Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:32:59 (8191)

2004-05-14 15:32:59# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég nota kannski orðið ,,undarlegt`` eitthvað öðruvísi en hv. þm. En það hvarflaði ekki að mér að þótt ég segði að umræða hv. þm. um einhver ákveðin mál væri undarleg þá væri ég að fjalla um persónu hans. Ég er að fjalla um skoðun hans. (PHB: Þú sagðist hafa misskilið mig.) Já, misskilið. En það gat alveg eins verið að ég hefði verið eitthvað óskýr. Ég vildi reyna að leiðrétta það og það tengdist ekki persónu hv. þm., þannig að allur vafi sé tekinn af um það. Ég hélt ég hefði nú með tilvitnun í Frelsið farið þannig með málið að það væri augljóst hvaða skoðun ég hefði á skoðunum annarra þótt þeir séu ekki sammála mér. Ég held að við þurfum ekki að eyða meiri tíma í það.

Hins vegar var þetta merkilegt andsvar hjá hv. þm. Ég heyrði að hv. þm. hafði annan skilning á viðtali við forsvarsmann Skjás 1 en þann sem ég hafði. Ég skildi það þannig, eftir því sem sá ágæti maður sagði í morgunfréttum í gær, að það væri í raun og veru Baugur sem búinn væri að pína niður auglýsingaverð í gegnum Ríkisútvarpið, vegna stærðar sinnar væntanlega, að hann væri á 50% afslætti hjá Ríkisútvarpinu og þess vegna stæði Skjár 1 svona illa.

Ég tók eftir því að hv. þm. sagði að framkvæmdastjóri Skjás 1 hefði talað um það að hann gæti lifað við óbreytt ástand í eitt til tvö ár. Bíddu nú við. Er hér komin skýring á stuðningi hv. þm. við hið undarlega frumvarp, svo ég noti nú það orð aftur, að það sé sérstök væntumþykja í garð eins fyrirtækis og þá megi fórna öðru? (Gripið fram í.) Ég held að það sé lykilatriðið, hv. þm., að við reynum að skoða þetta í heild sinni og séum ekki að fórna einhverjum til að rétta annan við. Vonandi erum við sammála um að við viljum hafa fjölmiðlun sem alfjölbreyttasta. Þá verðum við að finna leið til þess.

Hv. þm., við eigum ekki að leyfa foringjunum að stytta sér stöðugt leið.