Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:00:42 (8194)

2004-05-14 16:00:42# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt þetta líka og hélt þessu fram við 1. umr. en hæstv. forsrh. leiðrétti mig þá. Ég nefndi að það væri ekki hægt að úthluta einstaklingi útvarpsleyfi ef skilja ætti textann svona. Hæstv. forsrh. leiðrétti mig og ég tók það gilt.

Ég verð að segja að það hefði þurft að laga textann meira. Í útvarpslögunum, 2. mgr. 6. gr. útvarpslaga, stendur áfram að einstaklingum og fyrirtækjum sé hægt að úthluta útvarpsleyfi. Þá liggur það fyrir, ef þessi skilningur er uppi, að forsrh. hefur misskilið þetta. Þar með er ljóst að enginn einstaklingur getur fengið úthlutað útvarpsleyfi vegna þess að það geta ekki minna en fjórir fengið úthlutað útvarpsleyfi. Ég tel þess vegna að hv. þm. þurfi að setjast niður með hæstv. forsrh. og lesa þetta fyrir hann.