Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 14:34:47 (8248)

2004-05-15 14:34:47# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Það hefur verið um margt fróðlegt fyrir ungan þingmann eins og mig að fylgjast með þeim umræðum sem átt hafa sér stað á Alþingi um þetta mál, hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp sem einstakir þingmenn hafa talið eitt hið stærsta og merkilegasta sem komið hefur fram á Alþingi, og mikilsverðasta, í langan tíma.

Það hefur verið þannig í umræðunni að við, stjórnarliðar og nefndarmenn í allshn., höfum verið sökuð um að keyra málið í gegn með miklu hraði og sökuð um að vilja ekki gefa okkur tíma til að ræða efnislega um það. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt, við höfum setið á þingi í marga daga og fjallað um málið og reynt að gera það efnislega, a.m.k. við sem erum í stjórnarliðinu. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa hins vegar kosið að fara aðra leið og hafa sett hér á langt málþóf sem þau eru reyndar nú á göngum þingsins farin að neita en hver maður sem hefur fylgst með umræðunni sér að þegar stjórnarandstöðuþingmennirnir eru farnir að halda ræður sem telja langt upp í 200, einungis um fundarstjórn forseta og fjalla í samhengi við fjölmiðla um búvörusamninginn frá 1985, fiskveiðistjórnarkerfið og aðra þætti sem koma málinu ekkert við, er um málþóf að ræða.

Menn hafa einnig gengið svo langt að lesa þær umsagnir sem bárust vegna málsins aftur og aftur og trekk í trekk úr ræðustól Alþingis og vitna í löngu máli í greinar og jafnvel hóta því að lesa upp heilu bækurnar úr ræðustól Alþingis. Menn hafa forðast að ræða málið efnislega og fyrst og fremst rætt um formsatriði og málsmeðferð. (EKH: Þetta er ekki satt.) Jú, þetta er laukrétt, hv. þm. Einar Karl Haraldsson, sú er staðreyndin og það sjáum við á þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar.

Það er reyndar rétt að sumir þingmenn hafa fjallað efnislega um málið en hins vegar er sorglegt að sjá stjórnmálamenn sem telja sig vera þungavigtarmenn í stjórnmálum taka pólitíska u-beygju vegna mála eins og þess sem hér er til umfjöllunar. Það er sorglegt að sjá heilu stjórnmálaflokkana taka algjörlega öfugan kúrs við það sem þeir hafa áður sagt um eignarhald í fyrirtækjum og á ýmsum sviðum atvinnurekstrarins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., er einn af þessum þingmönnum. Hann sagði þann 30. október 2001, með leyfi forseta:

,,... eins og málin eru að þróast á fjölmiðlamarkaði í dag gæti það með vissum hætti styrkt aðra kima fjölmiðlamarkaðarins og það er nauðsynlegt til þess að tryggja lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Hún er ekki nógu sterk í dag, m.a. út af því hvernig þróunin er á fjölmiðlamarkaðnum þar sem við sjáum að allt hnígur í átt að vaxandi samþjöppun.``

Sami virðulegi formaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sagði þann 19. maí 2001, með leyfi forseta:

,,... þá er ekki bara blokkamyndun til staðar í atvinnulífinu heldur eru nýjar blokkir að hreiðra um sig m.a. í afþreyingariðnaði. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvernig stæði á því að ekki er tekið á þeim iðnaði. Af hverju er t.d. ekki blokkarinnar í kringum Norðurljós að nokkru getið?``

Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það að í þeirri umræðu sem hér hefur staðið yfir síðustu daga hefur kveðið nokkuð við annan tón í málflutningi formanns Samf. en gerði árið 2001. Það sama má segja um aðra þingmenn annarra stjórnarandstöðuflokka. Það er ótrúlegt að sjá þingmenn Vinstri grænna og Frjálsl. sem hafa mælt fyrir dreifðri eignaraðild, hvort sem er á fjölmiðlum eða annars staðar, hrökkva undan og vera ekki tilbúna til að taka undir efnisatriði frv. sem mælir sérstaklega fyrir um það sem þeir hafa áður predikað.

