Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:19:27 (8237)

2004-05-15 12:19:27# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að tala um nein samsæri en það er von að hv. samfylkingarfólk líti á það þannig að það sé hluti af einhverju samsæri þegar farið er yfir stöðu málsins og því lýst, að það sjái í hvaða stöðu það er komið með þessum málflutningi sem hér hefur staðið undanfarna sólarhringa. Það sér hvernig stöðunni er komið og hvernig stöðunni er háttað þegar málið er skoðað, að þau eru náttúrlega búin að spyrða sig við þennan auðhring sem á fjölmiðlana og hér er verið að ræða um og hefur þessa markaðshlutdeild. Það er ósköp einfalt, það liggur alveg ljóst fyrir og Samf. situr uppi með það.

Síðan er málflutningur hennar á þann veg að það sé eðlilegt að formaður Blaðamannafélags Íslands noti stöðu sína sem formaður blaðamannafélags (Gripið fram í.) til að vinna að málinu eins og hann sagði, með leyfi forseta:

,,Við höfum eitt hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin. Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is. Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Sendið tölvupóst á alla sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár.`` --- Hvers vegna sjö ár, ég skil það ekki?

,,Nú er tíminn til endurnýja kynnin. Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is. Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur.``

Er þetta framlag til málefnalegra umræðna? Er þetta eitthvað til að hrósa sér af í málefnalegum umræðum? Er þetta eitthvað sem Samf. telur til fyrirmyndar þegar fjallað er um mál hér í þjóðfélaginu? Er þetta eitthvað sem Blaðamannafélag Íslands telur sérstakt áhugaefni sitt, að formaður sinn standi fyrir svona starfsemi og hóti stjórnvöldum, að menn bara gangi þvert á eigin skoðanir til þess að skaprauna stjórnvöldum? Er það þetta sem þetta fólk telur að séu lýðræðisleg vinnubrögð?