Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 10:41:50 (8222)

2004-05-15 10:41:50# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Upp er runninn enn einn dagurinn þar sem við tölum um hin svokölluðu fjölmiðlalög og reynist grunur minn á rökum reistur mun sá dagur eflaust fara í það að ræða um þá mjög svo umdeildu löggjöf.

Ég kem upp í annað sinn til að flytja seinni ræðu mína við 2. umr. málsins og ætla svo sem ekki að hafa mál mitt mjög langt, enda hefur flest verið sagt sem segja þarf í umræðunni að ég tel.

Ég tók eftir því í gær þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti ræðu sína að hann lýsti mjög eftir því að stjórnarandstaðan hefði eitthvað efnislegt fram að færa. Hann talaði um að stjórnarandstaðan væri mjög dugleg við það að gagnrýna frv., hafi ég tekið rétt eftir --- ég var reyndar upptekinn og heyrði ekki alla ræðu hans --- en hann lýsti eftir því að stjórnarandstaðan kæmi með einhverjar lausnir.

Það er á vissan hátt röksemd ef svo má segja en samt ekki. Málið er nefnilega að frv. sem nú liggur fyrir þinginu er vanreifað á allan hátt, ekki hefur verið haft samráð við þá sem máli skiptir og þetta er allt saman mjög illa undirbúið.

Ég ætla ekki að standa hér og lýsa yfir einhverjum patentlausnum á því hvernig við eigum að fara í þetta vandamál eða þetta mál sem er eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi í dag, enda er sá tími ekki kominn enn þá. Ég minni á að fyrir áramót var lögð fram þáltill. sem við í Frjálsl. stóðum m.a. að þar sem lagt var til að Alþingi kysi nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka, hæstv. forseti, allra þignflokka, ekki einhverjum gæðingum úti í bæ, einhverju leynifélagi úti í bæ sem skipað var af ríkisstjórninni til þess að semja einhverja leyniskýrslu sem síðan hefur verið lögð fyrir þingið og á grundvelli þeirrar leyniskýrslu, þessa leynifélags, hefur verið soðið saman frv. sem er hin mesta hrákasmíð.

Ég tel að hæglega hefði verið hægt að ná lendingu í málinu ef haft hefði verið samráð við alla þingflokka, ef haft hefði verið samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla hér á landi, samtök þeirra, og aðra sem málið varðar. En það var ekki gert og það er mergurinn málsins og það er kannski meginástæða þess að við, hið háa Alþingi, erum nú komin í þær ófærur sem við erum í í dag. Það er allt í háalofti í þjóðfélaginu einmitt vegna þess hvernig farið var inn í málið, þ.e. þversum. Það var farið þversum inn í málið og það er allt saman að enda með ósköpum. Ég tel að það sé meginástæða þess að við höfum ratað í þessar ógöngur.

[10:45]

Ég tel að það sé fullur vilji til þess hjá öllum þingflokkum að athuga einmitt þetta með eignarhald á fjölmiðlum og hvernig því er skipað, skoða það vandlega og setja síðan einhverja heildstæða löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi og starfsumhverfi þeirra, meðal annars frelsi ritstjórna gagnvart eigendum sínum.

Virðulegur forseti. Eigendur fjölmiðla á Íslandi í dag hafa oft eða virðast alla vega sumir hverjir reyna að hafa áhrif á það hvernig starfsmenn þeirra haga vinnu sinni. Þá er ég að tala um fréttamenn og dagskrárgerðarmenn. Mjög gott dæmi um það er pistill sem sá ágæti fréttamaður til margra ára og blaðamaður, Egill Helgason, skrifaði þann 10. maí síðastliðinn þar sem hann lýsti því einmitt hvernig eigendur sjónvarpsstöðvarinnar Skjás 1 hefðu fyrir síðustu kosningar markvisst reynt að hafa áhrif á það hvernig hann stjórnaði sínum vinsæla spjallþætti Silfri Egils.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson fór yfir þetta í gær og las pistil sem Egill Helgason skrifaði, eins og ég sagði áðan, hinn 10. maí síðastliðinn og birti á vefsíðu sinni. Ég ætla svo sem ekkert að lesa þann texta aftur. En þar er til dæmis mjög gott dæmi um það hvernig eigendur fjölmiðils sem eru í einhverri pólitískri krossferð reyna grímulaust að hafa áhrif á það hvernig þáttastjórnandi skipuleggur þátt sinn og hvernig hann á að haga sinni vinnu. Sem betur fer, hæstv. forseti, lét Egill Helgason þetta ekki á sig fá. Hann lét ekki bugast. En það endaði líka með því að hann var hrakinn á brott frá þessari sjónvarpsstöð, Skjá 1. Hann var hrakinn á brott. Þarna var fjölmiðlamaður sem sýndi sjálfstæði og hafði nægt hugrekki og bein í nefinu til að standa á móti þessum þrýstingi. Það kostaði hann vinnuna, gott og vel. En hann stóð eftir með sitt. Þetta finnst mér, hæstv. forseti, segja meira en mörg orð einmitt um það að alvöru fjölmiðlamenn láta ekki eigendur hafa áhrif á sig. Þeir láta ekki eigendur fjölmiðla stjórna sínum fréttaflutningi.