Menn hafa talað um að í þessari umræðu hafi verið farið út fyrir velsæmismörk og menn hafi verið hvattir til að gæta hófs í umræðunni, nú síðast í morgun. Menn beindu spjótum sínum að hæstv. forsrh. Ég verð að segja að hafi einhver gengið langt í persónulegum óhróðri gagnvart einstökum þingmönnum og hæstv. ráðherrum er það formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem fór hér mikinn í ræðustól í gær og sýndi ekki bara forsrh., heldur okkur þingmönnum og Alþingi mikla vanvirðu. Það er ótrúlegt að þingmenn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og aðrir þeir sem komu í ræðustól í morgun skuli ekki víkja að þessu atriði þegar þeir gera tilraun til að tukta einstaka menn til og geta þess í engum orðum hvernig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór með málfrelsi sitt hér í ræðustól Alþingis til að veitast að forsrh. (Gripið fram í.)

Það er svo margt hægt að segja um frv. og þær umræður sem hér hafa farið fram efnislega. Ég ætla líka að gera það enda hafa hv. þm. í stjórnarandstöðunni hvatt okkur stjórnarliða til að koma hingað upp. Þeir hafa raunar kvartað yfir því að við höfum ekki tekið nægan þátt í umræðunni. Ég ætla að verða við því í þetta skiptið að ræða við þá efnislega og jafnframt um málsmeðferðir og ætla að koma að nokkrum atriðum, a.m.k. í þessari ræðu. Það getur vel verið að ég geri frekari grein fyrir sjónarmiðum mínum ef ég tel ástæðu til í seinni ræðu minni, telji ég eitthvað vera ósagt.

Menn hafa talað mikið um málsmeðferðina í þessu máli. Það hefur verið talað um að frv. sem hér er til umræðu sé ekki almenns eðlis, hér sé verið að lögfesta sértæk lög, lög sem beinast gegn einu fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði. Ég er ekki sammála því að svo sé. Ég hef bent á það í andsvari áður að frv. varðar ekki bara það fyrirtæki sem hér er oftast nefnt, Norðurljós hf., heldur fleiri fyrirtæki, eins og Árvakur sem gefur út Morgunblaðið, Framtíðarsýn sem gefur út Viðskiptablaðið og Íslenska sjónvarpsfélagið sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá 1. Ég er efnislega ósammála því að hér sé um sértæk lög að ræða.

Gefum okkur samt, rökræðunnar vegna, að svo sé. Gefum okkur að þetta frv. feli í sér sértækar reglur. Stjórnarandstæðingar hafa lýst því yfir, þar á meðal hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem kom svo óvænt inn á þing um leið og frv. kom hér til umræðu, að það sé stefna Samf. að vera á móti slíkum lögum, móti sértækum lögum sem koma einungis við eitt fyrirtæki. Þá hlýt ég að spyrja á grundvelli þeirra forsendna sem ég lagði fram áðan: Hvað hefur breyst varðandi stefnu Samf., Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálsl. gagnvart slíkum lögum? (ÖS: Hvað með stefnu Sjálfstfl.?) Nú er það svo, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það er ekki lengra síðan en í febrúarmánuði sl. að við ræddum hér frv. til laga sem vörðuðu eitt fyrirtæki, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, og það varðaði ekki bara eitt fyrirtæki, það varðaði í rauninni einn löggerning. Hvar stóðu Samf. og aðrir stjórnarandstöðuflokkar í því máli? (Gripið fram í.) Það mál var keyrt hér í gegn á tveimur sólarhringum. Samf. öll, að undanskildum einum þingmanni, greiddi atkvæði með því frv. Það gerði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð einnig og Frjálsl. Þá var ekki verið að setja út á málsmeðferðina, að málið væri keyrt í gegn á miklum hraða. Þá var ekki verið að kalla eftir lögfræðilegum álitsgerðum frá Evrópuráðinu, Evrópustofnun Háskólans í Reykjavík, vestan úr Háskóla Íslands eða verið að setja út á málsmeðferðina. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað hefur breyst? Hvað hefur breyst í stefnu þessara flokka? Getur verið að þessir flokkar hafi breytt um kúrs og haldi því nú fram að það sé bannað að setja lög sem hafi sértæk áhrif? (Gripið fram í: ... Pétur ...) Getur verið að það skipti máli um hvaða fyrirtæki er að ræða? Getur verið að það skipti máli? Getur verið að það skipti máli fyrir hv. þingmenn þessara stjórnmálaflokka að í þetta skiptið er verið að fjalla um Norðurljós hf. en ekki SPRON? Skipti það engu máli á þeim tíma, í febrúar, að verið var að keyra í gegnum Alþingi frv. til laga sem vísaði á SPRON en þegar málin fóru að snúast um annað fyrirtæki kom annað hljóð í strokkinn?

