Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:19:19 (8299)

2004-05-15 17:19:19# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Til að fara almennt aftur yfir þau mál sem ég tel að kunni hugsanlega að varða stjórnarskrána þá tel ég að það séu þættir eins og tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, eignarréttarákvæði sem ég kem að rétt á eftir, og síðan nefndi ég einnig til sögunnar það viðhorf sem Jónatan Þórmundsson hefur túlkað. Hann hefur tjáð þá skoðun að ef lögin beinist fyrst og fremst að einu fyrirtæki kunni það eitt og sér að varða við stjórnarskrána.

Ég rifja upp að í skýrslu fjölmiðlanefndar kemur skýrt fram að löggjafinn eigi ekki að fara þá leið að setja lög sem kunni að leiða til þess að fyrirtæki þurfi að stokka upp starfsemi sína til þess að hlíta fyrirmælum laganna þannig að það feli í sér kostnaðarsamar og þungbærar aðgerðir. Það er alveg ljóst að í þessu tilviki þarf a.m.k. eitt stórfyrirtæki á sviði fjölmiðlunar að grípa til slíkra aðgerða. Lögin eru því afturvirk samkvæmt skilgreiningu fjölmiðlanefndarinnar. Það er enginn vafi á því.

Hv. þm. spyr mig síðan af hverju ég telji að málið varði eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Nú liggur það fyrir samkvæmt mati margra manna og ég túlka skoðun Davíðs Þórs Björgvinssonar, sem ég var að lesa áðan, að hann sé á því líka, að lögin muni leiða til þess að útvarpsleyfi verði afturkölluð. Í útvarpsleyfum felast klárlega eignarréttindi og verið er að skerða þau.