Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:22:28 (8301)

2004-05-15 17:22:28# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af þeim þremur forsendum sem hv. þm. telur upp tel ég að sú fyrsta og þriðja séu í uppnámi.

Ég rifja upp fyrir hv. þm. að þetta var rætt sérstaklega í efh.- og viðskn. í morgun við Sigurð Líndal prófessor. Hann taldi að ákvæði frv., að teknu tilliti til breytingartillagna, væru það flókin og leiddu til þess að það yrði svo erfitt að meta hvers konar skerðingu yrði um að ræða að það væri nánast ókleift. Af þeim sökum skildi ég skoðun hans svo varðandi eignarréttindaákvæði að hann teldi það einhlítt að lög af þessu tagi yrðu send beint aftur í fang ríkisstjórnarinnar, eins og reyndar fleiri umdeild lög frá henni á síðustu árum.

Ég verð hins vegar að lokum, herra forseti, að segja það við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að mér er nokkur raun að sjá að honum er nánast alveg sama um það að vítt og breitt um samfélagið eru menn, sem hafa hugsanlega jafnvel meiri reynslu og þekkingu á lögum en hv. þm., sem eru þeirrar skoðunar að hér sé hugsanlega verið að brjóta stjórnarskrána. Við eigum að hafa þá virðingu fyrir stjórnarskránni, þingmenn sem höfum svarið eið að henni og ekki síður lögfræðingar í okkar röðum sem hafa kynnt sér hið æðra gangvirki laganna, að við ráðumst ekki með svona miklum hraða í lagasetningu nema búið sé að ganga úr skugga um að það séu engir möguleikar á að hún brjóti í bága við stjórnarskrána. Farinn er að læðast að mér sá grunur að það skorti á þá virðingu hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni.