Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:48:40 (8310)

2004-05-15 17:48:40# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. flutti langa ræðu. Ég heyrði ekki betur en svona helmingur ræðunnar hafi verið upplestur úr grein hans í Morgunblaðinu í dag, sem ég las. Auðvitað er gott að vitna í sjálfan sig en þetta er tiltölulega ný grein og það var óþarfi ... (Gripið fram í: Það hefur fyrr verið gert við önnur tækifæri.) Já, já, en þetta er tiltölulega nýleg grein og maður hafði nýlesið hana og kannski hélt hún þá ekki uppi miklum áhuga. En á móti kom að að öðru leyti en að lesa grein eftir sjálfan sig úr Morgunblaðinu í dag fjallaði hv. þm. um stjórnarskrána. Ég fór yfir það hvers vegna slík og þvílík ummæli úr munni þessa ágæta þingmanna skuli vera svona léttvæg eins og þau eru, því að þau eru léttvæg. Ég mundi segja, ef ég væri að leika mér, eins og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans sem notaði sífellt það orðalag, að þau væru giska léttvæg, það þykir honum afskaplega fínt að segja. En þau voru mjög léttvæg og ég fór yfir það af þeim ástæðum sem menn þekkja.