[14:45]

Það væri gaman að fá hv. þm., formann Samf. Össur Skarphéðinsson sem hér er í salnum, til að upplýsa mig um þetta. Ég varpaði þessari spurningu fram við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrr í umræðunni, fyrir nokkrum dögum, og einu svörin sem ég fékk frá þeim hv. þm. voru þau að hún gæti ekki svarað þessum spurningum vegna þess að hún hefði ekki verið á þingi á þeim tíma, þingmaður sem er varaformaður Samf. og hefur ekki legið á liði sínu hingað til við að skýra afstöðu Samf. til einstakra mála eða sín persónulegu sjónarmið varðandi einstök atriði sem ríkisstjórnin og aðrir stjórnmálaflokkar standa fyrir. Það væri ágætt að fá svar við sömu spurningum frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálsl.: Hvað hefur breyst hjá honum og flokki hans? Og hvað segir hv. þm. Jón Bjarnason um þetta mál og aðkomu Vinstri grænna að því? Hvað hefur breyst hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði? Ég varpa þessari spurningu til hans úr því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur, að því er virðist, horfið af yfirborði jarðarinnar eftir að hann lét svo ómakleg orð falla hér í gær um hæstv. forsrh. (ÖJ: Hvað sagði hann?) Hvernig stendur á því að fjölmiðlar hafa ekki vakið athygli á þessu máli? Hvernig stendur á því að fjölmiðlar hafa engan áhuga á því að þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi, stjórnarandstöðuflokkarnir, hafa tekið algjöra pólitíska u-beygju, í því máli sem hér er til umfjöllunar annars vegar og í SPRON-málinu hins vegar? Af hverju hafa fjölmiðlarnir engan áhuga á því að spyrja fyrirsvarsmenn þessara flokka út í þá stefnubreytingu sem augljóslega hefur orðið á þeirri stefnu?

