Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:04:56 (8324)

2004-05-15 18:04:56# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að segja að mér finnst umræðan í þinginu um málið fara hratt batnandi. Mér finnst þingmenn almennt hafa verið að færa sig nær efni þess frv. sem liggur fyrir þinginu. Þannig hefur í dag farið fram ágætisumræða um ýmis efnisatriði málsins sem betur hefði átt heima fyrr í umræðunni.

Ég ætla að víkja aðeins að nokkrum atriðum sem hafa verið ofarlega á baugi, sérstaklega atriði eins og það hvort hér sé um sértæka lagasetningu að ræða og hvernig þær reglur sem lagt er til að settar verði hér á landi standa gagnvart þeim dæmum sem við höfum annars staðar frá.

Það er ein meginniðurstaða greinargerðar nefndar menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi að þegar horft er til fjölda miðla og litið fram hjá eignarhaldi hafi þróunin undanfarin missiri verið á margan hátt jákvæð. Þingmenn hafa verið ólatir við að tína þetta upp eftir nefndinni og lýst skoðunum sínum á því að fjölbreytni sé ágæt þegar horft er til fjölda miðlanna. Það er alveg hægt að taka undir þetta. Í greinargerðinni er rakið hvernig haldið er úti hér á landi þremur dagblöðum á landsvísu með markverða útbreiðslu og jafnframt að skipting markaðar fyrir sjónvarp sé ásættanleg með hliðsjón af smæð markaðarins. Varðandi markað fyrir hljóðvarp kemur fram að markaðurinn skiptist í meginatriðum milli tveggja aðila, þ.e. Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins. Eins og ég sagði verður ekki annað ráðið af umræðunni í þingsal en að þingmenn séu almennt sammála höfundum fjölmiðlaskýrslunnar um þetta efni.

Þegar tekið er mið af smæð markaðarins tel ég að halda megi fram að það væri enda óraunhæft að gera ráð fyrir fleiri aðilum með markverða hlutdeild á landvísu. Það á ekki að koma nokkrum á óvart því við þekkjum það frá fjölmörgum öðrum sviðum viðskipta að það eru tiltölulega fáir aðilar sem skipta markaðnum á milli sín. Þegar litið er til eignarhalds hins vegar, segir í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar, er ljóst að heildarmarkaðurinn hefur ýmis þau einkenni sem talin eru óheppileg út frá þeim alþjóðlegu viðmiðunum sem stuðst er við í skýrslunni og talin eru eiga við í öðrum löndum, og skýrsluhöfundar ganga lengra og segja að það sé afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þeirri þróun með lagasetningu.

Ég vék að því í upphafi máls míns að það hafi margoft komið fram í umræðunni að hér væri um sértæk lög að ræða og það hafi verið eitt aðalumræðuefnið í umræðunni í dag að lagasetningin beinist einkum að einum aðila. Ég vil segja um það að nær vonlaust er að setja nýjar reglur um einkarekna fjölmiðlamarkaðinn án þess að slíkar reglur snerti Norðurljós með einum eða öðrum hætti. Það er vonlaust. Hvers vegna er það? Jú, vegna þess að Norðurljós eru langstærsta fyrirtækið á einkarekna fjölmiðlamarkaðnum. Það er bara tilfellið.

Við skulum skoða aðeins hversu stórt félagið er og við erum að líta til markaðar fyrir dagblöð og ljósvaka. Samkvæmt fjölmiðlaskýrslunni hafa Norðurljós 37% hlutdeild í heildaráhorfi sjónvarps. Félagið hefur 44% hlutdeild í heildarhlustun hljóðvarps og 66% hlutdeild í útbreiðslu dagblaða. Hvernig væri mögulegt að setja lög sem vörðuðu einkareknu fjölmiðlana án þess að það kæmi með einum eða öðrum hætti við félag sem hefur slíka útbreiðslu á miðlum sínum?

