Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:20:42 (8256)

2004-05-15 15:20:42# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi nú gert nokkuð skýra grein fyrir því í fyrri ræðu minni að þetta frumvarp snýr ekki bara að einu fyrirtæki. Það hefur komið fram í þessari umræðu að fleiri fyrirtæki munu verða fyrir áhrifum af þessu frumvarpi. Ég nefndi sem dæmi Árvakur hf., Framtíðarsýn hf. og Íslenska sjónvarpsfélagið. Ég hefði viljað að hv. þm. Gunnar Örlygsson hefði gert grein fyrir því sem Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar af því hér var vísað í það sem þar kom fram. Þar kom fram að vissulega væru skilyrði þrengd fyrir því að öll fyrirtæki gætu fjárfest í ljósvakamiðlum. En það kom einnig fram er hann svaraði spurningu til dæmis um skráningu þessara fyrirtækja á almennan hlutabréfamarkað, að í sjálfu sér kæmi ekkert tæknilegt í veg fyrir að slík skráning gæti farið fram. Öðru hafa þó þingmenn stjórnarandstöðunnar haldið fram í þessu máli.