Maður hlýtur að spyrja sig þessarar spurningar sem er mjög eðlileg. Af því að ég vék að fjölmiðlum og því hvernig meðferð þeirra á þessu máli hefur verið má í sjálfu sér segja margt um þá fjölmiðlaumfjöllun sem dunið hefur á þjóðinni og okkur þingmönnum og hæstv. ráðherrum á síðustu dögum. Maður hlýtur að spyrja sig og velta fyrir sér í hvaða stöðu blaðamenn séu þessa dagana, sérstaklega blaðamenn tiltekins fyrirtækis, Norðurljósa. Hvernig geta þeir, blaðamenn sem þar eru, í ljósi yfirlýsinga eigenda félagsins fjallað hlutlaust um það mál sem hér er til umfjöllunar? Í hvaða stöðu eru þessir blaðamenn settir þegar frv. er lagt fram og eigendur fyrirtækisins lýsa því yfir að frv. sé ótækt, þeim verði öllum sagt upp, eigendurnir tapi 3--4 milljörðum á frv., bankar muni gjaldfella öll lán o.s.frv.? Í hvaða stöðu eru blaðamenn þessara miðla eftir slíkar yfirlýsingar? Þeim er að sjálfsögðu vonlaust að fjalla hlutlaust um það mál sem hér er til umfjöllunar. Við sáum bara skýrt dæmi um það í gær, í fréttum Bylgjunnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon stóð hér í ræðustól Alþingis og úthúðaði hæstv. forsrh., kallaði hann gungu og druslu. (ÖS: Hvernig tók Mogginn á því?) Kallaði hann gungu og druslu. Í næsta fréttatíma Bylgjunnar var greint frá því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði farið mikinn hér í ræðustól og skammað forsrh. Hluti ræðu þingmannsins var spilaður í fréttatímanum og fréttamaðurinn sem var með fréttina bætti því síðan við eftir að spiluninni var lokið að hv. þingmaður hefði, auk þess sem kom fram í upptökunni, kallað forsrh. gungu. Það var ekkert getið um það að hv. þingmaður hefði notað hitt orðið um hæstv. forsrh. Hvernig stendur á þessu? Jú, ástæðan hlýtur að vera sú að starfsmenn og blaðamenn þessa fyrirtækis eru settir í þá stöðu að þeir geta ekki tekið hlutlausa afstöðu til þessa máls.

Það skyldi þó ekki vera að formaður Blaðamannafélagsins hafi beitt sér í málinu og náð eyrum þessa tiltekna fréttamanns? Hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir því sem fram kemur í tölvupósti hans sem hefur farið eins og eldur í sinu um allan fjölmiðlaheiminn. Auðvitað er þessi staða ótrúleg og raunar óþolandi.

Það er gömul saga og ný að þegar menn eru að reyna að ná fram einhverjum markmiðum í viðskiptum beita þeir starfsmönnum sínum fyrir sig. Ég vil segja að ég tel að stjórnendur Norðurljósa hafi gert það í þessu tilviki. Þeir hafa stillt starfsfólki sínu upp við vegg eins og reyndar forustumenn í starfsmannafélagi þeirra lýstu fyrir allshn. þegar þeir komu til fundar við nefndina. Ég rakti það áðan að því hefði verið haldið fram að bankar mundu gjaldfella lán Norðurljósa. Þessu hafa stjórnendur Norðurljósa haldið fram en ég kannast ekki við að neinn maður hafi komið frá bönkunum, frá þeim sem veittu lánin, og upplýst að þessi lán yrðu gjaldfelld. (Gripið fram í.) Ég spurði líka hvort einhverjum starfsmönnum hefði verið sagt upp. Það kom fram í fréttum útvarpsins að 700 starfsmönnum Norðurljósa yrði sagt upp. Það kom fram í máli stjórnenda Norðurljósa að engum hefði verið sagt upp. Það hefur líka komið fram að félmrn. hefur ekki verið tilkynnt um neinar slíkar uppsagnir.

Það hefur jafnframt komið fram að eigendur Norðurljósa muni tapa 3--4 milljörðum verði frv. að lögum. Við í allshn. spurðum stjórnendur Norðurljósa á fundi allshn. í hverju tapið væri fólgið, hvaða þættir í starfsemi þeirra mundu leggjast niður. Þá kom í ljós að blöðin gætu líklega starfað áfram, óbreytt, sjónvarpsstöðvarnar skiluðu hagnaði og mundu gera það áfram en það væri álitamál varðandi útvarpsmiðlana. Þegar spurt var hvaða samlegðaráhrif fælust í því að renna öllum þessum miðlum saman undir einn hatt Norðurljósa varð fátt um svör. Þó var tiltekið að fram næðist tiltekin rekstrarhagræðing og sérstaklega tilgreint að þessi fyrirtæki sem áður voru ekki undir sama hatti en eru það nú gætu verið með sama endurskoðanda í rekstri sínum, og þeir væru eins og kunnugt væri mjög dýrir, eða þjónusta þeirra.

