Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:24:04 (8240)

2004-05-15 12:24:04# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:24]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég vil fyrst biðjast afsökunar á því fyrir fram að vera kann að þessi ræða verði til þess að skaprauna stjórnvöldum í landinu, hæstv. dómsmrh., sem einmitt er fyrrverandi menntmrh., og það er eðlilegt að forseti rifji það upp því að hann sat einmitt með honum í stjórn og var stjórnvald á þeim tíma sem hæstv. dómsmrh. var menntmrh.

Það er að verða erfitt að lifa og starfa í landinu og komast hjá því á hverjum degi að skaprauna stjórnvöldum því að auðvitað má segja að lýðveldi okkar hafi þann tilgang að stjórnvöld geti verið í góðu skapi og lifað við sína skaphöfn sem að vísu er misjöfn.

Það er líka skemmtilegt, forseti, að vita til þess og sérkennilegt að nú hafa tveir síðustu talsmenn Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hæstv. dómsmrh. sem nú gengur úr salnum og vill ekki hlusta frekar á þann málflutning sem hér fer fram --- væntanlega til þess að verða ekki skapraunað --- og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, í raun haldið uppi því sem hér er í fjölmiðlum kallað málþóf gegn eigin frumvarpi. Þeir gera það með því að tala hér ýmist af þekkingarleysi eða með útúrsnúningi um efni frumvarpsins og verja ræðum sínum að meginhluta --- en ræðutími er ótakmarkaður --- til þess að ræða um allt önnur efni en hér er um að ræða. Þannig hafa þeir báðir rætt nokkuð um forseta Íslands, embættisskyldur hans og valdsvið þó að ekki verði nú séð að það komi efnisumræðu um þetta frumvarp við.

Ég verð að segja það fyrir sjálfan mig sem alþingismann, vissulega ungan alþingismann, alþingismann þó, að mér þykir það ekki smekklegt að umræður hér í salnum um efnisatriði máls og þau frumvörp sem hér eru til umræðu snúist um það hvaða álit forseti Íslands kunni að hafa á því eða hvað hann kynni að gera í framhaldinu. Þingið fer með þann hluta löggjafarvalds sem það fer með samkvæmt stjórnarskrá og forsetinn með sinn. Ég tel að þingið eigi að taka sínar ákvarðanir óháð því hvað forsetinn kann að gera.

Hins vegar tel ég --- þannig að ekki komi upp neinn misskilningur --- að þingið eigi mjög ákveðið að horfa á það hvernig þau málefni sem það er að ræða kynnu að snerta þá stjórnarskrá sem í landinu er. Það segi ég m.a. sem tiltölulega nýr þingmaður vegna þess að við upphaf þingsetu er okkur gert að undirrita eiðstaf að þessari stjórnarskrá.

Ég álít að sá eiðstafur hafi gildi, og hvaða gildi? Hefur hann t.d. það gildi, hugleiðir maður þegar maður skrifar nafnið sitt undir stjórnarskrána, að maður eigi að vera með öllu sem stendur þar? Nei, það er ekki þannig heldur er það þannig að í störfum manns á þingi á maður að virða ákvæði stjórnarskrárinnar og gera aldrei neitt það sem kann að ganga í berhögg við hana.

Nú er það svo í öðrum löndum ýmsum að þar starfa sérstakar stofnanir til þess að bera saman lög og stjórnarskrá, stjórnlagadómstólar. Ég þekki slíkan dómstól frá stuttri dvöl minni í Frakklandi. Þar getur tiltekinn minni hluti þingmanna vísað máli til stjórnlagadómstólsins og fengið úrskurð um það hvort málið er tækt eða ekki. Þetta tel ég að við þurfum að athuga. Þetta hefur bæði sína kosti og galla. En ég held að úr þessu þurfi að bæta hér á landi eftir þingvetur nokkra þar sem upp hafa komið mikil álitamál um samræmi laga og stjórnarskrár og kveðnir hafa verið upp dómar í Hæstarétti, sem er okkar æðsti innlendi dómstóll, um það að lög sem samþykkt voru á Alþingi, m.a. undir stjórn þess forseta sem hér situr, hafi ekki staðist stjórnarskrána. Ég tel það alvarlegt. Ég sé að mönnum þykir það ekki hér öðrum. En ég skil ekki til hvers þá þessi undirritun er sem er ákaflega hátíðlegur þáttur í því að stíga hér inn í það hlutverk að verða alþingismaður, fulltrúi kjósenda og liðsmaður þjóðarinnar.

