Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 11:30:11 (8224)

2004-05-15 11:30:11# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[11:30]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hélt um tíma að við værum að sjá svona nýtt til hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur því að fram eftir ræðunni var tiltölulega lítið minnst á hæstv. forsrh. Davíð Oddsson. En það hins vegar breyttist eftir því sem leið á og við sitjum eftir hérna með enn eina ræðuna sem gengur út á þann góða stjórnmálamann frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Það er líka nokkuð athyglisvert að hv. þm. upplýsti þingheim um að hún hefði verið vönkuð fyrir ári síðan og það er í sjálfu sér nokkuð sem hv. þm. hefur ákveðið að upplýsa þingheim og þjóðina um.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór hér yfir það að þetta frumvarp stangaðist hvorki meira né minna en á við lýðræðið, málfrelsið, tjáningarfrelsið, eignarréttarákvæðin og atvinnufrelsi og kannski missti ég af einhverju öðru. Það er athyglisvert í ljósi þess að hér var gefin út skýrsla um þessi mál. Þar er tilgreint hvernig þessi löggjöf er í öðrum löndum. Allir sem lesa skýrsluna og úttektina á öðrum löndum sjá að ástandið hér á landi mundi aldrei geta gengið upp í þeirri löggjöf sem er annars staðar, hvort sem það er austan hafs eða vestan.

Þess vegna vil ég spyrja, af því að hér eru mörg lönd tekin fyrir, það eru Norðurlöndin, Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland, Bretland og fleiri lönd: Er það svo að löggjöfin í þessum löndum sé öll alls staðar andstæð lýðræðinu, málfrelsinu, tjáningarfrelsinu, eignarréttinum og atvinnufrelsinu og öðru sem hv. þm. taldi hér upp?