Það varð því fátt um svör þar.

Menn hafa í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram skautað fram hjá meginefni frv. Það hefur algjörlega farist fyrir að ræða um meginefni frv. Hvert er meginefni þess? Það er að dreifa eignarhaldi í ljósvakamiðlun. Meginreglan er sú að aðilar sem hafa áhuga á því að standa í slíkum rekstri mega eiga 25% hlut í slíkum fyrirtækjum. Á þeirri meginreglu er gerð undantekning. Hún er sú að fyrirtæki sem eru í markaðsráðandi stöðu og velta tveimur milljörðum mega einungis eiga 5%. Menn hafa skautað fram hjá þessum meginatriðum frv. en hins vegar hefur þó komið fram í umræðunni að allir eru sammála um að tryggja beri fjölbreytni í eignarhaldi. Menn hafa líka kappkostað að líta fram hjá þeim brtt. sem allshn. hefur gert við frv. og forðast að taka afstöðu til þeirra. Það væri gaman að heyra hvort hv. þm. stjórnarandstöðunnar séu hlynntir brtt. sem gerðar voru. Eru þau hlynnt því að rýmka þau skilyrði sem koma fram í brtt.? Eru þau hlynnt því að framlengja útvarpsleyfi Bylgjunnar um 1 1/2 ár? Úr þessu hefur afar lítið verið gert. Þetta eru samt meginbreytingar á frv., grundvallarbreytingar. Það eru líka prinsippbreytingar sem felast í því að afmarka hinn takmarkaða eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja við fyrirtæki sem eru með yfir 2 milljarða í ársveltu. Þetta þýðir að takmörkunin nær ekki til 100 stærstu fyrirtækja landsins eins og hv. þm. Gunnar Örlygsson hélt fram í ræðu í gær, heldur miklu færri fyrirtækja. Af þessum 100 fyrirtækjum eru ekki nærri öll í markaðsráðandi stöðu. Þetta þýðir að flest fyrirtæki sem starfa á markaði geta fjárfest í þessum fyrirtækjum.

Það væri ágætt að fá afstöðu hv. þingmanna til þessara brtt., efnislega afstöðu til þeirra. Það hefur algjörlega skolast til í umræðunni að taka brtt. til efnislegrar umfjöllunar.

Því hefur verið haldið hér fram, og það verður meginefnið í ræðu minni, að ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir og þingmenn stjórnarflokkanna brjóti með þessu frv. gegn stjórnarskrá og vegi að mikilvægum mannréttindum. Því hefur meira að segja verið haldið hér fram að verið sé að gera það vísvitandi og að við sem sitjum í hv. allshn. höfum ekki gefið gaum að þeim álitamálum sem beint hefur verið að okkur varðandi þau atriði. Því hefur verið haldið fram að frv. feli í sér skerðingu á tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég mótmæli því að svo sé, ég mótmæli því að við höfum ekki gefið gaum þeim ábendingum sem fram hafa komið varðandi álitaefni í þessum atriðum. Ég benti á að meiri hluti allshn. hefur gert mjög efnislega grein fyrir því hvers vegna meiri hlutinn telur að frv. standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans.

Ég vil líka benda á að skýrsla fjölmiðlanefndarinnar fjallar um þessi mál, nokkuð ítarleg, og komið hefur fram að frv. sé innan marka þess sem fram kemur í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar. Ég mótmæli því að ég, sem þingmaður, hafi brotið gegn þeim eið sem ég skrifaði undir þegar ég settist inn á þing. Algjörlega, ég mótmæli því og vísa slíkum áburði til föðurhúsanna og leyfi mér að vísa til þeirrar miklu umfjöllunar sem fram kemur um þessi efni í nefndaráliti okkar úr allshn.