Ég ætla ekki að ræða meira um þetta. Ég hlýt þó að gera örlitla athugasemd í framhaldi af ræðu síðasta ræðumanns sem mér datt í hug í miðjum klíðum að er einnig hæstv. dómsmrh., Björns Bjarnasonar, vegna þess að hann ræddi meðal annars um hugsanlegt vanhæfi forseta Íslands. Ég er nú ekki vel að mér í stjórnskipunarrétti eða stjórnsýslulögum en við rekum upp stór augu þegar um slíkt vanhæfi er rætt og spyrjum ýmissa spurninga.

Svo vill til að á borðinu við hliðina á mér lá bók eftir Pál Hreinsson sem heitir Stjórnsýslulögin. Skýringarit. Forsætisráðuneytið gefur hana út.

[12:30]

Það er merkilegt að ekkert er þar um forseta Íslands. Þar er hins vegar fjallað um ráðherrana sem geta orðið vanhæfir og það sem gert er í þeirra vanhæfi er það að málin eru undirbúin í hendur seturáðherra --- þetta hefur nokkrum sinnum komið fyrir hér á síðari árum hjá okkur --- sem síðan sker úr um það málefni sem hinn fyrri ráðherra var vanhæfur í. Nú eru ekki til neinir setuforsetar þannig að erfitt er að bera saman þessar vanhæfisreglur um ráðherra og forseta. Þess vegna hlýtur maður að spyrja í þessu vanhæfismáli í fyrsta lagi hvort það sé þá þannig að ef forseti telst vera vanhæfur þá eigi handhafar forsetavalds að skera úr hvort vanhæfisreglur þær sem Davíð Oddsson hæstv. forsætisráðherra telur eiga við um forseta Íslands gildi þá jafnframt um handhafa forsetavalds. Ef það er svo þá er kannski komið að því að rannsaka hvort handhafar forsetavalds hafi verið vanhæfir við stjórnarathafnir sínar því hin spurningin sem leikmaður spyr hina miklu lögfræðinga, og þar á meðal hæstv. dómsmálaráðherra sem hvort tveggja er í senn yfirmaður dómsmála í landinu og maður sem hefur tekið lagapróf frá Háskóla Íslands, er sú hvort vanhæfi gildi einungis við málskot eða hvort það gildi líka við staðfestingu laga, hvort vanhæfi forseta eða handhafa forsetavalds sé þess eðlis að það taki einungis til þess verknaðar sem forseti kýs að ástunda ekki, það er að segja þegar hann ákveður að staðfesta ekki lög, eða hvort það eigi enn fremur við um það þegar forsetinn ákveður að staðfesta lögin, að þá þurfi sumsé í sérhvert skipti að athuga hvort forseti eða handhafar forsetavalds séu vanhæfir.

Ég sé ekki betur af mínu takmarkaða lagaviti en að þetta hljóti að vera raunin ef vanhæfisreglurnar gilda um forseta á annað borð sem hæstv. forsætisráðherra hefur haldið fram. Þetta vil ég gjarna að hæstv. forsætisráðherra eða viðhlæjendur hans hér í salnum skýri fyrir mér áður en þessi umræða er öll úr því að bæði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason fóru að ræða í miðri þessari umræðu um valdsvið forseta Íslands og hæstv. dómsmálaráðherra hafði það eftir vini sínum hæstv. forsætisráðherra að forseti Íslands kynni að vera vanhæfur í því máli sem hér um ræðir.

Þetta vil ég gjarnan vita vegna þess að meðal annars handhafar forsetavalds, forseti Alþingis, Hæstaréttar og forsætisráðherra hafa undirritað hér lög eftir lög í fjarveru forseta Íslands og virðast ekki hafa haft neitt samráð, það virðist alveg vera hætt að hafa samráð við forseta Íslands um það mál. Meðal þeirra laga og stjórnvaldsathafna sem fram hafa farið síðustu mánuðina er að einn af handhöfum forsetavalds, hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson, undirritaði skipunarbréf frænda síns sem hæstaréttardómara við Hæstarétt og hæstv. dómsmálaráðherra sem hér talaði um vanhæfið áðan skipaði einmitt þennan títtnefnda mann í Hæstarétt --- ég vil nota tækifærið og óska frændanum alls velfarnaðar af heilum hug --- sem kunnugt er og hefur vakið nokkra umræðu í samfélaginu. Spurningin er því auðvitað þessi: Eigi vanhæfisreglur stjórnsýslulaga við um forseta Íslands í þessu tilviki eiga þær þá ekki við um handhafa forsetavalds? Það getur ekki verið. Þá spyr maður: Bíddu, var hæstv. forsætisráðherra þá vanhæfur þegar hann undirritaði skipunarbréf frænda síns í Hæstarétt?

