Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:26:05 (8200)

2004-05-14 16:26:05# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þuríður Backman kallaði eftir því að þingmenn tækju þátt í umræðunni. Það liggur við að manni ói við að fara á mælendaskrá þar sem 21 er þar fyrir. Hver og einn er með tveggja til þriggja tíma ræðu. Hér hefur verið farið út í mjög einkennilegar umræður, lesið upp úr bókum og annað þess háttar sem ekki hefur snert málið beinlínis. Maður er því oft búinn að gleyma því sem hv. þm. hóf ræðu sína á og því er erfitt að hafa skoðanaskipti við viðkomandi.

Með því að halda svona maraþonræður og stunda málþóf eins og verið hefur hér í dag hefur ekki verið kallað eftir skoðanaskiptum. Hið sama segja blaðamenn úti í bæ. Meira að segja formaður Blaðamannafélagsins hefur kallað þetta málþóf stjórnarandstöðunnar. Hvar sem maður kemur þá undrast fólk þetta. Það er ekki hægt að halda uppi málefnalegum skoðanaskiptum þegar fólk stendur í málþófi dag eftir dag og hleypir ekki öðrum að. Við erum alveg tilbúin að ræða þetta mál og setjum okkur á mælendaskrá. (JGunn: Af hverju ertu þá ekki á mælendaskrá?) Ég geri það þegar mér sýnist, hv. þm. Jón Gunnarsson, ég geri það sjálf og þarf ekki að fá þína hjálp við það. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Þuríður Backman hefur talað um að það væri mikill titringur í þjóðfélaginu. Það er mjög umhugsunarvert þegar bæði blaðamenn og eigendur fjölmiðla hóta fólki um allan bæ. Það er mjög alvarlegur gjörningur. (Gripið fram í: Hvaða hótanir eru það?) Svo alvarlegur ... (Gripið fram í: En forsætisráðherrann?) Það er alvarlegur gjörningur, hæstv. forseti.