Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:26:05 (8188)

2004-05-14 15:26:05# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að komast í andsvar, sem sumir þingmenn virðast vera á móti.

Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa lesið úr Frelsinu. Það er alltaf góð lesning. Ég vil spyrja hv. þm. hvað hann telji að John Stuart Mill hefði sagt um það að einn aðili ætti alla fjölmiðla. Ef einn aðili ætti alla fjölmiðla, sem eru þó mikilvægasti þátturinn í að koma skoðunum sínum á framfæri, mundi það samrýmast frelsinu, ef einn aðili ætti alla fjölmiðlana?

Síðan er önnur spurning. Hv. þm. vitnaði í hv. þm. Kristin H. Gunnarsson sem fyllir nýjan meiri hluta í efh.- og viðskn. Hann vitnaði í ræðu hans. Kristinn H. Gunnarsson sagði í gær að ríkir menn hefðu líka tjáningarfrelsi. Spurning mín til hv. þm. er eftirfarandi: Telur hann að ríkir menn, sem eru mjög ríkir, megi kaupa sér tjáningarfrelsi með því að kaupa upp alla fjölmiðlana? Væri tjáningarfrelsi þeirra ekki þar með farið að ganga á frelsi annarra?

Síðan vildi ég spyrja hv. þm. um það sem hann segir varðandi ritstjórnarfrelsi, þar sem ritstjórinn á að vera óháður eigandanum: Hvernig fer það saman við það að ríkir menn hafi líka tjáningarfrelsi, ef sú skyldi vera niðurstaðan? Gætu menn þá ekki keypt fjölmiðil, átt hann og komið skoðunum sínum á framfæri þar og eingöngu þeim?

Þá vildi ég spyrja hv. þm. í fjórða lagi: Ein lausn fjölmiðlanefndarinnar var að styrkja RÚV, að vegna þess að ríkir menn dæla inn peningum til að kaupa sér áhrif og skoðanamyndun þá eigi að styrkja RÚV sem málpípu ríkisins á móti. Er það í samræmi við frelsið, að tveir aðilar keppist um að kaupa sér skoðanir?

Svo vildi ég spyrja hv. þm. í lokin: Í SPRON-málinu þá greiddi Samfylkingin atkvæði með miklum hraða og sértækum lögum og snerist 180° miðað við núverandi stefnu. Er hv. þm. sáttur við það?