Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 10:11:53 (8346)

2004-05-17 10:11:53# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[10:11]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir mjög mikilli undrun með það að 1. mál á dagskrá, þ.e. 1. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, skuli ekki vera fyrsta mál til umræðu.

Þetta er mjög undarlegt verklag, hæstv. forseti, að mér þykir. Við í þingflokki Frjálsl. höfum undirbúið okkur fyrir þetta mál, gaumgæfilega, og gerðum ekki ráð fyrir öðru en að þetta yrði 1. mál á dagskrá í dag. Þó að frv. sé lítið og líti sakleysislega út er um að ræða stórmál, hæstv. forseti, mál sem getur orðið mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina. Við krefjumst þess að fá fullgildar skýringar á því hvernig á því stendur að þetta mál er ekki tekið á dagskrá sem 1. dagskrármál. Hvers vegna? Það voru þau skilaboð sem við fengum síðast í gær, hæstv. forseti, og mér finnst það alveg stórkostlegt undrunarefni að þingflokkarnir skuli ekki hafa verið látnir vita.

Hæstv. forseti. Það er til nokkuð sem heitir talsími, kom í gagnið hér á landi fyrir um 100 árum. Svo er til annað samskiptatæki sem heitir tölvupóstur sem við fengum fyrir um 10 árum. Það hefði verið hægur vandi, hæstv. forseti, að láta þingflokkana vita, efalaust strax í gærkvöldi, jafnvel þó að það hefði verið seint í gærkvöldi, láta okkur vita af því að þetta mál yrði ekki 1. dagskrárliður í dag.

Nú er það svo að við mætum til leiks, vel undirbúnir í 1. dagskrárliðinn en ekki jafn vel undirbúnir í 2. dagskrárliðinn eins og við hefðum kosið sem er líka stórmál, hæstv. forseti. Mér finnast þetta alveg forkastanleg vinnubrögð. Þetta er kannski skýrt dæmi um það hvernig samskiptum er nú háttað milli forseta Alþingis og þingflokksformanna. Sennilega hafa þingflokksformenn stjórnarliða fengið að vita strax í gær að þetta yrði ekki 1. mál á dagskrá en stjórnarandstæðingar fá ekki að vita um þetta fyrr en núna, þegar klukkan er tvær mínútur yfir 10 og fundur hafinn á hinu háa Alþingi. Þá fyrst fá menn að vita þetta. Svona vinnubrögð ganga ekki.

Þetta er dónaskapur, hæstv. forseti. Þetta er hrein lítilsvirðing og ég segi enn og aftur: Við hljótum að krefjast þess að fá fullgildar skýringar á því, annaðhvort afsökunarbeiðni frá hæstv. forseta eða fullgildar skýringar á því hvers vegna frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er ekki tekið fyrir núna. Og hvar er hæstv. sjútvrh.? Hann átti að mæla fyrir þessu frv.