Ég er sjálfur fyrrverandi fjölmiðlamaður, var blaðamaður til margra ára, hef unnið við sjónvarp og útvarp. Ég hef unnið á fjölmiðlum, meðal annars erlendis þar sem voldugir eigendur stóðu að baki, einir helstu jöfrar í viðskiptalífi Noregs. Ég var blaðamaður á norsku sjávarútvegsblaði sem heitir Fiskaren. Þetta blað var lengi vel í eigu norsku síldarsölusamtakanna, það er að segja hagsmunasamtökum í norskum sjávarútvegi. Þessi hagsmunasamtök skynjuðu sinn vitjunartíma fyrir nokkrum árum og sáu að þau ættu ekki að eiga fjölmiðil. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þau voru hagsmunasamtök. Þessi samtök ákváðu að selja blaðið. Það fór að kvisast út að blaðið væri til sölu. Við, blaðamennirnir á blaðinu, hvað gerðum við? Jú, við hófum að eigin frumkvæði viðræður við ritstjóra stærsta viðskiptablaðs Noregs sem heitir Dagens Næringsliv. Það er dagblað sem kemur út sex sinnum í viku. Það er mjög voldugt og stórt blað og er meðal annars í eigu helstu viðskiptajöfra Noregs. Við settum okkur í samband við þáverandi ritstjóra Dagens Næringsliv, mann að nafni Kåre Valebrokk sem er einn virtasti ritstjóri og fjölmiðlamaður Noregs. Hann er núna forstjóri norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2, sem sagt stöðvar 2 í Noregi. Hann var þá ritstjóri Dagens Næringsliv. Við blaðamennirnir höfðum að eigin frumkvæði samband við hann og spurðum hann hvort útgáfufélag Dagens Næringsliv hefði áhuga á að eignast Fiskaren. Hann vissi ekkert um það. Hann hafði ekki hugmynd um það. En hann hafði mikinn áhuga á því að innlima Fiskaren inn í Dagens Næringsliv-útgáfuna. Vegna þess að honum þótti þetta verkefni áhugavert sem fjölmiðlamanni fór hann sjálfur í að sannfæra ritstjórn og eigendur Dagens Næringsliv um að rétt væri að kaupa þetta blað. Hann hafði sitt fram. Þeir sem eiga þetta blað, Dagens Næringsliv, eru einir helstu viðskiptajöfrar Noregs, meðal annars voldugir útgerðarmenn á borð við Fred Olsen. Þeir keyptu Fiskaren. Þeir komu inn með fjármagn í þetta blað á sínum tíma. Ég er að tala um 1997--1998. Þeir komu inn, fjársterkir aðilar með mikið fjármagn, í þetta blað og gáfu okkur blaðamönnunum gersamlega lausar hendur með það að búa til nýtt blað. Við fengum mikið af peningum. Við fengum endurnýjaðan tækjabúnað. Við fengum aðstoð mjög færra fjölmiðlamanna í Noregi til þess að endurskapa blaðið og endurbyggja blaðið. Það gerðum við. Við fórum í þessa vinnu og tókst þokkalega til. En aldrei á einum einasta tímapunkti urðum við nokkurn tímann varir við að eigendurnir, það er að segja þeir sem létu okkur hafa þetta fjármagn, reyndu að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins, aldrei nokkurn tímann. Enda hefði það aldrei verið liðið. Hefðu þeir reynt það hefðum við gengið út allir sem einn. En það heyrðist aldrei neitt frá þeim. Það eina sem þeir sögðu við okkur var: ,,Við látum ykkur hafa þessa peninga og eftir þrjú ár skuluð þið skila hagnaði. Ef þið gerið það ekki losum við okkur við blaðið.`` Við stóðum okkar plikt, bjuggum til gott blað. Það gekk vel og eftir þrjú ár þá skiluðum við hagnaði. Blaðið er enn í eigu þessara sömu eigenda og þeir hafa aldrei nokkurn tímann látið sér detta í hug að reyna að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins, aldrei.

