Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:18:05 (8254)

2004-05-15 15:18:05# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem hér talaði síðast getur haft sínar skoðanir á því hvort ég eða aðrir þingmenn teljist trúverðugir. Ég tel að það hafi engin breyting orðið þar á.

Því var hér haldið fram að fyrirtæki sem eru í þessum rekstri, fjölmiðlarekstrinum, muni eiga undir högg að sækja þegar þetta frumvarp hefur orðið að lögum. Ég fór nú yfir það í ræðu minni sem ég hélt hér og stóð í allt að klukkutíma að ekki hafa komið fram haldbær rök fyrir því að svo sé. Allsherjarnefnd fundaði til dæmis með stjórnendum Norðurljósa og spurði í hverju þessi vandi væri falinn. Hver voru svörin? Þau voru nánast engin. Það er ýmsu haldið hér fram án þess að það sé rökstutt.

Ég mótmæli því og hafna því sem fram kom hjá hv. þm. þar sem hann fullyrti án þess að rökstyðja að þessir tilteknu aðilar mundu eiga í einhverjum tilteknum rekstrarerfiðleikum.