Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 13:43:54 (8242)

2004-05-15 13:43:54# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni við þessa umræðu að hæstv. ríkisstjórn hefði valið verstu leiðina að því markmiði að tryggja fjölbreytni, óhlutdrægni og sjálfstæði í fjölmiðlun hér á landi. Í þeirri forvinnu sem hafði verið unnin á vegum nefndar menntamálaráðherra. um eignarhald á fjölmiðlum þá hafði í rauninni verið farið yfir löggjöf og skipan mála í ýmsum löndum og reitt fram hlaðborð af úrræðum sem hægt væri að gæða sér á ef ætlunin væri að setja löggjöf sem tryggði þessi markmið. En af þessu hlaðborði velur ríkisstjórnin eingöngu atriði sem snúa að eignarhaldi í fjölmiðlun.

[13:45]

Það var rökstutt hér í þeirri ræðu minni að Evrópuráðið hefði komist að þeirri niðurstöðu að menn væru að hverfa frá þessari aðferð æ meir í einum 40 löndum Evrópuráðsins af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi væri hætta á því, og hafði það komið fram, að farið væri í kringum þessi lög og að þau kæmu ekki að neinu haldi. Í öðru lagi væri hætta á því að lög af þessu tagi gætu valdið miklum erfiðleikum og íþyngjandi atriðum í rekstri fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði og þannig unnið gegn markmiðum sínum, í stað þess að stuðla að fjölbreytni leiddu þau til fábreytni þegar upp væri staðið.

Það hefur heldur ekki verið rökstutt í þessum umræðum að ekki hafi verið hægt að ná markmiði laganna, því sem sett er fram í frumvarpinu, með vægari aðferðum en þar er lagt til. Mótmælt hefur verið, meðal annars af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fullyrðingum stjórnarandstæðinga um að hér sé um að ræða ströngustu löggjöf sem um ræðir í okkar heimshluta. Ég held að mælikvarðinn á það og sönnunin fyrir því að svo sé sé einmitt sá sem ég nefndi áður, að ef þessi löggjöf gilti til dæmis í Bandaríkjunum eða til að mynda í hinum ýmsu Evrópulöndum þá yrði að leysa upp flest stærstu ljósvakafyrirtækin í þeim löndum. Þau stæðust ekki þessa ströngu löggjöf. Síðan var það afar athyglisvert að í afmælisávarpi forsætisráðherra til forseta Íslands sem hann hélt í ríkissjónvarpinu í gær kom fram sú sýn að hér væri um sértæk lög að ræða sem miðuðust fyrst og fremst við það að ná tökum á og leysa upp fjölmiðlasamsteypu Norðurljósa sem fyrirtækið Baugur á ítök í. Þetta sama viðhorf kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni í ræðuhöldum áðan, að þetta frumvarp miðaði fyrst og fremst að því að ná tökum á Baugi. En hv. stjórnarliðar í allsherjarnefnd hafa, að því marki sem stjórnarliðar hafa tekið þátt í þessari umræðu, hamrað á því að hér væri um almenn lög að ræða en ekki sértæk. Síðan þegar hinir raunverulegu ráðamenn koma til skjalanna, mennirnir sem hafa krafist þess að þessi löggjöf yrði sett og sett mönnum hér fyrirmæli á Alþingi, þá eru þeir ekkert að skafa utan af hlutunum. Þeirra sýn er sú að þetta séu sértæk lög. En fjórða atriðið sem ég ætlaði að nefna í upptalningu minni áðan er hvers vegna svona lög eru óheppileg. Ég hafði nú gleymt því í augnablikinu. Það er einmitt hætta á að lög af þessu tagi um eignarhald verði dæmd af dómstólum sem sértæk lög.

Ég vil nefna það hér einmitt í þessu sambandi að það er öruggt að ef af þessari lagasetningu verður þá mun hún verða til umræðu á alþjóðavettvangi. Henni hefur þegar verið vísað til erlends dómstóls og það á örugglega eftir að rísa málarekstur út af þessari löggjöf sem rekin verður á Evrópuvettvangi og þetta mál verður notað sem sýnidæmi í umræðum manna um löggjöf á þessu sviði.

