Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 13:30:37 (8241)

2004-05-15 13:30:37# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[13:30]

Mörður Árnason (frh.):

Forseti. Ég var þar staddur að lokum ræðu minnar að ég var að vitna í skýrslu nefndar um endurskoðun á útvarpslögum frá 1996. Það var þriðja gagnið sem ég vitnaði hér í því til staðfestingar hvaða viðbrögð menn ættu að hafa við stöðunni á fjölmiðlamarkaði á Íslandi en ekki annars staðar og hvernig við ættum að fara að því að byggja lagaramma um fjölmiðla á Íslandi á íslenskum veruleika en ekki á erlendum veruleika og ekki á ímyndunum eða þeim byggingum sem menn smíðuðu í hug sér af því hvernig ástandið væri af ímynduðum ógnum eða af einhverjum persónulegum skapsmunum eða einhverri þeirri skapraun sem þeir hefðu orðið fyrir. Ég hafði lesið úr síðari hluta kafla 11 í þessari skýrslu útvarpslaganefndarinnar frá 1996 sem Björn Bjarnason sem nú er hæstv. dómsmálaráðherra en var þá menntamálaráðherra skipaði og ég hef rakið nokkuð hverjir komu þar að. Það er rétt að byrja þar sem ræðunni sleppti og ég held áfram að vitna í þessa skýrslu. Það er ákaflega stutt og hefst þegar búið var að ræða um að reglur um takmarkanir á eignarhaldi hefðu skert athafnafrelsi á ósanngjarnan hátt þar sem þær hefðu verið settar, að sú hætta væri fyrir hendi að auðvelt væri að fara í kringum þær, eftirlitið kostnaðarsamt. Svo kemur þetta, með leyfi forseta:

,,Auk þess hefur útbreiðsla útvarpstækni og lækkun bæði stofn- og rekstrarkostnaðar dregið mjög úr sérstöðu ljósvakaiðnaðarins, sem áður var aðeins á færi stórfyrirtækja og hins opinbera. Í ljósi þessa dregur úr réttmæti þeirrar skoðunar, að taka þurfi þennan rekstur öðrum og fastari tökum en annan atvinnurekstur.``

Þetta er auðvitað skynsamlega sagt og ég held að í framtíðinni þurfum við að skoða það hverju sinni hvaða munur er á ljósvakaiðnaðinum eins og hér er komist að orði og síðan öðrum atvinnurekstri í fjölmiðlun. Ég tel hins vegar að sá tími sé nú ekki kominn enn þá. En tæknibreytingar standa yfir og von er á meiru af slíku á næstu árum þannig að við þurfum að vera mjög vakandi, almannavaldið og íslenskir fjölmiðlamenn, í þessum efnum.

Niðurstaða kafla 11 í þessari skýrslu er svo eftirfarandi, með leyfi forseta. Þar taka saman niðurstöðu sína af umræðu í þessu efni þau Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formaður útvarpsráðs, Ásdís Halla Bragadóttir sem nú er bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, Tómas Ingi Olrich sem nú er að verða sendiherra en var áður menntamálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum og almennur þingmaður þess flokks og Páll Magnússon núverandi dagskrárstjóri á Stöð 2 með starfsmanninum Jónmundi Guðmarssyni sem nú er bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi:

,,Ákjósanlegra er að samkeppni á ljósvakamarkaði og starfsemi ljósvakamiðla í heild lúti sömu almennu leikreglum og aðrar atvinnugreinar í landinu. Í þessu sambandi skal eignarhald og starfsemi útvarpsstöðva falla undir almenn ákvæði samkeppnislaga um einokun og fákeppni þótt ef til vill sé nauðsynlegt að aðlaga þau lög betur aðstæðum ljósvakans. Til að mynda væri mögulegt að styrkja með einhverjum hætti lagalega framkvæmd við úthlutun útvarpsleyfa þannig að stuðlað verði að fjölbreytni og samkeppni.``

Ég tek eindregið undir þessar niðurstöður þeirra sem sömdu þessa skýrslu. Það sem við höfum verið að gera í Samfylkingunni er einmitt það að við komumst að svipuðum niðurstöðum þrátt fyrir ólíkan hugmyndalegan bakgrunn og við höfum flutt hér á þinginu þingsályktunartillögur um að fram fari vinna einmitt í þessa átt. Við teljum að það kunni að verða nauðsynlegt að laga samkeppnislögin betur að aðstæðum ljósvakans og við höfum lagt til að styrkja með nokkrum hætti lagalega framkvæmd við úthlutun útvarpsleyfa þannig að stuðlað verði að fjölbreytni og samkeppni.

