Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:20:31 (8205)

2004-05-14 17:20:31# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór hér yfir löggjöfina í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Ég hvet bara hv. þingmann til að kynna sér það. (HHj: Hún er langtum vægari.) Það er alveg sama þó maður fari yfir það, samt sem áður kemur hv. þm. og segir bara að þetta sé strangara en gerist nokkurs staðar annars staðar. Ég veit ekki hvað mikið meira er hægt að gera til þess að fara yfir það mál með hv. þm.

Varðandi hugmyndir mínar og hugsjónir þá fer þetta vel saman með því. Virðulegi forseti. Menn sem kalla sig mestu frjálshyggjumenn geta sagt að þeir hafi gagnrýnt mig fyrir að vera á móti lögleiðingu fíkniefna. Þeir hafa gagnrýnt mig fyrir að vera fylgjandi fæðingarorlofi og vilja ekki leggja niður Samkeppnisstofnun og hafa lög um fjármálafyrirtæki. Þannig er það bara. Ég er bara ekki þeirrar skoðunar að það eigi að leggja allt þetta niður og ég er ekki fylgjandi því að lögleiða fíkniefni. Ég er fylgjandi almennum leikreglum og því að við eigum hér að setja þær til þess að hámarka frelsi fólksins og efnahagslegan bata.