Ég er alveg viss um það að löggjöf af þessu tagi verður mönnum umhugsunarefni í viðskiptalífinu. Við vitum að til stendur að einkavæða Landssíma Íslands. Slík fjarskiptafyrirtæki eru leyfisskyld á ýmsum sviðum. Við erum á opnum og alþjóðlegum markaði. Hvernig halda menn að alþjóðlegt viðskiptalíf muni meta þessa löggjöf? Munu þeir ekki draga þá ályktun að það sé mjög varhugavert að fjárfesta til dæmis í fjarskiptafyrirtækjum hér á landi vegna þess að hér er við lýði ríkisstjórn sem getur hugsað sér að grípa inn í þennan markað með því að rífa af mönum leyfi til fjarskiptareksturs eða sjónvarps- og útvarpsreksturs með löggjöf og með afturvirkum hætti þannig að rifin séu af mönnum þau leyfi sem þeir hafa? Hvaða ályktanir munu menn draga í alþjóðlegu viðskiptalífi af þessu? Ég er hræddur um að menn muni líta svo á að hér á landi sé mjög óstöðug ríkisstjórn sem styðjist við hentistefnu og að hún geti ekki tryggt alþjóðlegum fyrirtækjum sem kjósa að fjárfesta hér á landi stöðugt og öruggt umhverfi til þess að starfa í. Áhrif þessarar löggjafar gætu því orðið þau að gengisfella Landssímann í yfirstandandi einkavæðingu.

Í þessari umræðu hefur hvað eftir annað verið kallað eftir stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli. Enda þótt við höfum staðið hér og rætt í löngu máli um stefnu Samfylkingarinnar þá virðist það ekki hafa náð eyrum stjórnarliða. Samfylkingin hefur kynnt þá stefnu sína að það eigi að fara aðrar leiðir, aðrar vægari og skynsamlegri leiðir sem eru líklegri til að ná fram markmiðum laganna sem við erum í sjálfu sér alls ekki ósammála. Þær leiðir felast í því að treysta stöðu Ríkisútvarpsins, setja innri reglur um sjálfstæði ritstjórna, að setja reglur um gagnsæi í eignarhaldi og að styrkja samkeppnislögin. Það kemur fram í áliti nefndarinnar sem ég vitnaði til áðan um eignarhald í fjölmiðlun að einmitt beri að styrkja Ríkisútvarpið. Það hefur samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi. Við þekkjum það vel að forráðamenn einkastöðvanna hafa kvartað mjög yfir ofríki Ríkisútvarpsins og fyrirferð þess á markaðnum. Af hverju eru þeir að kvarta yfir því? Það er vegna þess að þeir eiga í mjög harðri samkeppni við Ríkisútvarpið og finnst að Ríkisútvarpið hafi forréttindastöðu á markaði. Þess vegna er það hárrétt hjá nefndinni að einmitt það að styrkja Ríkisútvarpið hefur samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi.

En hver er vandinn í því efni? Vandinn er sá að ríkisstjórnarflokkarnir hafa í þrettán ár ekki getað komið sér saman um eitt eða neitt í sambandi við Ríkisútvarpið. Þar með hefur aðgerðaleysi ríkisstjórnarflokkanna og ósamlyndi í þessu efni um framtíðarstöðu Ríkisútvarpsins gert það að verkum að menn hafa ekki sinnt þeirri sjálfsögðu skyldu að efla Ríkisútvarpið og styrkja þannig stöðuna til að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að einkaaðilar komist upp með ráðandi stöðu á þessum markaði.