Þannig er þetta í Noregi. Eigendur fjölmiðla reyna ekki, þeir láta ekki að sér hvarfla að reyna að hafa áhrif á það hvernig blaðamenn vinna. Það er mjög sterkt prinsipp að svoleiðis gengur ekki. Ég veit að íslenskir blaðamenn að gera þetta ekki heldur. Þeir láta ekki eigendur hafa áhrif á sig, hvernig þeir vinna. Alla vega neita ég að trúa því. Ég hef aldrei orðið var við það á mínum ferli sem fjölmiðlamaður á Íslandi að fréttamenn nokkurs staðar þar sem ég hef unnið hafi látið hafa áhrif á sig og sinn fréttaflutning. Bara svo þetta sé sagt, virðulegur forseti.

Hér hefur mikið verið talað um að þau lög sem nú er verið að setja séu sértæk, þau séu ekki almenn. Ég tel að ummæli hæstv. forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarpsins í gær sýni það mjög ljóslega. Þessi lög eru sértæk. Það skín alls staðar í gegn í umræðunni. Í hvert einasta skipti sem stjórnarliðar tjá sig um frumvarpið þá koma þeir upp um sig. Það skín grímulaust í gegn að frumvarpið er fyrst og fremst sett til höfuðs Norðurljósum, Stöð 2, Fréttablaðinu og DV. Það á að ganga milli bols og höfuðs á þessum þremur fréttamiðlum. Eins og ég sagði þá taka ummæli forsætisráðherra í gærkvöldi þar sem hann talaði um hæstv. forseta Íslands öll tvímæli af um þetta, því miður.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því í gær. Þau dæma sig sjálf. Ég vil bara segja, virðulegur forseti, að mér þykir leitt að umræðan sé komin í þennan farveg. Það er algerlega ósæmandi fyrir forsætisráðherra að hann skuli ráðast að forseta Íslands með þessum hætti, forseta þjóðarinnar. Ég vil líka fá að nota tækifærið til að lýsa því yfir að ég stend fyllilega með mínum forseta. Hans embættisfærsla í þessu máli hefur verið rétt frá upphafi. Það er engum vafa undirorpið að honum ber skylda til að vera heima á Íslandi meðan ástandið er eins og það er. Hans fremstu skyldur eru skyldur hans við íslenska þjóð. Hann á ekki að eyða tíma sínum í það að sitja í konunglegum brúðkaupum erlendis á meðan hið pólitíska ástand hér heima á Íslandi er jafneldfimt og raun ber vitni. Nóg um það að sinni.

Hæstv. forseti. Það gladdi mig að sjá í morgun hve margir ráðherrar voru mættir til umræðunnar, reyndar flestir ráðherrar nema hæstv. forsætisráðherra sem ekki hefur látið sjá sig hér í morgun að ég best veit. (Gripið fram í: Hann kom aðeins.) Hann kom aðeins, já. Jæja, gott og vel. Það gladdi mig að sjá hversu margir ráðherrar voru hér og líka margir stjórnarliðar því undanfarna daga hef ég saknað þess mjög hve fáir stjórnarliðar hafa verið í sal Alþingis á meðan við höfum rætt þetta umdeilda fjölmiðlafrumvarp. Ég hef saknað sjálfstæðismanna og ég hef saknað framsóknarmanna. Í gær kom hér fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu að þeir hefðu ekki talað í þessu máli fram að þessu vegna þess að þeir hefðu ekki komist að í umræðunni fyrir stjórnarandstæðingum sem hefðu raðað sér á mælendaskrá. Þetta er bara ekkert rétt. Stjórnarliðar hafa haft fullt af tækifærum til þess einmitt að skrá sig á mælendaskrá eins og hverjir aðrir þingmenn og þeir hafa haft fullt af tækifærum til að taka þátt hér í umræðum, meðal annars með því að nota rétt sinn til að mæta ræðumönnum í andsvörum. En þeir hafa ekki nýtt sér það. Hér hafa verið fluttar ótal ræður á undanförnum dögum. En það er alger undantekning ef stjórnarliðar hafa notfært sér rétt sinn til að koma í andsvör til að eiga orðastað við stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa verið að gagnrýna þetta fjölmiðlafrumvarp. Þeir hafa ekki notfært sér þessi tækifæri. Það er varla að þeir hafi verið hér í salnum. Þetta er staðreynd málsins.

