Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:15:34 (8252)

2004-05-15 15:15:34# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nú að þingmenn Samfylkingarinnar ættu nú ekki að vera að saka okkur sjálfstæðismenn um hræsni. Ef það eru einhverjir sem hafa gerst sekir um hræsni og fyrir að hafa tekið pólitískar u-beygjur í þessu máli þá er það Samfylkingin. Ég rakti það hér í upphafi ræðu minnar að Samfylkingin hefur verið hlynnt því að setja almennar leikreglur á markaði (Gripið fram í: Þetta eru ekki almennar leikreglur.) og þingmenn flokksins hafa lýst því bæði í ræðu og riti að þeir séu fylgjandi slíkum reglum. Síðan þegar þær koma þá eru þeir á móti hinum almennu leikreglum eins og hér er verið að fjalla um og ætlast svo til þess að það sé tekið eitthvert mark á þeim þegar þeir reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum og þykjast vera allt í einu í þessu tiltekna máli eitthvað sérstaklega frjálslyndir.

Ég stend við það sem ég sagði hér áðan að það hefur ekkert breyst varðandi mína afstöðu til samkeppnisréttar (Forseti hringir.) eða samkeppnislaga með þessu frumvarpi.