Sé einungis miðað við veltu hefur útgáfufélagið Heimur áætlað í umsögn sinni um frv. að Norðurljós hafi 47% af heildarmarkaði dagblaða og ljósvaka og þar hefur verið tekið tillit til Ríkisútvarpsins. Ef einungis er miðað við frjálsu miðlana áætlar sami aðili að Norðurljós hafi 63% af markaðnum miðað við veltu, og nú má spyrja: Er eðlilegt að einstök félög öðlist jafnstóran hlut af markaðnum og raun ber vitni? Ýmsir aðilar hafa bent á að svo sé ekki. Ég fékk engin svör frá formanni Samf. þegar ég beindi þeirri spurningu til hans fyrr í dag en ýmsir aðilar hafa bent á að þetta sé ekki eðlilegt og áðurnefndur umsagnaraðili benti sérstaklega á í umsögn sinni að sterkar líkur séu að hans mati til þess að nú þegar hafi skapast sú staða á markaðnum að Norðurljós séu markaðsráðandi aðili og Samkeppnisstofnun ætti því að grípa inn í. Líklegt er, segir í umsögninni, að stofnunin ætti að skilja að ljósvaka- og dagblaðarekstur. Líklegt er að Samkeppnisstofnun ætti að skilja að ljósvaka- og dagblaðarekstur segir umsagnaraðili allshn., á grundvelli samkeppnislaga. Nú er von að maður spyrji: Er það þetta sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Samf., eru að kalla á þegar þeir gagnrýna Samkeppnisstofnun fyrir aðgerðaleysi undanfarin ár? Er það þetta sem þeir eiga við þegar þeir tala um að styrkja þurfi Samkeppnisstofnun í störfum sínum og er það þetta sem þeir eiga við að sé óæskilegt þegar þeir gagnrýna útvarpsréttarnefnd fyrir aðgerðaleysi undanfarin ár eins og gert hefur verið í dag?

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að við verðum á þessum markaði eins og öðrum að una fyrirtækjum því að ná til sín umtalsverðum hlut markaðarins til að tryggja hagkvæmni í rekstri. Það gilda sömu rekstrarlegu sjónarmið því til grundvallar og á öðrum sviðum viðskipta. Þess vegna eru ekki lagðar hömlur á það í frv. hver hlutdeild einstakra aðila í heildaráhorfi skuli vera. Sama gildir fyrir hlutdeild í heildarhlustun eða hlutdeild í útbreiðslu dagblaða. Ekkert er fjallað um þau atriði í frv. Þetta eru hins vegar leiðir sem önnur lönd hafa valið að fara. Það er engar reglur að finna í þessu frv. um hversu stór hver og einn aðili getur verið á því sviði sem hann starfar.

Hins vegar er lagt til í frv. að á markaði eins og á Íslandi þar sem við getum gert ráð fyrir u.þ.b. tveimur aðilum með markverða hlutdeild á ljósvakamarkaði fyrir utan Ríkisútvarpið og á markaði þar sem ólíklegt er að fleiri en 2--3 aðilar nái markverðri útbreiðslu í dagblöðum. Á slíkum markaði leggjum við til að einn og sami aðilinn sé þá ekki að starfa á báðum þessum sviðum, þ.e. í ljósvakamiðlum og dagblöðum. Um þetta er í sjálfu sér alveg hægt að deila og það hefði kannski farið betur að efnisleg umræða í vikunni hefði m.a. snúist um þetta því vissulega má deila um þetta atriði. En markmiðið er skýrt með þessu og ég hygg að það séu til staðar mjög gild rök fyrir þeirri leið sem hér hefur verið valin, þ.e. að tryggja dreifða eignaraðild á fjölmiðlum. Í Danmörku sem margir horfa til þessa dagana, reyndar af öðru tilefni, gildir sú regla að þeir sem hafa leyfi til að reka sjónvarp eða hljóðvarp verða að hafa þann rekstur sem sitt eina markmið.

Herra forseti. Við erum því ekki að finna upp hjólið með þessu, það er langt í frá. Þessi regla, um að skilja á milli dagblaða og ljósvakamiðla, á sér fyrirmyndir eins og þeir sem kynna sér fjölmiðlaskýrsluna sjá, hana er að finna í fjölmörgum öðrum löndum og við sjáum það m.a. á reglum þeirra viðkomandi landa um lárétt eignatengsl. Lagðar eru hömlur á það mjög víða hversu stór hlutur sama aðila getur verið á þessum tveimur sviðum fjölmiðlunar.