Varðandi innri reglur um sjálfstæði ritstjórna þá hefur komið fram í umræðunni, án þess ég vilji fara að ræða það hér neitt í löngu máli, að veilur eru á íslenskum fjölmiðlum varðandi þetta atriði. Það er ekki skýrt og það er ekki tryggt að sjálfstæði ritstjórnarinnar sé algjörlega óumdeilt. Það hefur líka komið fram að það eru ekki kínamúrar milli útgefenda og rekstraraðila annars vegar og ritstjórnanna hins vegar. Þarna er sums staðar hjá íslenskum fjölmiðlum pottur brotinn. Þarna gæti löggjafinn haft áhrif með því að koma inn með skýrar reglur og knýja á um að þær verði settar auðvitað í samstarfi við fagaðila, Blaðamannafélagið og fleiri aðila á þessu sviði.

Hugmynd er um að eignarhaldið verði gagnsætt. Samfylkingin vill að leiddar verði í lög reglur um eignarhald, gagnsæi í eignarhaldi. Það er kannski óskýrt fyrir fólki hvað þetta þýðir. Við erum ekki bara að tala um að gerð verði grein fyrir því á hverjum tíma hverjir eigi fjölmiðlana. Það er líka nauðsynlegt að vita hverjir eru ritstjórar og hverjir eru eigendur og hverjir eru áhrifamenn á ritstjórnum, hverjir hafa rétt til þess að hafa með einhverjum hætti áhrif á og stjórna ritstjórnarstefnu og ákvörðunum á ritstjórn. Það er þetta sem menn eru að tala um í tilmælum Evrópuráðsins og síðan að sérhver breyting sem verður innanhúss á fjölmiðlunum verði tilkynningarskyld þannig að hún sé aðgengileg almenningi. Þetta er mjög mikilvægt varðandi alla afstöðu til fjölmiðla og rétt fólks til þess að vita hvernig málum er háttað á fjölmiðlunum.

Síðan kemur þá að samkeppnislögunum. Samfylkingin er því fylgjandi að þetta verkfæri okkar sé notað í þessu skyni. Það ætti að vera hægt að búa samkeppnislögin þannig út að þau tryggi að eigendur í stórfyrirtækjum misnoti ekki stöðu sína í fjölmiðlum. Við vitum að auðvitað getur verið ákveðin hætta á þessu sviði. Samfylkingin viðurkennir það. Við hlustum á það þegar Skjár 1 segir að markaðsráðandi staða Baugs hafi áhrif á samkeppnisstöðu Skjás 1. Auðvitað ber að skoða og huga að þessu atriði. Til þess höfum við einmitt Samkeppnisstofnun.

Það er mjög athyglisvert að skoða álit Samkeppnisstofnunar vegna þessa frumvarps. Samkeppnisstofnun minnir á til hvers samkeppnislögin eru. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er einmitt sú að sú löggjöf sem hér er verið að fara af stað með fari gegn markmiðum samkeppnislaga sem eru þau að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri með því til dæmis að auðvelda aðgang nýrra keppinauta á markaðnum.

Samkeppnisstofnun bendir á að afleiðingar þessa frumvarps sem hér liggur fyrir gætu hamlað samkeppni og unnið gegn fjölbreytni. Það er athyglisvert að Verslunarráðið sem vinnur einnig á vettvangi viðskiptalífsins tekur undir það að með frumvarpinu sé gengið mun lengra en nauðsynlegt er telji menn brýnt að kveða á um eignarhald á fjölmiðlum í löggjöf.

Verslunarráðið og Samkeppnisstofnun eru því samstiga í þessu áliti sínu. Þess vegna er mjög merkilegt að það skuli ekki vera tekið neitt tillit til sjónarmiða af þessu tagi í störfum hv. allsherjarnefndar og þingsins að þessu máli.

Í greinargerð nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum er einmitt vikið að þessum málum án þess að hæstv. ríkisstjórn hafi séð ástæðu til að taka nokkurt einasta tillit til þess í tillögugerð sinni. Þar er rætt um upplýsingar um eignarhald og breytingar á því, rétt manna til að banna breytingar á eignarhaldi sem taldar eru hamla markmiðum um fjölbreytni og hugmynd um að setja lægri þröskuld en almennt gerist um fyrirtæki í samkeppnislög. Þarna er nefndin að tala um þá möguleika að setja ákvæði af þessu tagi inn í samkeppnislögin. En á því eru ákveðin tormerki af því að samkeppnislögin eru almenn lög. Það er til dæmis athyglisvert að í frumvarpi um breytingar á búvörulögum sem koma í kjölfar nýrra mjólkursamninga er farin sú leið að gera undantekningar í búvörulögunum. Kannski er það ekki besta leiðin að setja einhverjar sérreglur um fjölmiðla í samkeppnislög. Þess vegna reifar nefndin einmitt það mál hvort setja beri heildarlög um fjölmiðla í landinu þar sem allir fjölmiðlar væru undir og þar sem rætt væri meðal annars um eignarhald, um sjálfstæði ritstjórna, um gegnsæi og þar fram eftir götunum eins og ég hef reifað í þessu máli.

En nefndin bendir líka á að ef svo færi að sett væru almenn fjölmiðlalög þar sem gripið væri á ýmsum þessum þáttum sem eiga trygga fjölbreytni og sjálfstæði fjölmiðla þá væri nauðsynlegt að setja á laggirnar einhvers konar fjölmiðlastofnun til þess að fylgja þeim eftir. Alþingi og stjórnarmeirihlutinn hér hefur kannski lýst efasemdum um það að byggja eigi miklar stofnanir í kringum þetta. Við vitum að hér hefur starfað útvarpsréttarnefnd. Hún var afar óburðug stofnun og er það kannski að hluta til ástæða þess að núverandi útvarpslögum þar sem ákvæði eru um fjölbreytni, lýðræðislega umræðu og sjálfstæði fjölmiðla, hefur ekki verið fylgt eftir.

En af hverju er það algjörlega útilokað að byggja upp slíka stofnun eins og gert hefur verið víða í Evrópuríkjunum þegar við höfum stofnanir eins og Samkeppnisstofnun? Við höfum Fjármálaeftirlitið og við höfum fleiri slíkar stofnanir sem fylgja eftir sérlögum um viðkvæm svið í þjóðfélagi okkar. Ég held að stjórnsýslan kringum það að fylgja eftir markmiðum sem við höfum verið að ræða hérna þurfi að vera vandaðri, betri og meiri en verið hefur ef menn ætla að ná fram þeim árangri sem þeir hyggjast ætla að gera með þessu frumvarpi.

Niðurstaðan er sem sagt sú að aðrar leiðir eru færar. Vægari leiðir eru færar. Skynsamlegri leiðir eru færar. Það eru leiðir færar sem líklegri eru til þess að ná markmiðum frumvarpsins sem hér er lagt til. Þess vegna er náttúrlega þyngra en tárum taki að ekki skuli hægt að fá um þetta umræðu við hagsmunaaðila og þá sem vinna í fjölmiðlunum, að ekki skuli hægt að vinna þetta þannig að sæmileg sátt náist um þetta, að ekki skuli hægt að setja hér heildarlöggjöf um fjölmiðla sem menn geti verið sáttir við þegar allir eru sammála markmiðunum en eru ósammála um leiðirnar og að þetta skuli vera svo hart rekið áfram að við sjálft líður að ríkisstjórnin liðist í sundur vegna þessa máls þar sem annar stjórnaraðilinn, annar flokkurinn sem á aðild að þessu máli, er greinilega píndur til þess að fara fram með málið og hefur ekki rætt það efnislega á Alþingi, hefur engan áhuga á því að þetta mál nái fram að ganga í þeim búningi sem það er og virðist ganga afskaplega tregur til þessa verks. Nú er svo að sjá að ríkisstjórnin sé að missa tök á málum á Alþingi. Hún teflir hér öllu í óvissu og óróa í landinu og ekki er nema eðlilegt að forseti lýðveldisins telji ástæðu til að vera heima við slíkar aðstæður.