Ég vil hins vegar nefna að þegar menn tala um stjórnarskrá og mannréttindi --- hér hafa verið haldnar miklar ræður um þessi atriði --- hefur mér fundist sumir hv. þm. fara út af sporinu í því sambandi. Menn verða nefnilega að átta sig á því að umræðan um mannréttindi og þær greinar stjórnarskrárinnar sem ég nefndi áðan og hafa verið til umræðu haldast í hendur. Fræðimenn hafa fjallað um það að þegar menn ræða mannréttindi og vernd þeirra eigi slík vernd að vera almenn og ná til almennings fyrst og fremst en slík vernd á ekki að vera sértæk. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt hér langa fyrri ræðu í 2. umr. og vék að hugtaki sem ég hef ekki heyrt áður en hún kallaði frekjufrelsi. Hún gerði grein fyrir því hvað fælist í því hugtaki, frekjufrelsi.

Mig langar til að víkja aðeins að slíku frekjufrelsi. Menn hafa, kannski helst þingmenn stjórnarandstöðunnar, þar á meðal hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, haldið því fram að Sigurður Líndal, minn gamli kennari og ágæti, hafi haldið því fram að frv. sem við erum að ræða hér brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindin. Sigurður Líndal skrifaði nefnilega grein í tímaritið Skírni eftir að breytingar voru gerðar á stjórnarskránni árið 1995. Þar fjallar hann um stjórnarskrá og mannréttindi. Ég tel rétt að víkja aðeins að því sem stendur í þessari grein vegna þess að það er hollt fyrir þá sem hafa haft sig mest í frammi í þessari mannréttinda- og stjórnarskrárumræðu að hlýða á þá lesningu. Mér þykir reyndar slæmt að því leyti að hvorki hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir né hv. þm. Össur Skarphéðinsson eru í salnum vegna þess að þessir tveir þingmenn hafa talað svo fjálglega um þessi mál. Þeim væri hollt að hlýða á hvað Sigurður Líndal segir um mannréttindi og það að mannréttindi eins rekist á mannréttindi annars. (Gripið fram í: 1995?)

Í greininni segir Sigurður, með leyfi forseta:

,,Nú ganga mannréttindi ekki til einnar áttar, heldur margra; réttindi eins rekast iðulega á réttindi annars. Málamiðlun er því nauðsynleg, svo sem marka má af mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Með þeim er ríkisvaldi heimilað að skerða tiltekin réttindi til þess að tryggja önnur. Við ítrekaða áherslu á óumdeild réttindi er hætt við að þessu sé ekki gaumur gefinn; áherslan flyst á einn þátt réttinda, en ekki skeytt um aðra og sá hefur sitt mál sem freklegast framfylgir þeim réttindum sem hagsmunum hans henta. Afleiðingin verður að þröngir hagsmunir einstakra manna og hópa stýra að miklu leyti allri mannréttindaumræðu og mannréttindabaráttu.``

Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er kominn í salinn. Sigurður heldur áfram um mannréttindi. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þegar fjallað er um mannréttindi ber að gefa hagsmunasamtökum gaum og þá sérstaklega stéttarfélögum. Þau njóta verndar umfram annan félagsskap í mannréttindasáttmálum og stjórnarskrárgreinum þótt nú um stundir höggvi fá eða engin samtök nær mannréttindum, a.m.k. hér á landi. Réttur manna til að stofna og starfrækja stéttarfélög gengur þannig framar rétti manna til að standa utan þeirra. Rétti stéttarfélaga til að framfylgja kjarakröfum með verkföllum er framfylgt þannig að því er enginn gaumur gefinn hvers konar hagsmuni er verið að verja. Í skjóli verkfallsréttarins leyfist einum hópi launþega --- jafnvel þeim sem best er launaður --- að stofna atvinnuöryggi annarra launþega í hættu og svipta þá rétti til vinnu. Og verkföllum er ekki beint gegn hagsmunum sem bundnir eru við fjármuni. Með þeim er ráðist á rétt skólanemenda til menntunar, á rétt sjúklinga, öryrkja og gamalmenna til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu. Með verkföllum er jafnvel ógnað grundvelli stjórnskipunar landsins. Kennarar sem áttu í verkfalli 17. febrúar til 28. mars 1995 hótuðu að hindra afnot af skólastofum með þeim rökum að gengið væri inn á verksvið þeirra með því að búa skólastofur til kosninga. Rafiðnaðarmenn höfðu við orð að stöðva útsendingar útvarps og sjónvarps fyrir kosningar 8. apríl 1995 ef til verkfalls kæmi. Samkvæmt því víkja meginreglur stjórnskipunarinnar fyrir verkfallsréttinum.