Herra forseti. Ég hef með tilvísun til hinnar mjög svo sterku stöðu Norðurljósa á markaði fyrir einkarekna ljósvakamiðla og dagblöð fært rök fyrir því að það er nánast útilokað að setja lög um fjölmiðla án þess að það komi við Norðurljós. Það þýðir ekki þegar þannig háttar til að sérhver löggjöf sem varðar þennan markað sé sértæk, beinist sérstaklega að viðkomandi fyrirtæki en það hefur engum öðrum rökum verið teflt fram hér þegar þessu er haldið fram en því að lögin snúi að Norðurljósum. Þessi regla um aðskilnað ljósvakamiðla og dagblaða verður ávallt sögð vera sértæk og beinast einungis að Norðurljósum við þær aðstæður sem uppi eru á markaðnum í dag. En þeir sem hafa haldið þeim áróðri á lofti horfa auðvitað ekki til þess að Árvakur hefur áður sýnt áhuga á því að taka þátt í ljósvakamiðlun, hefur átt eignarhlut í fyrirtækjum sem hafa starfað á þeim vettvangi og hefur í tilefni af þessu frv. sent allshn. umsögn þar sem þeirri leið sem farin er er beinlínis mótmælt og er teflt fram fyrir því ákveðnum rökum.

[18:15]

Ég tel að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að hér sé um almenna reglu að ræða og að hún snerti miklu fleiri aðila en Norðurljós ein. Þetta er almenn regla.

Herra forseti. Okkur sem styðjum þetta frv. er ekki einungis legið á hálsi fyrir það að leggja hér fram of sértækt frv. --- það er reyndar fullyrðing sem ég hef hrakið --- nei, því er líka haldið fram að þetta séu ströngustu reglur sem í þessu efni fyrirfinnist. Það er margbúið að ítreka það. Fjölmargir aðilar hafa komið hér upp og sagt: Flest stóru fjölmiðlafyrirtækin í Evrópu fengju ekki staðist þessa ströngu löggjöf, þetta væru strangari reglur en þar gilda. Síðast kom þetta fram, svo ég heyrði, hjá hv. þm. Einari Karli Haraldssyni hér í dag.

Af þessu tilefni þykir mér ekki óeðlilegt að við horfum aðeins til þeirra ríkja þar sem hin stóru, öflugu fyrirtæki starfa og skoðum aðeins reglurnar sem þar gilda. Maður leyfir sér að geta sér til um það að þeir sem svona tala mundu heldur vilja þær reglur en þær sem er að finna í frv. Við skulum skoða hvernig þessar reglur kæmu út hér. Ég tek þó fram að auðvitað þarf að skoða einstaka reglur innbyrðis og það er heildarsamhengið sem skiptir máli.

Ég ætla aðeins að rifja það upp fyrir þeim sem eru að fylgjast hér með hver staða Norðurljósa er, 37% í sjónvarpi, 44% í hljóðvarpi, 66% í útbreiðslu dagblaða og ef miðað er við veltu, 47%.

Í Noregi gildir sú regla að þar er sérstök stofnun sem hefur afskipti hafi fyrirtæki meira en 20% af upplagi dagblaða. Stofnunin grípur inn í ef eitthvert fyrirtæki hefur eða mun öðlast verulega eignarhlutdeild. Hvað er átt við með verulegri eignarhlutdeild í Noregi? Jú, 30% eignarhlutdeild á landsvísu. Er það þessi regla sem menn vilja heldur fá? Væri okkur ekki legið á hálsi fyrir það að setja sértæk lög um Norðurljós ef við færum leiðina sem Norðmenn hafa gert? Ég er hræddur um það.

Í Danmörku --- ég ætla að ítreka það sem hefur áður komið fram --- má fyrirtæki í óskyldum rekstri ekki eiga ráðandi hlut í félagi sem hefur leyfi til að reka útvarp, og þeir sem hafa leyfi til að reka sjónvarp eða hljóðvarp verða að hafa þann rekstur sem sitt eina markmið. Eru menn að biðja um þessa reglu? Vilja menn fara dönsku leiðina í lagasetningu hér á landi? Ég er hræddur um að ef við gerðum það yrði okkur legið á hálsi fyrir að ráðast gegn Norðurljósum. Þessi regla gerir þann áskilnað að fyrirtæki sem fær úthlutað útvarpsleyfi sé ekki jafnframt í dagblaðarekstri.