Á þessu var vakin athygli í blaði fyrir nokkrum vikum eða mánuðum, vikum hygg ég. Ég verð að segja að þó þetta væri auðvitað kyndug tilviljun eins og oft verður í íslensku samfélagi þá taldi ég það nú ekki vera vanhæfismál að hæstv. forsætisráðherra gerði þetta sem handhafi forsetavalds. En nú er komin upp önnur staða og ég sé ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi borið sjálfan sig þessum þungu sökum með ummælum sínum í sjónvarpinu í gær og að hæstv. dómsmálaráðherra hafi endurtekið þær þungu sakir á hendur hæstv. forsætisráðherra með ræðu sinni hér áðan.

Meira ætla ég ekki að skaprauna stjórnvöldum að sinni með því að fjalla hér um ræðu Björns Bjarnasonar hæstv. dómsmálaráðherra eða Stjórnsýslulögin eftir Pál Hreinsson heldur ætla ég í þessari síðari ræðu minni við þessa umræðu að halda að vissu leyti áfram á þeim nótum sem ég var á í fyrri ræðu. Þar ræddi ég um málið sem nú liggur fyrir út frá þeim sjónarhóli að fjölmiðlar séu hluti af lýðræðissamfélaginu á Íslandi. Ég ræddi það út frá sjónarmiði fjölmiðlunar sem atvinnugreinar og ég ræddi það frá þeim sjónarhóli að fjölmiðlun sé nauðsynlegur hluti af menningarlífi Íslendinga og sé þar í raun ómissandi hlekkur í keðju sem tengir fjölmiðlastofnanir og fyrirtæki og fjölmiðlafólk við ótrúlega marga sem vinna hér í menningu og reyndar auðvitað í menningartengdum viðskiptum einnig, fyrir utan annað það hlutverk sem fjölmiðlarnir hafa. Ég gerði þetta sérstaklega vegna þess að þegar við ræðum mikilsverða hluti í grundvallarmálum samfélags okkar þá megum við ekki gleyma því hvað við erum lítið samfélag. Við erum samfélag sem þarf að vera í ákveðnum stellingum sóknar og varðstöðu á víxl sem ekki síst beinast að því að hlúa að því sem gerir okkur sérstök í heiminum, að því sem gerir okkur að Íslendingum í öðrum skilningi en þeim að við búum hér á tilteknu landi á tiltekinni breiddargráðu.

Ég þykist hafa gert nokkuð góða grein fyrir þessu í fyrri ræðu minni. Þó kom í ljós að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafði í málþófi sínu hér í gær ekki hlustað á þessa ræðu. Það kom reyndar líka í ljós að hann hafði ekki kynnt sér til neinnar hlítar nema nokkrar síður í þeirri skýrslu sem sögð er hér síendurtekið að liggi til einhvers konar grundvallar eða sé einhvers konar forsenda þess frumvarps sem hér er um að ræða. Hann hafði aðeins tekið úr henni nokkrar síður sem hann hefur sennilega hirt upp á hlaupum.

Það sem ég á hér við er þó sá efnisþáttur í ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem beindist að því hvernig ástandið væri í öðrum löndum. Til þess að gera grein fyrir því almennt þá hefði hv. þm. nú ekki þurft að fara lengra en í þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna, hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og fleiri, þar sem einmitt er gerð grein fyrir, að vísu ekki ástandinu í hverju landi heldur er nú vísað til slíkrar greinargerðar, en fjallað um það hvað við getum grætt á því að vita hvernig ástandið er í öðrum löndum. Það sem í ljós kemur hjá hverjum þeim sem þetta gerir, kannar það, er að ástandið er ákaflega misjafnt í öðrum löndum. Þegar menn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson standa í þessum ræðustól eða í hvaða öðrum fjölmiðli sem vera skal og veifa --- það hygg ég nú reyndar að hafi ekki verið hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson heldur hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég biðst afsökunar forseti á að muna þetta ekki glöggt. En mig minnir að það hafi verið hv. þm. Birgir Ármannsson sem gerði þetta, veifaði hér annars vegar --- kannski bara báðir. Við skulum bara hafa það þannig að þeir hafi gert það báðir. Að minnsta kosti minntust þeir á það, annar hvor eða báðir, að miklar takmarkanir á starfsemi og þar á meðal eignarhaldi væru bæði í samkeppnislögum og lögum um fjármálafyrirtæki.

