Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 10:09:36 (8344)

2004-05-17 10:09:36# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[10:09]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Kristjáns Möllers er ekkert við það að athuga að breyta uppröðun á dagskrá þingsins að því tilskildu að það sé gert í samráði og samvinnu við formenn þingflokka þannig að menn viti að hverju þeir ganga. Það var ekki gert í þessu tilviki. Þvert á móti fengum við skilaboð um það í gær frá skrifstofu Alþingis að dagskrá þessa fundar lægi fyrir. Við fengum einnig skilaboð um það að ekki yrði af hefðbundnum fundi með formönnum þingflokka eins og venja er á mánudögum kl. eitt. Við fengum skýr skilaboð um að slíkur fundur yrði ekki haldinn nema hann yrði boðaður sérstaklega. Þetta voru skilaboðin.

Síðan uppgötvast það í þann mund sem verið er að setja þingfund að menn ætla að raska dagskrá sem var boðuð í gær og liggur fyrir á borði hvers þingmanns. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki bjóðandi, að menn eigi síðan að vera í viðbragðsstöðu að rjúka til og hefja umræður um alls óskylt mál sem ætti samkvæmt dagskrá að koma til umræðu síðar í dag. Ég mælist til þess að ákvörðun hæstv. forseta verði endurskoðuð og ég tel mjög brýnt að boðað verði til fundar með formönnum þingflokka til að ræða vinnulagið, bæði í dag og á komandi dögum.