Rithöfundar og blaðamenn krefjast tjáningarfrelsis eins og vænta má og eðlilegt er og fylgja þeim rétti svo fast eftir að honum er skipað hærra en rétti manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, auk þess sem dregið hefur verið úr æruvernd þeirra sem sinna störfum í almannaþágu.

Vernd eignarréttar og atvinnufrelsis ræðst mjög af því hvaða hagsmunasamtök eru til varnar. Því öflugri og áhrifameiri sem samtök eru þeim mun betur eru þessi mannréttindi tryggð. Þannig sýnir reynslan að mannréttindi hins sterka eru betur tryggð en hins sem minna á undir sér; réttur hins almenna þjóðfélagsþegns, t.d. neytandans, er þá oftast fyrir borð borinn. Hinn ófyrirleitni þrýstihópur er skilgetið afsprengi réttindagreinanna.``

Sigurður heldur áfram:

,,Í stuttu máli: Í skjóli réttindagreinanna ganga skýrt afmarkaðir tímabundnir sérhagsmunir fyrir almannahagsmunum, hagsmunir hins sterka framar hagsmunum hins veika, hinn háværi og aðgangsharði fær áheyrn meðan ekki er hlustað á hinn hógværa sem lítið á undir sér.

Einn þáttur þessarar réttindabaráttu er að sífellt fleiri atvinnustéttir binda störf sín svo mjög við einkahagsmuni sína að helst er að sjá sem stéttirnar vinni einvörðungu í eigin þágu, en ekki í þágu hinna sem verka eiga að njóta. Þolendur verkfalla eru þá þeir sem háðir eru framkvæmd starfa, þar á meðal aðrir launþegar, og nú á síðari árum sjúklingar, gamalmenni og skólanemendur. ,,Atvinnurekandinn`` er fjarverandi.``

Svo heldur Sigurður Líndal, sem menn hafa vísað til sem þess fræðimanns sem styður hvað helst málstað stjórnarandstöðunnar í þessu máli (Gripið fram í.) --- ég vísa sérstaklega til þess að ég óska eftir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýði á þennan kafla í grein Sigurðar. (ÖS: Á ég að koma og vera í púltinu hjá þér?) Nei, nei, þú þarft ekkert að koma hér og vera í púltinu hjá mér en ég legg til að þú leggir við hlustir, hv. þingmaður.

,,Afleiðing þessa misvægis hagsmuna verður þá sú að þeir sem láta sig mannréttindi almennt varða missa heildarsýn og ganga sérhagsmunahópunum á hönd, vitandi og óafvitandi, en tækifærissinnaðir stjórnmálamenn elta hópana á víxl í von um stundarfylgi. Þannig þoka almannahagsmunir smám saman fyrir sérhagsmunum og ríkisvald sem á að gæta almannaheilla missir mátt til að verjast þessum ágangi og miðla málum milli hinna ólíku hagsmuna, ekki síst að rétta hlut þeirra sem minnst eiga undir sér. Almenn mannréttindi verða sérréttindi þeirra sem hafa völd og áhrif; mannréttindin snúast upp í andhverfu sína.`` (BH: Þetta er Sjálfstfl. bara. Er það ekki ...?) (Gripið fram í: Baugur?) (Gripið fram í: Sjálfstfl.) (BH: Sjálfstfl. ...)

