Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:13:16 (8233)

2004-05-15 12:13:16# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf nú engar siðareglur frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um hvernig ég tala í þinginu þar sem hún talar hér um sleggjur sem sé verið að nota til þess að útrýma fólki. Hún skipar sér í flokk með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni þegar hún fer að tala um það hvernig menn eiga að koma fram til þess að eyða óvinum sínum og fjallar um mál á þeim forsendum. Ég þarf engar siðareglur frá slíku fólki um það hvernig ég á að tala hér í þinginu. Ég biðst undan því að verið sé að setja mér reglur af þeim toga að ég þurfi að tala eins og hv. þingmanni líkar um þetta mál eða Magnúsi Þór Hafsteinssyni, fólki sem talar þannig um málefni að það er ógjörningur í raun og veru að halda uppi málefnalegum umræðum.

Að sjálfsögðu liggur það fyrir að þeir (Gripið fram í.) lögfræðingar sem stóðu að skýrslugerðinni hafa lýst því yfir að þetta frumvarp sé innan þess ramma sem kemur fram í skýrslunni. (BH: Ekki að það standist ...) Að sjálfsögðu er þetta mál þannig eins og öll mál sem má deila (Gripið fram í: Það er nú ekki rétt hjá þér.) um að lögfræðingar hafa á þeim ólík sjónarmið. Það er ekkert nýtt í því. Ég rifjaði hér upp deilurnar um aðildina að EES-samningnum. Því hefur verið haldið fram um fjölda mála hér að þau kunni að brjóta í bága við stjórnarskrána.

En núverandi forseti hefur lýst yfir og gaf að gefnu tilefni yfirlýsingu um það að um þetta mál er lokaorðið hjá dómstólunum, jafnt fyrir okkur þingmenn sem forseta og alla aðra.