Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:14:20 (8251)

2004-05-15 15:14:20# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar var afskaplega klént. Hérna er hv. þm. að lýsa þeirri skoðun að hann sé mótfallin samkeppnislögum. Hann er á móti lögum sem banna samráð. Hann er á móti lögum sem banna misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Engu að síður ætlar hann að stuðla að einni ströngustu löggjöf sem þekkist á sviði fjölmiðlamarkaðar á Vesturlöndum. Þetta hefur verið staðfest í meðförum allsherjarnefndar á málinu. Lögfræðingur eftir lögfræðing hefur bent á að þessi löggjöf, ef þetta frumvarp verður að lögum, verður sú strangasta sem þeir hafa nokkurn tímann kynnst.

Engu að síður heldur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson enn þá þeirri afstöðu sinni fram að samkeppnislög eigi alls ekki rétt á sér, lög sem í eðli sínu ganga miklu skemur en það frumvarp sem þessi hv. þm. mun stuðla að að verði að lögum. Það er alveg með ólíkindum að eftir að hv. þm. var kosinn --- hann á núna eins árs afmæli sem þingmaður --- hafi hann algjörlega kúvent sinni afstöðu til þessa máls. Hann hefur algjörlega yfirgefið hugsjónir sínar, algjörlega. Ég mundi kalla þetta hræsni.