Stjórnarliðar geta ekki komið núna eftir að þessi umræða hefur staðið yfir í svo marga daga og haldið því fram að þeir hafi ekki fengið tækifæri til að tala. Þeir hafa haft ótal, mörg hundruð tækifæri til að taka til máls í þinginu. En þeir hafa ekki gert það. Hvers vegna hafa þeir ekki gert það, hæstv. forseti? Ég veit það ekki. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum stjórnarliðar taki ekki til máls í einu eldfimasta og umdeildasta máli sem rekið hefur á fjörur hins háa Alþingis í langan tíma. Hver er ástæðan? Getur verið að ástæðan sé sú að þetta mál sé einmitt svo illa undirbúið og vanreifað og meingallað á allan hátt að stjórnarliðar geri sér grein fyrir því að það borgi sig að þegja, að hér hafi fæst orð minnsta ábyrgð? Mig er farið að gruna það, hæstv. forseti, að þetta sé ástæðan. Þeir kjósa að þegja. Þeir gera sér grein fyrir því hve málið er gallað. En þeir eru teymdir áfram af ótta við hæstv. forsætisráðherra og líka hæstv. utanríkisráðherra sem bráðum verður forsætisráðherra ef guð og Sjálfstæðisflokkurinn lofa. Af ótta við þessa tvo menn og af hræðslu við að þeim verði refsað ef þeir fylgja ekki línunum láta þeir teyma sig út á þetta sem ég hef kallað fúafen og þeir ætla sér að styðja þetta með þögninni.

Í gær fór ég aðeins yfir málið og skoðaði það. Í fjölmiðlum hafa nefnilega verið mjög áberandi fréttir af því að ýmislegt væri nú farið að bila í samstöðunni. Maður er farinn að sjá það í hinu pólitíska landslagi. Þetta er einkum áberandi hjá Framsóknarflokknum. Núna á undanförnum dögum hafa komið fram ótal yfirlýsingar frá félögum framsóknarmanna vítt og breitt um landið þar sem þeir mótmæla þessu fjölmiðlafrumvarpi og hvetja ríkisstjórnina eða sinn flokk, þingmenn í sínum flokki, að styðja ekki frumvarpið. Ungir framsóknarmenn í Reykjavík mótmæla fjölmiðlafrumvarpinu. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Stjórn FUF RS telur að ákvæði um að markaðsráðandi aðilum skuli með öllu bannað að eiga hlut í ljósvakamiðlum gangi of langt. Nær væri að tiltaka ákveðið hámark sem slíkum fyrirtækjum væri gert að takmarka eignarhlut sinn við. Algjört bann við eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja setur fjármögnun á frjálsum ljósvakamiðlum í verulegt uppnám sem gæti leitt til þess að þeim muni fækka og að ríkisreknir miðlar haldi um ókomna tíð yfirburðarstöðu sinni. Nær væri að nýta Samkeppnisstofnun til aðhalds á fjölmiðlamarkaði, samhliða því að auka fjárveitingar til stofnunarinnar og auka veg þessarar mikilvægu stofnunar.

Stjórn FUF RS lítur svo á að mjög óeðlilegt sé að stytta starfsleyfi starfandi fjölmiðla með bráðabirgðaákvæði um niðurfellingu leyfa að tveimur árum liðnum. Það eina sem af slíku hlýst er skaðabótaskylda ríkissjóðs vegna ólöglegrar eignaupptöku. Skattborgarar eiga heimtingu á að sameiginlegum fjármunum okkar allra sé ekki sóað með slíkum vísvitandi hætti.

