Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:35:18 (8328)

2004-05-15 18:35:18# 130. lþ. 116.2 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Verið er að greiða atkvæði um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins en frv. felur í sér að fella niður þau gjöld sem eigendur skipa hafa greitt í Þróunarsjóð sjávarútvegsins og að þau falli niður frá og með 1. september nk. Breyting á lögum um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru á Alþingi árið 2002 fólu í sér að lagt skyldi sérstakt veiðigjald á eigendur skipa fyrir úthlutuðum veiðiheimildum eða lönduðum afla og þær breytingar sem hér er verið að leggja til fela í sér að ekki sé verið að innheimta þarna tvöfalt gjald.

Nú fólu þær breytingar sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða árið 2002 það reyndar í sér að festa kvótakerfið enn þá fastar í sessi og upptöku veiðileyfigjalds. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var andvíg þeim breytingum sem voru lögfestar á árinu 2002 og vildi annað form á fiskveiðistjórninni. Við vildum breyta fiskveiðistjórnarkerfinu sem m.a. fól í sér að festa ákveðinn hluta af aflaheimildum við byggðarlög og tryggja þannig atvinnu og búsetu úti um hinar dreifðu byggðir landsins.

Frv. felur í sér að ákveðin lið í þeirri fiskveiðistjórnarstefnu sem meiri hluti Alþingis hefur markað og er í sjálfu sér eðlileg leiðrétting innan þeirra marka. En þar sem þetta er einungis liður í fiskveiðistjórnarkerfi sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði styðjum ekki munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa sértæka frv. sem hér er verið að fjalla um.