Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:25:54 (8303)

2004-05-15 17:25:54# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekkert um það segja hvort slíkt dæmi er. En ég rifja það bara upp fyrir hv. þm. að um þetta er ítarlega fjallað í fjölmiðlaskýrslunni og þar kemst fjölmiðlanefndin að þeirri niðurstöðu að samkeppnisráð hafi ákaflega fjölbreytt úrræði til þess að grípa til hvers konar ráða nánast til að stemma stigu við samkeppnishamlandi aðgerðum.

Hv. þm. man það alveg áreiðanlega að í þeirri umfjöllun er m.a. túlkaður dómur eða úrskurður sem gekk hjá samkeppnisráði varðandi breiðband Landssímans með þeim hætti að hugsanlega hefði ráðið líka vald til að beita sér fyrir uppskiptum fyrirtækja. Fjölmiðlanefndin kemst að vísu að þeirri niðurstöðu sjálf að hún telji að það sé ekki svo óyggjandi að hennar mati að hægt sé að segja að á grundvelli núgildandi laga sé það hægt. Ég nefni þetta til að sýna hversu víðtæk úrræði samkeppnisráð sjálft virðist telja að það hafi.

Það vantar ekkert upp á það að fjölmiðlanefndin hafi haft skýran skilning á þessu vegna þess að hún fjallar ákaflega vel um það og gerir einmitt dóminn um breiðband Landssímans að töluverðu umræðuefni í niðurstöðu sinni.