Svo mörg voru þau orð. (ÖS: Ertu að skrifa um Sjálfstfl.?) (BH: Já.) Sigurður Líndal fjallar áfram í þessari grein sinni um mannréttindi og mikilvægi þess að þau nái til almennings en séu ekki sértæk. Hann segir hér áfram og nú fer lesningunni að ljúka, fyrir þá sem hlýða á. (BH: Ertu í málþófi?) Hann fjallar um mannréttindahugtakið og það að réttindagreinar megi ekki vera almenns eðlis og almennar, þ.e. hættuna sem af því stafar. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Annars vegar svipta slík ákvæði mannréttindahugtakið merkingu og greinarnar verða máttlausar. Hins vegar ýta þær undir almennt tómlæti um ábyrgð og skyldur. Réttur til að njóta frelsis verður réttur til yfirgangs. Réttur til menntunar verður að rétti til námslána, rétti til að komast gegnum skóla og rétti til prófgráðu. Réttur til félagslegrar aðstoðar verður að rétti til hóglífis. Réttur til heilbrigði verður að rétti til að vera ,,veikur``.

Varla getur leikið vafi á því að ítrekuð áhersla á óumdeilanleg réttindi sé til þess fallin að ýta undir einhliða kröfugerð og sinnuleysi um skyldur og þá er skammt að bíða uns sérréttindi nái yfirhöndinni. Á þessari braut verður nú sennilega ekki komist öllu lengra að sinni, enda bendir margt til að réttindakröfuþjóðfélög Vesturlanda séu að þrotum komin og velferðarkerfi þeirra að bresta. Hér er vert að gefa því gaum að hvers konar misrétti fer vaxandi á Vesturlöndum, meðal annars í launum og öðrum lífskjörum, þrátt fyrir hvern mannréttindasáttmálann á fætur öðrum.`` --- (GÁS: Málþóf?) --- ,,Þetta styrkir þá ályktun að sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á ,,réttindi`` ýti eins og nú er komið undir misskiptingu auðs og hvers konar aðstöðumun í þjóðfélaginu. Þetta er önnur ástæða fyrir því að fjölgun réttindagreina --- hvort heldur þær lúta að frelsisréttindum eða félagslegum réttindum --- og vaxandi áhersla á þær er ekki einungis óæskileg, heldur háskaleg. Réttindagreinarnar eru farnar að vinna gegn mannréttindum.``

Maður veltir því fyrir sér þegar maður les þessa grein Sigurðar Líndals um stjórnskipun og mannréttindi hvort það sé ekki einmitt þessi barátta sem ég hef fjallað um sem hið svokallaða frekjufrelsishugtak hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fjallar um. Ég tel að við eigum að varast slíkt frelsi, við eigum að varast hið svokallaða frekjufrelsi. Ég tel að almenn mannréttindi megi ekki verða að sérréttindum einstakra aðila.

Þá komum við að frv. sem hér er til umræðu. Það er lagt fram með það að markmiði að tryggja mannréttindi fjöldans, tryggja mannréttindi almennings, tryggja það að allir geti tekið þátt í rekstri ljósvakamiðla en ekki einungis fáir. Frv. byggir á þeim sjónarmiðum sem fram koma í grein Sigurðar Líndals og ég tel að þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem mest hafa farið hér í þessari umræðu ættu að taka þau til sín og endurhugsa þann málflutning sem hér hefur farið fram á grundvelli stjórnarskrár og mannréttinda.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en það má vel vera að ég geri frekari grein fyrir sjónarmiðum mínum ef ég sé ástæðu til þess að halda hér aðra ræðu um málið.