Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:21:35 (8198)

2004-05-14 16:21:35# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir málefnalega ræðu, eina af fáum málefnalegum ræðum sem ég hef heyrt síðustu daga. Það verður að segja eins og er, að þær hafa ekki allar verið málefnalegar og hafa ekki kallað á skoðanaskipti um þetta mál. Ég þakka hv. þm. sérstaklega fyrir hve málefnalega hún ræddi þessi mál.

Hún sagði í ræðu sinni að eignarhald á fjölmiðlum gæfi vald. Það er vandmeðfarið og hægt er að misbeita því. Það þurfa að vera skýrar leikreglur. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. í því efni og vil enn einu sinni minna á till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla sem ég er flutningsmaður að ásamt öðrum. Þar er 1. flutningsmaður Álfheiður Ingadóttir, sem er varaþingmaður Vinstri grænna. Sú tillaga var lögð fram í kjölfar þess að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hóf á haustþinginu umræðu um vald fjölmiðla og samþjöppun þeirra. Ég tel að það mál, skýrslan sem unnin var fyrir tilstilli hæstv. menntmrh. og þetta mál tengist öll saman. Með þessu frv. er einmitt brugðist við því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir varaði við í ræðum sínum og vildi að væri skoðað. Það er varhugavert að of fáir aðilar séu ráðandi á fjölmiðlamarkaðnum. Þótt í boði séu margir fjölmiðlar þá er verra að þeir séu allir í eigu sama eiganda. Það skiptir máli.