Sá er munurinn á þessum lögum annars vegar tvennum og svo hins vegar löggjöf um fjölmiðla og ramma um starfsemi þeirra, ef maður lítur á heiminn, að lögin um fjármálafyrirtæki og samkeppnislögin eru keimlík í öllum okkar heimshluta. Hjá öllum þeim löndum sem búa við markaðsbúskap eru þau lög keimlík. Það vitum við ákaflega vel Íslendingar vegna þess að við höfum verið að taka upp þessi lög og þessa löggjöf á síðustu árum. Við vorum sein til þess. Í raun hljóp Alþingi nokkuð á eftir þróuninni í þessu með þeim afleiðingum að hér voru miklir skruðningar framan af þegar við gengum inn í nýja tíma, afnámum höft ýmis, meðal annars á fjármagnsflutningum milli landa, á gjaldeyri og á því að geta átt verðmæti í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni og það er fleira sem menn muna og hafa upplifað hér jafnvel á stuttri ævi miklar sviptingar við.

Þegar við settum þessi lög leituðum við til annarra landa. Við leituðum til ýmissa grannlanda okkar. Við leituðum til löggjafar í Bandaríkjunum sem er mjög merkileg enda er það forusturíki kapítalismans nokkuð skrýtin skepna. Í samræmi við grundvallarforsendur þess ríkis um frelsi en einnig jafnan rétt manna til hamingjusóknar hafa farið þar fram mikil átök sem eru merkileg fyrir okkur sem lifum við hina evrópsku hefð. Við höfum lært af þessu og sett hér löggjöf um fjármálafyrirtæki og samkeppnisreglur sem eru keimlíkar þeim sem ríkja í öðrum löndum. Þetta miðar að því að allur heimurinn eða öll þau lönd sem búa við markaðsbúskap, að minnsta kosti almennilegan, og hafa aðstæður til þess, koma saman og hafa þá stefnu á að þessi löggjöf sé sem sambærilegust á milli landa. Og okkur er það skylt meðal annars eftir að við urðum þátttakendur í hinu Evrópska efnahagssvæði að hafa þessar reglur nokkuð eins.

Með fjölmiðlana gegnir nokkuð öðru máli. Í ljós kemur þegar farið er yfir ástandið í löggjöf og reglum um fjölmiðla í hverju landi fyrir sig að það er ólíkt. Menn hafa með illu eða góðu, réttilega eða ekki réttilega á ég við, ákveðið það í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum að í hverju landi eða fylki gildi sérstök lög um fjölmiðla. Þetta er kannski ekki heppilegt. En svona er þetta. Þetta segir okkur á Íslandi það að þó við eigum að sjálfsögðu að kynna okkur ástandið í öðrum löndum hvað fjölmiðla varðar þá verðum við að að haga okkur hér varðandi löggjöf og reglur um fjölmiðla eftir því sem heppilegast er á Íslandi. Við getum ekki kóperað erlendar reglur og lög um okkar eigin fjölmiðla.

Þetta segir raunar í skýrslunni. Ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans ýmsir, fyrrverandi frjálshyggjumenn, hér á þinginu hefðu lesið almennilega þá skýrslu sem um er að ræða og á að vera forsenda eða grundvöllur þessa máls --- hún er það nú reyndar að ákaflega takmörkuðu leyti sem viðurkennt er af höfundum skýrslunnar hverjum á fætur öðrum --- þá hefðu þeir komist að því sem í henni stendur, nokkrum línum áður en byrjað er að fjalla um ástandið í fölmiðlum í öðrum löndum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson rakti hér allvel miðað við aðstæður allar, menntun, aldur og fyrri störf, beinlínis í inngangi að kafla 5.2. sem heitir Reglur í einstökum löndum þetta hér:

