Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 10:37:11 (8220)

2004-05-15 10:37:11# 130. lþ. 116.91 fundur 567#B ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hæstv. forsrh. í fjölmiðlum í gærkvöldi, í sjónvarpinu vil ég segja að ég hef staðið í þeirri meiningu, hæstv. forseti, að við værum að ræða almenn lög. Því hefur verið haldið fram af stjórnarliðum sérstaklega. Ég átta mig ekki á því hvernig hæstv. forsrh. lætur sér detta í hug að fullyrða að forseti Íslands sé vanhæfur varðandi það að hugsanlega sé hægt að skjóta málinu til þjóðarinnar. Það er málskotsréttur til þjóðarinnar ef sú ákvörðun væri tekin af hæstv. forseta lýðveldisins að synja um staðfestingu þeirra lagafrumvarpa sem hafa verið rædd undanfarna daga. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hæstv. forsrh. talar um málið á þessum nótum og furða mig á því.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta, hæstv. forseti, en tel að þetta hafi verið óviðurkvæmilegt af hæstv. forsrh. Ég ætla einnig að segja það, hæstv. forseti, að ég gleðst yfir því að sjá alla þessa ráðherra mætta til umræðunnar og býð þá alla hjartanlega velkomna. Þeir hafa lítið sést hérna í síðustu viku. Þetta er auðvitað að mörgu leyti ánægjulegur dagur, fyrsta deildin er að hefjast og það er Eurovision í kvöld og ég vona að okkur farnist vel. En ég vil bara beina þeim orðum til forustumanna ríkisstjórnarinnar að menn gæti hófsemi í því sem þeir láta sér um munn fara.