Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:23:27 (8258)

2004-05-15 15:23:27# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þm. um að vera ekki að leggja mér orð í munn. Hann fór hér rangt með það sem ég sagði í ræðu minni. Ég sagði að yfirmenn þessa fyrirtækis hefðu gefið það út að verði þetta frumvarp að lögum þá muni eigendur fyrirtækisins tapa 3--4 milljörðum og að gripið verði til fjöldauppsagna. Ég spurði: Í hvaða stöðu eru starfsmenn þessara manna til þess að taka efnislega og hlutlaust á þessu máli og fjalla um það á hlutlausan hátt þegar vinnuveitendur þeirra setja fram yfirlýsingar með þessum hætti? Hvernig er staða þeirra þegar eigendur fyrirtækisins, vinnuveitendur þeirra, lýsa því yfir að þeim verði öllum sagt upp og þeir verði fyrir verulegu fjártjóni verði frumvarpið að lögum? Getur þetta fólk í ljósi þessara yfirlýsinga fjallað hlutlaust um þetta frumvarp? Það efast ég um. Það (Forseti hringir.) er nú bara einu sinni þannig að þegar slíkar yfirlýsingar eru komnar fram þá eru starfsmenn þessara manna settir í mjög erfiða stöðu.