Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:19:25 (8255)

2004-05-15 15:19:25# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Virtustu fjármálasérfræðingar þjóðarinnar, þar á meðal Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, hafa á fundi efnahags- og viðskiptanefndar upplýst að mjög alvarlegar praktískar skorður muni verða á rekstri fjölmiðla ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Í fyrsta lagi verður kaupendahópurinn minni. Í öðru lagi eiga fyrirtæki erfiðara með að stækka sökum alvarlegra skorða sem settar eru í frumvarpið, þar sem um samlegðar- og hagræðingaráhrif væri ekki lengur að ræða. Í þriðja lagi munu fjármálastofnanir í landinu verða fráhverfar lánveitingum til fyrirtækja í fjölmiðlarekstri ef frumvarpið nær fram að ganga. Þetta eru þær praktísku skorður sem hafa komið fram. Þá hafa eigendur fjölmiðlafyrirtækja í þessu landi, ekki bara Norðurljósa heldur líka fyrirtækisins sem heldur utan um rekstur útvarps Sögu, komið alvarlegum athugasemdum fram um málið. Ég vil ítreka það til að mynda að útvarp Saga fékk ekki einu sinni að veita umsögn um málið. (Forseti hringir.) Svo ákveðið var að þetta frumvarp ætti bara (Forseti hringir.) að beinast að einu fyrirtæki.