Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:21:11 (8300)

2004-05-15 17:21:11# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lít reyndar svo á af því að talað var um útvarpsleyfin að með því að tryggja það að verði einhverjir aðilar fyrir tjóni, verði þeir sviptir útvarpsleyfi, verði slíkt tjón bætt, að með því sé a.m.k. það skilyrði stjórnarskrárinnar uppfyllt. Sú heimild hefur verið í stjórnarskránni allt frá því að hún var sett og á rætur sínar að rekja langt aftur, í miðaldir held ég, að samkvæmt germönskum rétti sé löggjafarvaldinu heimilt að grípa til slíkra skerðinga gegn því að þau skilyrði séu uppfyllt.

En ég spurði hv. þm. að því hvert þessara þriggja skilyrða hann teldi að verið væri að brjóta með þeirri lagasetningu sem við erum að ræða. Eru það almannahagsmunirnir, er það lagasetningin sem slík, eða telur hv. þm. að sú bótaskylda sem ég vék að áðan uppfylli ekki það skilyrði sem eignarréttarákvæðið mælir fyrir um?