,,Nefndin er sammála um að ekki hafi sérstaka þýðingu að gera ítarlega grein fyrir reglum og framkvæmd þeirra`` --- þ.e. réttar, laga og reglna --- ,,í einstökum löndum. Reglur í einstökum löndum eru mjög ólíkar og spretta af ólíkum aðstæðum. Lýsingin þjónar því fyrst og fremst því markmiði að vekja athygli á þeim ólíku leiðum sem til greina koma, fremur en að unnt sé að nota regluverk einstakra landa sem fyrirmynd hér á landi.``

Þá er rétt að gera sér grein fyrir því næst hvað einkennir einna helst fjölmiðlun á Íslandi. Það hafa skýrsluhöfundar reynt að gera og augljóst er, bæði af skýrslunni sjálfri og síðan því sem þeir hafa sagt á eftir, bæði formaðurinn og aðrir, einkum Guðmundur Heiðar Frímannsson, að þeir vildu gera áfram og halda áfram að hugleiða og velta fyrir sér. Þegar búið er að komast að þessu þá er ekki hægt, eins og hefur verið plagsiður hjá okkur með góðu eða illu, að fara til Danmerkur eða annarra vinalanda okkar og ná þar í lög sem við breytum svona eftir aðstæðum, þýðum og staðfærum hér á Íslandi. Það er ekki hægt með fjölmiðlun. Því verðum við að skoða stöðuna í okkar eigin landi. Grundvallareinkenni hennar eru annars vegar þau að markaðurinn er ákaflega smár. Það er fyrsta grundvallareinkennið.

[12:45]

Annað grundvallareinkenni er það að við búum við þróttugt og öflugt þjóðarútvarp sem nýtur mikils stuðnings meðal þjóðarinnar. Mikið er á það hlustað og hefur það ákaflega mikilsverðu hlutverki að gegna og ekki síst í menningarlegum efnum.

Þriðja einkennið, sem ég tel að sé kannski nýtt og varði inngangi ræðu minnar hinnar fyrri til þess að kynna, er að við búum nú í sífellt vægðarlausari samkeppni við erlenda fjölmiðla. Ég er ekki að kvarta yfir því. Ég tel að það sé okkur ákaflega hollt og ég tel að ýmsar breytingar til bóta sem við höfum horft hér upp á í fjölmiðlun á síðustu árum stafi af því að menn hafa brugðist við þeirri samkeppni. En við gerum það nú í fyrsta sinni, í raun og veru í síðustu fimm til tíu ár, á dagblaðamarkaði og sjónvarpsmarkaði og í netmiðlum. Ég ætla ekki að endurtaka þau dæmi sem ég færði til í fyrri umræðu. Það má kannski bara bæta því við, af því ég gleymdi því síðast og það er þáttur af þessu máli, að við gerum það auðvitað líka í tímaritum, í tímaritaútgáfu af ýmsu tagi. En það er kannski eina sviðið þar sem þessi samkeppni er gömul. Í raun var það þannig að sú samkeppni á sínum tíma hefti það að íslensk tímaritaútgáfa, vikublaðaútgáfa einkum og útgáfa mánaðarrita, kæmist á legg fyrr en raunin varð. Það geta menn rifjað upp í æskuminningum sínum þegar dönsku blöðin voru komin eins og Þórarinn Eldjárn orti ágætlega um (Gripið fram í: Hvernig?) í ljóði sínu um lítinn veitingastað sem þá hét Fjarkinn en hefur síðan og fyrr gengið undir nokkrum nöfnum. Hann er í Austurstræti og þar má nú kaupa sér indverskan mat. Ég hygg að hann heiti núna Samaria. Þetta er gott kvæði ... (Gripið fram í: Hvernig er kvæðið?) Ég kann ekki kvæðið, því miður. En það endaði þannig að tiltekin skrifstofustúlka á skrifstofu hér í miðborginni settist niður á Fjarkann. Síðan var lýst lífi hennar sem var svona upp og niður eins og gengur og gerist um persónur í sögum og ljóðum Þórarins Eldjárns. Þó var einn glampi einu sinni í viku þar sem lífið kviknaði á ný. Glampinn sem gerði það vert í raun og veru að lifa þessu lífi var sá að dönsku blöðin voru komin.

Þetta var nú útúrdúr, sá fyrsti í þessari ræðu. En ég taldi rétt að fylla upp í samkeppnismyndina með þessari litlu sögu.

Við þurfum sum sé að gera ráð fyrir því að fjölmiðlareglur og lög og aðbúnaður sá sem við stjórnmálamenn og almannavaldið á að veita fjölmiðlum byggist á íslenskum veruleika og ekki neinum öðrum veruleika heldur en þeim sem við höfum hér fyrir framan okkur. Mig langar til þess að vitna í þrenn plögg til þess að lýsa þessum íslenska veruleika betur, auk þess sem ég gerði hér í fyrri ræðu minni.