Ég ætla ekki að lesa frekari vitnisburð um ástandið á Íslandi og þau ráð sem þeir sem teljast nú hafa vit á þessu telja best. Þar á meðal eru þessir sjálfstæðismenn sem ég nefndi hér áður. En ég ætla segja það almennt um þetta frumvarp að líkur hafa verið leiddar að því að það meiði stjórnarskrána hvað varðar tjáningarfrelsi, eignarrétt og atvinnufrelsi. Sýnt hefur verið fram á hér í þinginu og utan þess að fram hjá meðalhófsreglunni hefur verið gengið við samningu þessa frumvarps. Það sem ég hef hér bætt við í mínum ræðum tveimur er að þetta frumvarp skerði fjölmiðlun í landinu sem hluta af lýðræðissamfélagi okkar, það komi niður á fjölmiðlun sem atvinnugrein og að hætt sé við að það kyrki þá vaxtarmöguleika sem fjölmiðlun hefur sem miðlæg kjarnlæg grein í íslenskri nútímamenningu. Við höfum í Samfylkingunni lagt fram tillögur til að bæta úr þeim vanda sem vissulega er til staðar í íslensku samfélagi hvað fjölmiðlun varðar. Við höfum lagt áherslu á reglur sem tryggja gagnsæi í eignarhaldi og rekstri, reglur sem stuðla að ritstjórnarlegu sjálfstæði á fjölmiðlum. Við höfum talað um að gefa Samkeppnisstofnun meiri heimildir til afskipta á fjölmiðlamarkaði sem er einmitt það sem Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri eða forstjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins, það er að segja Skjás 1, hefur eindregið óskað eftir og er í raun það sem hann er að kalla á með orðum sínum í fjölmiðlum ýmsum sem í orði kveðnu er ætlað að styðja frumvarpið. Við höfum líka talað um að þess þyrfti að gæta að breytingar á útvarpsréttarnefnd yrðu í rétta átt þannig að henni yrði gert kleift að sinna því hlutverki sem hún hefur lögum samkvæmt en hefur ekki sinnt.

Því miður er það þannig að eins og það er nú jákvætt að losna við framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins úr þessari stjórn, umsvifamikinn viðskiptajöfur og fyrrverandi formann bankaráðs --- ég hygg að hann sé enn í því bankaráði. Það er ákaflega óheppilegt að slíkur maður sitji þar og um það er mér meira að segja sammála hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem hér leit inn í, að ég hygg, hálfa sekúndu --- þá eru breytingarnar í frumvarpinu ekki til bóta því það er ólíklegt, eins og hv. þm. Einar Karl Haraldsson hefur nefnt hér, að hæfisreglurnar sem nú eru settar og þau skilyrði sem útvarpsréttarnefnd eru nú búin verði til þess að útvarpsréttarnefnd beiti sér fyrir því sem hún á að beita sér fyrir og fari að hlutverki því sem hún hefur í raun og veru í lögunum.

Við höfum ekki lagt til takmarkanir á eignarhaldi. Það er ekki vegna þess að við séum alfarið eða algjörlega á móti slíkum takmörkunum enda eru þær við lýði í íslenskri löggjöf með ýmsum hætti og eru auðvitað eitt þeirra tækja sem almannavaldið á að hafa til þess að setja markaðnum ramma. En við verðum að vara okkur ef við setjum slíkar takmarkanir að það sé alveg klárt að meðalhófsreglu sé gætt, að jafnræðisregla sé virt og að við séum, á mannamáli, ekki að eyðileggja það sem okkur er trúað fyrir. Okkur alþingismönnum er trúað fyrir ákveðnum hlutum og stjórnvöldum þeim sem ekki má skaprauna eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði. Okkur er trúað fyrir íslensku samfélagi og okkur er trúað fyrir því að bera fram menningararfinn og breyta honum í þá mynt sem gjaldgeng er á hverjum tíma og á okkar tímum er það fjölmiðlun í margvíslegu formi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa nú tekið að sér að berjast gegn með sértækum lögum sem eru fáheyrð í íslenskri sögu og eiga sér enga hliðstæðu erlendis.

Að lokum þetta, forseti. Mörgum ógnaði þegar stjórnarformaður Baugs, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar, fyrrverandi vinur og vopnabróðir hæstv. forsætisráðherra, saupvinur hans á veitingastöðum og hótelherbergjum í Lundúnaborg, sagði um stjórn hæstv. forsætisráðherra hér í landinu að hún væri ógnarstjórn. Mönnum þótti þetta vera nánast eins og blótsyrði og örugglega sett fram í reiði og skömmum. Þeim þótti hann hafa farið yfir strikið með þessu, sá ágæti maður, þannig að notað sé kunnuglegt orðalag. Ég held að það hafi ekki verið svo. Ég held að þessi gamli sjálfstæðismaður sem sagði sig úr flokknum einmitt fyrir nokkrum vikum hafi ekki verið að nota orðið ógnarstjórn svona til þess að ná fram blæbrigðum í ræðustíl eða í ljóðrænum tilgangi heldur hafi hann hreinlega verið að nota ákveðið stjórnmálafræðilegt hugtak sem við eigum þetta orð yfir en á öðrum tungum er kallað annað. Á frönsku er þetta til dæmis kennt við ,,terreur`` og notað um ákveðna kafla í stjórnmálum Frakka, meðal annars ákveðna kafla í stjórnarbyltingunni þar, án þess ég ætli að gera stjórnarformanninum og hinum gamla vini það að hann sé að bera það saman. Í þessu felst ósköp einfaldlega að stjórnað er með ógnum. Það er stjórnað með hótunum. Það er látið liggja að refsingum, hefnd. Það er búið til það andrúmsloft í samfélaginu að menn eigi að hlýða án þess að taka þurfi fram vopnin heldur aðeins að láta glitta á þau. Það er búið til það samskiptamunstur í hirðinni að þar eru allir viðhlæjendur og þeir sem ekki hlæja við, þeir eiga að ganga út. Allir eru hafðir í bandi. Allir eiga að hlýða. Það á enginn að skaprauna stjórnvöldum. Fjölmiðlarnir eiga að vera veikir, eiga að vera blankir og eiga að vera hræddir. Og það á að vera þannig, forseti, að hjá ríkinu og í ríkinu séu allir flokksráðnir, líka faðir þinn.