Við getum litið til Bretlands. Þar gilda töluvert flóknar og ítarlegar reglur um fjölmiðlamarkaðinn. Þar er heimilað að sá sem ræður yfir meiru en 20% af upplagi dagblaða --- Norðurljós hafa hér 66% hlutdeild í útbreiðslu dagblaða --- getur átt allt að 20% í félagi sem hefur sjónvarpsleyfi. Kæmi þessi regla til skoðunar sem lagasetning á Íslandi? Þá yrði okkur legið á hálsi fyrir að vera að ráðast gegn Norðurljósum.

Í Frakklandi gildir t.d. sú regla að enginn einn getur átt meira en tvennt af eftirfarandi: útvarpsstöðvum sem ná til meira en 30 millj. íbúa, kapalsjónvarp sem til samans ná til meira en 6 millj. íbúa --- horfið á þetta í samhengi við mannfjöldann sem býr í þessu landi --- eða dagblað sem hefur meira en 20% af heildarupplagi dagblaða, ekki nema eitthvað tvennt af þessu þrennu. Ef við gerðum tillögu um þessa reglu hér yrði okkur legið á hálsi fyrir að vera að ráðast gegn Norðurljósum og stokka það fyrirtæki upp.

Í Þýskalandi má enginn hafa meira en 30% af áhorfi. Ég er nú aldeilis hræddur um að okkur yrði legið á hálsi fyrir að ráðast gegn Norðurljósum, ætla að stokka það fyrirtæki upp og brjóta það niður með ofbeldi værum við að tefla hér fram frv. sem hefði þann áskilnað að enginn mætti hafa meira en 30% af áhorfi. Það er alveg klárt.

Mér sýnist fljótt á litið að það væri sama hvaða ríki við tækjum okkur til fyrirmyndar, okkur væri legið á hálsi fyrir að vera að setja sértæk lög, ganga of langt og setja rekstrargrundvöll Norðurljósa í uppnám.

Það er auðvitað mjög athyglisvert í því samhengi að rifja aðeins upp hvað fram hefur komið um rekstur þess fyrirtækis, sérstaklega í fortíðinni. Ég hygg að forstjóri þess hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að fyrirtækið hefði í gegnum tíðina verið afskaplega óheppið með eigendur. Það er kannski mergurinn málsins, hin bága fjárhagslega staða þess fyrirtækis, sem vissulega er alvarlegur hlutur, en með engum hætti er hægt að halda því fram að hér sé verið að ráðast á fyrirtækið með þessari almennu löggjöf sem hér er teflt fram.

Það hefur komið fram hjá forstjóra Baugs að Fréttablaðið eitt og sér geti skilað ágætisafkomu, sá rekstur hafi verið styrktur enn frekar þegar DV var sameinað Fréttablaðinu í Frétt ehf. Því hefur margoft verið haldið fram að slíkt fyrirtæki sem væri með þá markaðshlutdeild sem Fréttablaðið og DV eru með samanlagt gæti starfað eitt og sér.

Hvers vegna er það ekki þannig núna? Hvers vegna erum við sögð gera aðför að því fyrirtæki? Af hverju halda menn því fram að öllum starfsmönnum þess félags verði sagt upp þegar forstjórinn hefur áður sagt að félagið eigi góða og bjarta framtíð fyrir sér? Það er með engu móti í þessu máli verið að hafa nein afskipti af því hverjir fara með eignarhlut í slíkum rekstri, í dagblaðarekstri, hvergi í frv. er verið að reyna að hafa á það áhrif.

Það er nóg pláss fyrir blað eins og DV á Íslandi. Það kom fram þegar eigendaskipti urðu að því blaði síðast.

Þegar menn gefa sér tíma til þess að hugleiða aðeins á hversu smáum markaði við störfum og þá kosti sem við höfum til að hafa áhrif á þessa hluti, hvernig eignarhaldið þróast og hvernig samþjöppun á fjölmiðlamarkaði getur orðið og gengur fyrir sig, trúi ég að menn sjái að sú leið sem í þessu frv. er valin er skynsamleg leið. Þetta er eina leiðin sem kemur til álita til þess að hafa þau áhrif sem við erum að sækjast eftir, tryggja hér fjölbreytni í umfjöllun, fjölbreytni í framboði, fjölbreytni í eignarhaldi og styrkja með því lýðræðislegar umræður.