Stjórn FUF RS skorar á Alþingi að samþykkja ekki þetta frumvarp óbreytt, og skorar jafnframt á alþingsmenn að ræða málefni ljósvakamiðla á málefnalegan hátt í stað upphlaupa og þess ómálefnalega málflutnings sem gætt hefur hjá stjórnarandstöðunni.``

Ég get tekið undir það sem stendur í þessari yfirlýsingu frá ungum framsóknarmönnum í Reykjavík, það er að segja allt nema það síðasta, þar sem þeir tala um ómálefnalegan málflutning hjá stjórnarandstöðunni. Málið er það, hæstv. forseti, að málflutningurinn hér hefur ekkert verið ómálefnalegur. Hann hefur verið mjög málefnalegur. Hér hafa komið fram ótal þingmenn og flutt ótal röksemdir og varað mjög sterklega við þessu frumvarpi. Ég hef ekki heyrt annað en að hér hafi verið fluttar margar mjög góðar og málefnalegar ræður sem hafa snúist um efni og eðli þessa frumvarps. Ég hef ekki heyrt annað. Það er gersamlega rangt að halda því fram að málflutningurinn í sal hins háa Alþingis um þetta umdeilda mál hafi fram að þessu verið ómálefnalegur. Ef eitthvað hefur verið ómálefnalegt í þessari umræðu þá er það einmitt fjarvera stjórnarliða við umræðuna. Þeir hafa ekki tekið þátt í hinni málefnalegu umræðu. Þeir hafa ekki verið viljugir til að skiptast á skoðunum um þetta frumvarp við stjórnarandstöðuna. Það er fyrst og fremst það sem hefur verið ómálefnalegt. En áfram skulum við halda.

[11:00]

Hér er enn ein yfirlýsing frá framsóknarmönnum og það er Samband ungra framsóknarmanna sem hafnar áformum um takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla. Þetta er samkvæmt fréttum frá 12. maí síðastliðnum.

Framsóknarfélag Mýrasýslu hvetur til þess að afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins verði frestað til haustsins og tryggð niðurstaða sem sátt verði um í samfélaginu.

Framsóknarfélag Garðabæjar og Bessastaðahrepps hefur skorað á þingflokk Framsóknarflokksins að beita sé fyrir því að afgreiðslu þessa frumvarps verði frestað.

Formaður framsóknarmanna í Bolungarvík kom í viðtal í gær í útvarpinu og lýsti svipuðum hugsunum, það er að segja að fresta beri þessu frumvarpi því mönnum beri að staldra við og hugsa sinn gang. Hann lýsti jafnframt yfir fullum stuðningi við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í þessu máli sem hefur lýst sig einn þingmanna Framsóknarflokksins, alla vega fram til þessa, andvígan þessu frumvarpi. Hann sagði jafnframt að hann teldi að þetta mál ætti eftir að stórskaða Framsóknarflokkinn.

Ég hef í fyrri ræðum mínum um þetta mál mælt mjög fyrir því einmitt að málinu verði frestað, að það verði tekið af dagskrá og að við notum sumarið til þess að hugsa okkar gang, vinna málið vandlega, tala við alla þá sem málið varðar og að síðan verði lagt fram frumvarp fyrir hið háa Alþingi næsta haust. Svo verði tekinn sá tími sem til þarf næsta vetur til að vinna gott og vandað frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum og um starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi, hvernig því skuli háttað í framtíðinni, meðal annars hvernig tryggja eigi ritstjórnarlegt sjálfstæði íslenskra fjölmiðla gagnvart eigendum sínum.

Þetta er sú leið sem við eigum að fara í þessu máli, hæstv. forseti. Það er í raun engin önnur leið fær. Ég vil nota tækifærið núna í þessari seinni ræðu minni til að ráða stjórnarliðum heilt og biðja þá að hætta þessari vitleysu, taka þetta mál af dagskrá, vinna að því að ná lendingu með því að taka málið af dagskrá þannig að þingið geti farið að einbeita sér að því að afgreiða einhver þeirra rúmlega 50 mála sem liggja fyrir þinginu og að þetta mál fái að hvíla um stund.

