnotað stöðu sína sem markaðsráðandi fyrirtæki. Ekki nokkur einasta kæra, að því er mér er kunnugt, liggur á borði Samkeppnisstofnunar þar að lútandi. Þegar litið er til eins af eigendum Norðurljósa, fyrirtækisins Baugs, er þar að finna mann sem frá fyrstu tíð vann sig upp með eina milljón króna í vasanum. Sá maður heitir Jóhannes Jónsson. Enginn kaupsýslumaður í þessu landi gefur jafnríkulega til velferðarmála og einmitt Jóhannes Jónsson. Hann er ekki og hefur aldrei, svo mér sé kunnugt, verið á ríkisspenanum, heldur maður sem af einskærum dugnaði, framfaraþrótti og skynsemi, náði að byggja fyrirtæki sitt upp. Hann kom með nýjungar inn í íslenskri smásölu sem hafa tryggt og eflt margar fjölskyldur í þessu landi. Verslunarkeðjan Bónus er þar í fararbroddi.

Hv. þingmenn Sjálfstfl., sem frá öndverðu hafa boðað frelsishyggjuna til að tryggja að frumkvöðlakraftur, framsýni og metnaður einstaklinga á borð við Jóhannes Jónsson fái sín að fullu notið öllum Íslendingum til framdráttar, hafa ákveðið að hlýða reiðikalli húsbónda síns. Varla er liðið ár af ferli þeirra á hinu háa Alþingi þegar stefna, hugsjónir og framtíðarsýn þessara ungu hv. þingmanna riðar til falls. Þetta er merki um óstyrka stjórnmálamenn sem þó hafa strax náð nokkurri hæfni í þeirri list að slá ryki í augu almennings.

Herra forseti. Fyrirtækið Baugur Group er metið á 127 milljarða kr. Þar af eru skuldir fyrirtækisins 100 milljarðar kr. Það segir okkur að fyrirtækið er með eigið fé að upphæð 27 milljarða kr. miðað við núverandi vaxta- og gengisstig. Mér skilst að fjölskyldur Jóhannesar Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eigi að samanlögðu um þriðjung í Baugi Group, eða sem svarar að hreinni eign um 9 milljarða kr. Þetta er nú allur auðhringurinn sem ríkisstjórn Íslands segir þá feðga ráða yfir. Níu milljarðar er ekki nema tæpt prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna í landinu. Þess ber að minnast, herra forseti, að einn af viðskiptabönkum okkar, sem nýlega var seldur af hæstv. ríkisstjórn til einkavina hennar, skilaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hálfri þeirri upphæð sem ég nefndi, allt að 4 milljörðum kr.

Herra forseti. Það má líkja því við barnslega einfeldni ef hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar sjá ekki þá miklu hættu sem stafar af þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Ó, jú.) Störfum 700 ungra manna og kvenna er stefnt í voða. (KHG: Þeir sjá hana.)

Herra forseti. Ég vil þó taka fram að einn stjórnarliði, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fylgir stjórnarandstöðunni í þessu máli. Ég bíð í þeirri von að fleiri komi til og sjái að sér.

Ef til gjaldfellingar kemur á sambankaláni til Norðurljósa er ljóst að við blasa fjöldauppsagnir. Í þessu ljósi vil ég minnast á atvinnustefnu núverandi stjórnarflokka frá síðustu alþingiskosningum. Þar var kveðið á um stórkostlega uppbyggingu á Reyðarfirði sem tryggja mundi 500 manns ný störf og bjarga heilu héraði. Heilu héraði. Í þessum samanburði sést skýrlega hversu stórt og grafalvarlegt mál er hér á ferðinni. Við getum einfaldlega ekki leyft okkur að stofna lifibrauði þúsunda manna í hættu. Ætla má að hver starfsmaður sé jafnframt fyrirvinna barna sinna. Allt þetta skal fært á altari eins manns, einstaklings svo fátækum af mannsins gildum og almennu siðferði, hæstv. forsrh. íslensku þjóðarinnar, Davíðs Oddssonar.

Í samkeppnislögum er skýrt kveðið á um að starfrækja megi fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu en aftur á móti mega slík fyrirtæki ekki misnota aðstöðu sína. Herra forseti. Hefur fyrirtækið Norðurljós misnotað aðstöðu sína? Ef svo er þá hlýtur að liggja fyrir kæra til Samkeppnisstofnunar um málið. Ef engin kæra liggur fyrir þá er ljóst að fyrirtækið er ekki að misnota stöðu sína sem markaðsráðandi fyrirtæki.

