Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:29:15 (8212)

2004-05-14 17:29:15# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson steig upp í þennan ræðustól til þess að flytja ræðu sína þá hafði ég á orði við félaga mína í þinginu að ég þættist nú vita hvernig ræðan yrði, hún yrði álíka og ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem hefur nú ekki fengið glæsilega dóma af öðrum ræðumönnum hér í dag, en hún yrði einhvern veginn á þá leið að hann mundi byrja á því að rifja upp gamlar ræður samfylkingarmanna, svo mundi hann taka upp fallega skýrslu menntmrh. og boða heilagan boðskap úr henni. Það er nú einu sinni svo, virðulegi forseti, að skýrsla hæstv. menntmrh. og svo frumvarp hæstv. forsrh. eru tveir gjörólíkir hlutir.

Hann endaði reyndar ræðu sína á því að fara svona yfir í brandara og eins og skólastúlkur á enskri grund flissuðu félagar hans hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Bjarni Benediktsson. En málið er alvarlegra en svo. Ég vil þó fara í kjarnann og spyrja hv. þm. út í 5% regluna og 2 milljarðana, hvað honum finnist um þau skref.