Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:36:50 (8266)

2004-05-15 15:36:50# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal vitnaði í mann nokkurn á Ítalíu sem heitir Berlusconi, en hann býr við þann einstæða kost að ráða yfir öllum einkafjölmiðlum í því landi og líka ríkisfjölmiðlum. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. En hvað er hér verið að gera? Er markmiðið það að koma upp sömu stöðu á Íslandi, að til að mynda hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, einn af eigendum Morgunblaðsins, eigi einu einkareknu fjölmiðlana í landinu og hafi líka ægivald yfir þeim ríkisreknu? Mig rennir í grun að í einkaheimsókn hæstv. forsætisráðherra til Berlusconis á eyju í Miðjarðarhafi, ef ég man rétt, hafi kannski þessi hugmynd komið fram.

Í upphafi ræðu sinnar talaði hv. þm. Pétur H. Blöndal um eitt fyrirtæki, Norðurljós. Svo tala menn um að þessi lög verði almenn en ekki sértæk. Hann kom ekki að neinu öðru fyrirtæki en Norðurljósum í ræðu sinni. Þetta leikrit sem hér er til umræðu byrjaði á bolludaginn í fyrra, herra forseti. (Gripið fram í: Nei, uppi í Borgarnesi.) Það byrjaði á bolludaginn í fyrra. Ég dáist að þeim leikrænu tilburðum sem hér eru í gangi. Ég vil að hv. þm. Pétur H. Blöndal svari spurningu minni um hvort það sé hið raunverulega markmið að sama staða komi upp á Íslandi og er á Ítalíu.