Því er það með eindæmum hversu hratt á að klára jafnviðamikið mál hér á síðustu dögum þings. Engin rök er að finna hjá stjórnarliðum fyrir óeðlilegum hraða við meðferð málsins. Er nóg að hæstv. ráðherrar mæti í ræðustól kjökrandi yfir skopfrásögnum í DV? Er það nóg að hugmyndafræðingur og aðalséní Sjálfstæðisflokksins til margra ára, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, mæti í sjónvarpssal og gagnrýni réttmæta gagnrýni íslenskra fjölmiðla á ríkisstjórnina?

Herra forseti. Gagnrýni er holl í pólitík, en því miður fellur heilbrigð gagnrýni ekki í kramið hjá ráðstjórnarherrum þessa lands.

Herra forseti. Sú útvarpsstöð sem ég sjálfur hlusta mest á, Útvarp Saga, á einnig undir högg að sækja. Fjórir reyndir einstaklingar úr útvarpsgeiranum tóku sig saman um að stofna til fyrirtækis utan um rekstur Útvarps Sögu. Sömu einstaklingar lögðu mikið undir, fjármuni sína og ótakmarkaða vinnu. Áður en farið var af stað settu hinir nýju eigendur sér markmið. Öll gerðu þau sér grein fyrir því að róðurinn yrði erfiður fyrstu árin, eins og gengur og gerist í rekstri nýrra fyrirtækja. Markmið fjórmenninganna var að bjóða landsmönnum upp á vandaða útvarpsdagskrá sem tryggja mundi mikla hlustun hjá almenningi. Þau gerðu sér grein fyrir því að með auknum vinsældum stöðvarinnar mundu ný tækifæri skapast fyrir fyrirtækjarekstur Útvarps Sögu. Tækifærin gætu heillað öfluga fjárfesta að fyrirtækinu en aðkoma þeirra gæti reynst fyrirtækinu happadrjúg og tryggt rekstur útvarpsstöðvarinnar í sessi um ókomin ár.

Með frv. hæstv. forsrh. hefur skyndilega dregið fyrir sólu hjá þessu ágæta fyrirtæki. Atvinnufrelsi, viðskiptafrelsi og í raun hvatinn til reksturs stöðvarinnar hefur verið fótumtroðinn af hæstv. forsrh. Hver gæti framtíð Útvarps Sögu orðið ef frv. forsrh. nær ekki fram að ganga? Er mögulegt að fyrirtækið geti söðlað um og einnig hafið sjónvarpsrekstur á fréttasviði, kannski í stíl við fræga og virta kollega þeirra í Bandaríkjunum sem standa að fréttaskýringarþættinum 60 mínútur?

[14:45]

Erfitt er að segja til um hvernig útvarpsstöðvar þróast en þó má fullyrða að ef frv. hæstv. forsrh. nær fram að ganga verður framfaraþróttur einstaklinga og fyrirtækja á fjölmiðlasviði laminn niður. Það ótrúlega er að sjálfskipaðar frelsishetjur þjóðarinnar, sjálfstæðismenn, eru hér að verki. Þessi U-beygja og sögufrægi viðsnúningur mun verða Sjálfstfl. dýrkeyptur. Fyrr átti ég von á þáltill. frá Vinstri grænum um einkavæðingu ríkissjónvarpsins.

Herra forseti. Ég vil færa mál mitt að öðru fyrirtæki og öllu stærra í fjölmiðlarekstri. Fyrirtækið Norðurljós náði að styrkja rekstrargrunn sinn með aðkomu fjársterkra aðila á síðasta ári. Fyrirtækið náði m.a. að semja við sex lífeyrissjóði í landinu um greiðslu skulda sinna. Greiðslusamningar Norðurljósa við lífeyrissjóðina ná allt til ársins 2017. Gjaldföllnum vöxtum á skuldum Norðurljósa við lífeyrissjóðina var að mestu breytt í hlutabréf og eru því að andvirði á annað eða þriðja hundrað millj. kr. Allar áætlanir Norðurljósa hafa gengið upp eftir almenna uppstokkun á rekstri fyrirtækisins og innkomu nýrra fjárfesta á síðasta ári.

Í frv. forsrh. er lagt til að markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri með heildarveltu yfir 2 milljarða á ári megi ekki eiga nema 5% í ljósvakamiðli. Herra forseti. Skoðum áhuga slíkra aðila á aðkomu í greinina undir slíkum kvöðum.

