Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:14:50 (8234)

2004-05-15 12:14:50# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að setja hæstv. dómsmrh. neinar reglur um það hvernig hann megi tala hér í ræðustól.

En ég bendi bara á hvernig menn eru farnir að tala, hvaða málflutningur hér er uppi. 70% þjóðarinnar telja að þetta frumvarp sé ekki tækt til afgreiðslu hér og eigi að skoðast mun betur. 70% þjóðarinnar er bara orðið Baugslið sem ekkert veit hvað það er að segja og getur ekki haft neina skynsamlega skoðun á málunum.

Svona er málflutningurinn orðinn: ,,Þið sem eruð ekki með okkur, þið sem styðjið ekki fjölmiðlafrumvarpið og eruð á móti okkur, þið eruð bara Baugslið. Þið eruð bara keypt þý.`` Þannig er málflutningurinn hér í þinginu. Þetta er mönnum auðvitað ekki samboðið. Ég hef þá skoðun og ég mun tjá hana hér.

Hvað varðar síðan stjórnarskrárþáttinn og EES-samninginn þá gætum við rætt um það langt mál hér, hæstv. dómsmrh. Ég er sannfærð um það að sá málflutningur sem ég hafði þá uppi var réttur.