Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:17:14 (8236)

2004-05-15 12:17:14# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg makalaust að hlusta á hæstv. dómsmrh. tala. Hvað er hann að fara með samanburði sínum á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og orðsendingu formanns Blaðamannafélagsins sem hann las skilmerkilega upp í ræðu sinni? Er hann að segja að formaður Blaðamannafélagsins hafi ekki tjáningarfrelsi eins og aðrir í þessu landi? Er virkilega þannig komið fyrir hæstv. dómsmrh. og ríkisstjórninni að hún telji ekki lengur að það megi, sem eru ein af grundvallarréttindum borgaranna í þessi ríki enn þá, virðulegi forseti, að mega mótmæla stjórnvöldum, gera það hátt og skorinort, mega safna liði ef mönnum sýnist svo og mega standa með hverjum þeim sem mönnum sýnist til þess að ná fram sínum málstað? Er þetta orðið bannað í ríki Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar, hæstvirtra ráðherra?

Ég held að hæstv. ráðherra verði að svara þessu, hvað hann á við með þessum málflutningi. Fyrir utan allar þær samsæriskenningar sem birtust í máli hæstv. ráðherra þá er þetta mjög undarlegt. Þetta er mjög undarlegur málflutningur. Hann verður að útskýra hvað hann er að fara með því að líkja þessu saman og hvað sé rangt við að formaður Blaðamannafélagsins, Róbert Marshall, geri það sem hann gerir í þessu bréfi sínu ef hann telur að stjórnvöld séu á villigötum.

Er það ekki svo, virðulegi forseti, að þetta sé ein af grundvallarréttindum borgaranna, að mótmæla stjórnvöldum? Eða er svo komið fyrir stjórnvöldum í þessu landi að þau þola ekki lengur slík mótmæli?

Hæstv. ráðherra talar mikið um samsæri undir handarjaðri Baugs. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þeirri samsæriskenningu, virðulegi forseti. Eða trúir hæstv. ráðherra því virkilega að í því samsæri sé stjórnarandstaðan á Alþingi eins og hún leggur sig, Sigurður Líndal, Verslunarráð Íslands, Samkeppnisstofnun, Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, útgefendur Morgunblaðsins og nánast öll lögfræðingastéttin í landinu, sem ekki er tilbúin til þess að fullyrða að þessi lög standist stjórnarskrá? Trúir hæstv. ráðherra virkilega svona málflutningi sjálfur?