Það fyrsta sem ég ætla að vitna í --- ég lofa að vera eins stuttorður og fljótur að því og hægt er því nú er þessi ágæti laugardagur og menn vilja komast snemma heim. Ég efa það ekki að menn vilja eiga góðar stundir í kvöld yfir laginu Himnaríki sem flutt verður að vísu ekki á íslenska tungu sem mér þykir leitt og gæti haft hér nokkurt mál um. Það ætla ég þó ekki að gera þó ég sjái að hv. þm. Kristján Möller æskir þess mjög og horfir hér með vonarbragði, glaður, framan í mig. Það fyrsta sem ég ætla að gera er hreinlega að lesa ákveðinn kafla úr hinni frægu skýrslu fjölmiðlanefndar Tómasar Inga Olrichs, fyrrverandi menntamálaráðherra, um það sem ber að varast einmitt á okkar fjölmiðlamarkaði. Það er kaflinn á síðu 81 sem ég hef aðeins vitnað hér í áður. Nú ætla ég að lesa hann allan. Hann er stuttur. Kafli 6.3. er svona, með leyfi forseta:

,,Við mat á þeim úrræðum, sem til greina kemur að mæla fyrir um til að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði, er óhjákvæmilegt annað en að líta til smæðar íslenska markaðarins. Nefndin telur að forðast beri að reglur séu með þeim hætti að þær setji fyrirtækjum í fjölmiðlun ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra. Gæta verði þess að reglur verði ekki svo hamlandi að þær vinni í reynd gegn þeim hagsmunum sem þeim er ætlað að vernda með því að fyrirtækin verði svo lítil að þau fái ekki þrifist. Slíkar reglur eru til þess fallnar að vinna gegn því markmiði að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum sem vettvangi fyrir ólík viðhorf til pólitískra og menningarlegra málefna.

Tryggja verður íslenskum fyrirtækjum aðstæður þar sem þau fá þrifist og eflst. Frá viðskiptalegu sjónarmiði verður því heldur ekki neitað að því stærri og öflugri sem innlend fyrirtæki eru, því minni hætta er t.d. á yfirtöku eða uppkaupum erlendra aðila. Þá er það einnig forsenda þess að þau hafi burði til þess að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þetta sjónarmið skiptir máli varðandi eflingu innlendrar menningar sem mótvægis gegn erlendri fjöldamenningu, sem nú þegar er mjög áberandi í íslenskum fjölmiðlum, einkum sjónvarpi.``

Sá kjarni máls sem ég var að benda á áðan felst meðal annars í þingsályktunartillögu okkar hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og fleiri í Samfylkingunni um gagnsæi í fjölmiðlum og ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ég tek eftir að flytjandi málsins og stjórnarþingmenn hafa ekki vitnað í þennan kafla í skýrslunni. Ég spyr: Hvers vegna er það? Hafa þeir engar áhyggjur af því, af þeirri stöðu sem þarna er lýst að sé hættan við of strangar reglur, of íþyngjandi reglur, þó að í öllum álitunum sem komið hafa, mjög mörgum þeirra, sé mjög svipað sagt? Nei, þeir virðast ekki hafa það því hér gengur annað fyrir en fjölbreytni í fjölmiðlun og íslensk menning, innlend dagskrárgerð og sú tunga sem við höfum talað hér í þúsund ár.

Í öðru lagi ætla ég að taka upp nokkur orð úr umsögn Samkeppnisstofnunar sem varðar líka þetta. Ég hef þann lestur svo, með leyfi forseta, að að lokum þeirrar skýrslu segir meðal annars þetta:

,,Afdráttarlaust orðalag ákvæðisins í frv. sem útilokar úthlutun útvarpsleyfis til fyrirtækis sem að hluta eða öllu leyti er í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta takmarkar þátttöku fjölda fyrirtækja hér á landi í útvarpsrekstri. Tekur þessi hindrun jafnt til stórra fyrirtækja og lítilla og meðalstórra sem teljast markaðsráðandi á viðkomandi markaði.``