Í fyrsta lagi er 5% eignarhlutur ávísun á valdaleysi í efnahagslegum eða daglegum rekstri hjá fyrirtækjum almennt. Í öðru lagi er fyrirtæki með 5% eignarhlut með afar takmarkaða möguleika á að ná inn stjórnarmanni undir slíkum kringumstæðum. Í þriðja lagi er einsýnt að fyrirtæki með 5% eignarhlut í óskráðu fyrirtæki sé með öllu að leggja fram fé sem teljast verður fé án hirðis.

Til upplýsinga fyrir herra forseta bendi ég á að ljósvakafyrirtæki eitt og sér hefur ekki burði til að ná skráningu í Kauphöll Íslands. Hér endurspeglast ein af fjölmörgum þversögnum í frv. hæstv. forsrh. Það liggur í augum uppi að öflugt fjölmiðlafyrirtæki sem kemst á almennan markað, með löglega skráningu í Kauphöll Íslands, býður sjálfkrafa upp á að fjölbreytileiki verði á eignarhaldi fyrirtækisins. Með öðrum orðum: dreifð eignaraðild í réttum skilningi þess orðs. Núverandi hluthafar, stjórn og forstjóri Norðurljósa hafa ítrekað greint frá þeim markmiðum sínum að fyrirtækið fari á markað seint á næsta ári.

Herra forseti. Fyrirtæki sem skráð er í Kauphöll Íslands þurfa að gangast undir mjög ströng skilyrði. Eitt þeirra skilyrða er að fyrirtæki megi ekki lúta afgerandi hömlum. Frv. hæstv. forsrh. hlekkjar rekstrarumhverfi fjölmiðlafyrirtækja svo mikið að ekki eru dæmi um aðrar eins viðskiptahömlur á eina atvinnugrein í nútímalýðræðisríkjum. Frumvarpið er æpandi illa ígrundað og ber merki haturs og hefndar á hendur einstökum aðilum í íslensku viðskiptalífi.

Herra forseti. Ef þessi bastarður forsrh. nær fram að ganga er ljóst að við tekur tímabil streitu og erfiðis hjá þúsundum manna sem að fjölmiðlarekstri koma. Jafnframt munu lánardrottnar fjölmiðlafyrirtækja eiga erfitt um vik. Því er þarft að spyrja íslensku þjóðina hvort sé gáfulegra:

1. Að óbreytt frv. forsrh. nái fram að ganga með þeim afleiðingum sem hér hafa verið reifaðar í nokkra tugi klukkustunda.

2. Að staldra við, bíða með lagasetningu, ræða málið betur og fara aðrar leiðir sem tryggja munu að tillögur nefndar á vegum hæstv. menntmrh. nái fram að ganga.

Skýrsla hæstv. menntmrh. og frv. hæstv. forsrh. eru tveir ólíkir hlutir. Mér þykir sorglegt að hæstv. menntmrh. skuli láta leiða sig í aðrar eins ógöngur. Ég geri ráð fyrir að að öskufalli loknu muni ráðherra viðurkenna afglöp sín, annaðhvort fyrir þjóðinni, í það minnsta fyrir sjálfum sér, en hagur þúsunda Íslendinga mun ekki batna við þau krókódílatár.

Það er fróðlegt að skoða sögu Norðurljósa. Fyrirtækið hefur átt í samstarfi við fjölmörg sveitarfélög. Sveitarfélögin hafa fjárfest í sendum og tryggt umbjóðendum sínum það val að kaupa sér áskrift að dagskrá sjónvarpsstöðva Norðurljósa. Í dag hefur fyrirtækið Baugur einungis einn stjórnarmann í stjórn Norðurljósa. Í raun ætti hæstv. forsrh. að taka það sér til fyrirmyndar. Hvaða fnykur er af mannaráðningum í æðstu stöðu Ríkissjónvarpsins?

Fjölmiðlarekstur Norðurljósa er undir trúverðugleika fyrirtækisins kominn. Reksturinn verður að bera sig svo endar nái saman. Ef fyrirtækið misbeitir valdi sínu kemur það strax niður á rekstri félagsins, að ógleymdu eftirlitshlutverki Samkeppnisstofnunar. Mér er ekki kunnugt um að nokkur kæra sé á borði stofnunarinnar um misbeitingu Norðurljósa á stöðu sinni á hinum íslenska fjölmiðlamarkaði.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli harðlega þessu frumvarpi og bíð í voninni um að hv. stjórnarliðar endurskoði hug sinn í þessu máli.