Ég lýsi enn og aftur eftir því, hæstv. forseti, að stjórnarliðar fari nú að taka þátt í þessum umræðum. Nú eru hér staddir tveir ráðherrar Framsóknarflokksins, hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon og hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir. Þau eru bæði hér í salnum. Hvorugt þeirra hefur talað í þessari umræðu. Þau töluðu ekki um hina umdeildu skýrslu (Gripið fram í: Jú.) sem fyrst var lögð fyrir þingið. Ekki samkvæmt þeim lista sem ég hef hér, hæstv. félagsmálaráðherra. Gott og vel, þá er það rangt hjá mér. En samkvæmt þeim lista sem ég hef hér fyrir framan mig sem ég tók (Gripið fram í: ... bara vitlaus.) út af vef Alþingis í gær --- ég get sýnt ykkur hann á eftir, hæstv. ráðherrar --- þá hefur hvorugt ykkar talað í þessari umræðu. Hv. þm. Birkir Jónsson hefur ekkert talað í þessari umræðu. Hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson hefur ekkert talað. Hæstv. utanríkisráðherra og verðandi forsætisráðherra ef guð og Sjálfstæðisflokkurinn lofar, Halldór Ásgrímsson, hefur ekkert talað í þessari umræðu, ekki sagt eitt einasta orð. Hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir hefur ekkert talað í þessari umræðu. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur flutt eina ræðu og komið fimm, sex sinnum í andsvör. Það er allt og sumt. Hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson hefur aðeins talað í þessu máli, sömuleiðis Jónína Bjartmarz og svo að sjálfsögðu hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem hefur lýst sig andvígan frumvarpinu.

Þegar maður skoðar ræðulistann yfir framsóknarmenn í þessu máli þá slær það mann mjög illilega að þeir hafa nánast algerlega verið fjarverandi í allri umræðunni. Þeir hafa heldur ekki verið í þingsalnum.

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé fyllilega kominn tími til þess að Framsóknarflokkurinn komi nú út úr skápnum í þessu máli og að þingmenn Framsóknarflokksins komi í ræðustól og segi þjóðinni hver raunverulegur hugur þeirra til þessa frumvarps er. Það er fyllilega fyrir löngu síðan kominn tími til þess. Það hafa þeir ekki gert. Þessir hv. þm. virðast ætla að styðja frumvarpið. En ef þeir ætla að gera það þá skulda þeir þjóðinni skýringar á því hvers vegna þeir ætla að gera það, hvers vegna þeir ætla að styðja frumvarpið í trássi við vilja meiri hluta þjóðarinnar, í trássi við vilja stórs hluta Alþingis, í trássi við vilja mjög margra framsóknarmanna. Þeirra eigin grasrót --- miðað við það sem maður hefur séð í fjölmiðlum --- hún segir nei. Hún segir nei með mjög skýrum hætti. ,,Nei, nei, nei. Stöðvið þetta. Hættið þessu. Ekki gera þetta. Ekki gera þetta.`` En það er eins og þingflokkur Framsóknarflokksins ætli ekki að hlusta á það fólk sem kaus þá til setu á hinu háa Alþingi. Hvers vegna skyldi það vera?

Nú ætti maður kannski ekki að ráða pólitískum andstæðingum heilt. En ég ætla að gera það núna. Ég vil beina orðum mínum til þingflokks Framsóknarflokksins og biðja þingmenn Framsóknarflokksins um það núna að hugsa sinn gang mjög alvarlega því ef þetta frumvarp, hæstv. forseti, fer í gegn verður stórslys. Í því sambandi er ég ekki að tala um Framsóknarflokkinn. Ég er að tala um framtíð fjölmiðla á Íslandi og ég er að mæla fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Við getum ekki leyft okkur það, hæstv. forseti, að láta það slys henda okkur að svona illa ígrundað og illa undirbúið frumvarp fái afgreiðslu á Alþingi. Við þurfum að taka okkur miklu lengri tíma í að skoða þessa hluti. Þetta er mergurinn málsins, hæstv. forseti. Ég vil núna að lokum þegar ég lýk máli mínu lýsa því yfir að fari svo að þetta slys nái í gegn að ganga, þetta frumvarp verði að lögum, þá mun ég ef ég einhvern tímann kemst í stjórnarsamstarf, stjórnarmeirihluta, beita mér fyrir því að lögunum verði breytt, þau verði endurskoðuð og þeim verði breytt því eins og frumvarpið lítur út í dag þá er það gersamlega handónýtt og til vansa fyrir þjóðina.