Þetta hefur að vísu breyst örlítið. En mér skilst að fulltrúi Samkeppnisstofnunar hafi lýst þeim breytingum sem ákaflega smávægilegum og lítilsverðum í vitnisburði sínum fyrir efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar er ljóst að það getur haft jákvæð áhrif á samkeppni á fjölmiðlamarkaði ef markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri t.d. tekur þátt í stofnun nýs keppninautar í útvarpsrekstri. Jafnframt getur fjárfesting markaðsráðandi fyrirtækja í útvarpsfyrirtækjum styrkt þau í samkeppni við önnur fyrirtæki á þeim markaði, ekki síst gagnvart Ríkisútvarpinu sem í krafti m.a. lögbundinna tekjustofna hefur óhjákvæmilega mjög styrka stöðu. Verði ákvæði þetta að lögum mun það vinna gegn innkomu nýrra keppinauta inn á markaðinn og takmarka samkeppni.``

Þetta þarf að horfa á þegar málið er skoðað út frá menningarlegum forsendum og út frá forsendum fjölmiðlunar sem atvinnugreinar. Þeir bæta síðan því við sem er alvarlegt:

,,Fer það því gegn markmiði samkeppnislaga.``

Ég ætla að halda aðeins áfram því næsta grein í umsögn Samkeppnisstofnunar er líka mjög merkileg í þessu tilliti sem við erum hér að ræða, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisstofnun fær ekki séð að þetta ákvæði sé nauðsynlegt til þess til að tryggja markmið frumvarpsins um æskilega fjölbreytni í fjölmiðlun. Jafnvel má leiða því líkur að ákvæðið stuðli frekar að einsleitni í eignarhaldi þar eð þeim fyrirtækjum kann að fækka að óþörfu, miðað við tilgang frv., sem þátt geta tekið í eignarhaldi og þar með rekstri fjölmiðla.``

Þetta var úr umsögn Samkeppnisstofnunar.

Þá ætla ég í þriðja lagi að færa hér fram vitnisburð sem að vísu er núna orðinn átta ára gamall, en er mjög merkur, og ég hef reyndar áður minnst á en aldrei gefist tækifæri til þess að lesa í heild. Það er ekki langt, forseti. Það er ein síða samtals sem er að vísu á opnunni sem heitir blaðsíður 68 og 69 í skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum sem menntamálaráðuneytið gaf út 1996. Þennan starfshóp skipaði núverandi hæstv. dómsmálaráðherra sem hér talaði áðan. Ég vona að það sé honum ekki til skapraunar að lesa þennan part um endurskoðun á útvarpslögum, sem sé á þessu ári. Í þessum hópi voru, þannig að það sé alveg ljóst hverjir hér tala, hverjir voru í starfshópnum: Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson sem er núverandi formaður útvarpsráðs, sjálfstæðismaður, Tómas Ingi Olrich sem þá var þingmaður en er núna að verða sendiherra eftir eitt ár í stóli menntamálaráðherra --- hann er líka sjálfstæðismaður --- Ásdís Halla Bragadóttir sem þá var, að ég hygg, aðstoðarmaður hæstv. núverandi dómsmálaráðherra en þáverandi menntamálaráðherra --- hún er nú bæjarstjóri í Garðabæ og er einnig sjálfstæðismaður --- og síðan Páll Magnússon sem ég veit ekki hvar á að setja í flokk. Hann vill örugglega ekki vera í neinum flokki en hefur verið lengi í fjölmiðlun. Hann er núna fréttastjóri á Stöð 2 og skrifaði um daginn í Morgunblaðið mjög fína grein gegn því frumvarpi sem hér er til umræðu. Starfsmaður þessarar nefndar var Jónmundur Guðmarsson sem þá, hygg ég, var einhvers konar starfsmaður í menntamálaráðuneytinu. En hvort hann var verkefnaráðinn til þessa starfs veit ég ekki. Ég held að hann hafi þá verið frammámaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. En núna er hann bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og er einnig sjálfstæðismaður.

Í kafla 11 í þessari skýrslu, eftir að búið er að fara yfir ástandið í grannlöndunum, þá segir þetta um samþjöppun eignarhalds í einkareknum ljósvakamiðlum, með leyfi forseta:

,,Í útvarpslögum frá árinu 1985 eru ekki nein ákvæði sem miða að takmörkun eignarhalds í ljósvakamiðlum eða fyrirskipa slíkar takmarkanir beint, ef frá er talin önnur málsgrein þriðju greinar laganna, sem einskorðar hámarkseign erlendra aðila í útvarpsrekstri hérlendis við tíu prósent. Þegar litið er til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á íslenska ljósvakamarkaðinum undanfarin ár --- og þeirrar staðreyndar að nú þegar er um að ræða nokkra samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlasviðinu í heild ---`` --- segja skýrsluhöfundar árið 1996 --- ,,vaknar sú spurning hvort löggjafinn hér eigi að fara að dæmi margra annarra Evrópuríkja og takmarka eignaraðild að ljósvakamiðlum (fjölmiðlum) með lögum.

