Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 11:36:35 (8227)

2004-05-15 11:36:35# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[11:36]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svaraði spurningunni áðan. Ég veit ekki hvort hinn ágæti þingmaður sem hér spurði er orðinn svona svefnlaus eða illa haldinn að hann sé hættur að heyra. Ég sagði áðan um löggjöf í öðrum löndum að ég þekkti ekki til þess hvernig hún stæðist þá stjórnarskrá sem þar væri, en hitt væri ljóst að löggjöf í öðrum þjóðríkjum væri hvergi jafnströng og hér væri verið að leggja til (Gripið fram í: Það er rangt.) að yrði í lög leidd á Íslandi, (Gripið fram í.) að hún væri hvergi jafnströng í öðrum þjóðríkjum eins og verið er að leiða í lög á Íslandi.

Ég spurði, virðulegur forseti, og ég ætla að halda áfram að spyrja þeirrar spurningar í dag og ég held að við ættum að gera það: Komið þið með einn sérfræðing í íslenskum stjórnskipunarrétti sem getur sagt það við okkur með sanni að hann telji fullvíst að þetta frumvarp, verði það að lögum, standist íslensk stjórnarskipunarlög. Það er aðalatriði þessa máls, það eru íslensk stjórnarskipunarlög sem þér ber, hv. þm., að standa vörð um. Um það hefur þú undirritað eið, hv. þm., og þar auðvitað liggur línan, virðulegur forseti.

Komið þið með einn sérfræðing. Ég ætla að nefna af því að við erum að tala um stranga löggjöf að Svíar voru að undirbúa löggjöf um þessi efni. Þeir ákváðu að taka hana út úr þinginu vegna þess að þeir voru sannfærðir um það að þeir þyrftu að gera breytingu á sænsku stjórnarskránni ef þeir ættu að geta leitt þær takmarkanir í lög sem þeir voru að hugsa um.