Ekki skal kveða sérstaklega á um takmörkun eignarhalds í ljósvakamiðlum í útvarpslögum.`` --- Þetta er niðurstaða nefndar núverandi hæstv. dómsmálaráðherra frá 1996 --- ,,Þrátt fyrir aukið frelsi og grósku í ljósvakaiðnaðinum, ber ekki brýna nauðsyn til þess að fylgja þeirri þróun eftir með hertum reglum um eignarhald. Þvert á móti skal leitast við að varðveita það frelsi sem lögin frá 1985 fólu í sér. Þau lög kveða á um lýðræðislegar leikreglur, tjáningarfrelsi og óhlutdrægni í starfi útvarpsstöðva. Séu þessi atriði tryggð verður hlutfall eignarhalds síður að alvarlegu vandamáli.``

Þetta langar mig að lesa aftur og geri það ef forseti leyfir:

,,Þau lög``--- útvarpslögin frá 1985 --- ,,kveða á um lýðræðislegar leikreglur, tjáningarfrelsi og óhlutdrægni í starfi útvarpsstöðva. Séu þessi atriði tryggð verður hlutfall eignarhalds síður að alvarlegu vandamáli.``

Hér kveður enn einu sinni við sama tóninn í tveimur gjörsamlega ólíkum textum, annars vegar þessum hér frá þessum fjórum sjálfstæðismönnum í starfshópi menntamálaráðherra sem þá var og síðan í þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna vegna þess að það sem við segjum er að við þurfum að tryggja hinar lýðræðislegu leikreglur. Við þurfum að tryggja tjáningarfrelsið og óhlutdrægni í starfi útvarpsstöðva. Við eigum að gera það með tilteknum hætti sem Evrópuráðið hefur bent okkur á með því að setja reglur um gagnsæi í eignarhaldi og rekstri og með því að setja reglur sem stuðla að sjálfstæði ritstjórna. Við segjum í einum kór með þeim Ásdísi Höllu Bragadóttur, Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, Jónmundi Guðmarssyni og Tómasi Inga Olrich að séu þessi atriði tryggð verði hlutfall eignarhalds síður að alvarlegu vandamáli. Sé hlutfall eignarhalds nú alvarlegt vandamál þá er það beinlínis vegna þess að þessi atriði eru ekki tryggð. Það er eðlilegt. Það segir okkur Páll Þórhallsson og það segir okkur Evrópuráðið og það segir okkur allur Evrópurétturinn og allir fjölmiðlafræðingarnir og það segja allir lögfræðingarnir með meðalhófsregluna að leiðarljósi. Það er eðlilegt að reyna fyrst að tryggja þessi atriði áður en við setjum takmarkanir á eignarhald.

[13:00]

Ég held áfram með orð skýrsluhöfunda. Þau segja þetta í framhaldinu sem einnig er mjög merkilegt:

,,Þessi skoðun er og sett fram í ljósi þeirrar staðreyndar að lög af þessu tagi hafa í nágrannalöndunum oftar en ekki orsakað nokkurn glundroða. Það hefur reynst fremur auðvelt að fara í kringum slík lög, eftirlit kostnaðarsamt og þó að þeim sé ætlað að vernda athafnafrelsi og hlutleysi, virðast þau stundum hafa skert athafnafrelsið á ósanngjarnan hátt og jafnvel beinst gegn einstökum aðilum.``

Hér er eins og ... (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Þessari ræðu var ætlað að vera stutt. En í raun og veru raskaði síðasti ræðumaður nokkuð þeirri áætlun því hér þurfti aðeins að fara í að tala út frá honum. En ég hygg að það séu meira en fimm, tíu mínútur, já.

(Forseti (BÁ): Þá óska ég eftir því að hv. ræðumaður geri hlé á ræðu sinni og við höldum áfram að loknu matarhléi sem mun standa til klukkan hálftvö.)

Já, ég lýt forsetanum í þessu efni.