Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 10:15:52 (8348)

2004-05-17 10:15:52# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[10:15]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sé ítrekaða ástæðu til þess að vekja athygli hæstv. forseta á því að hann er forseti þingsins, forseti allra þingmanna en ekki bara stjórnarflokkanna.

Ég vil líka vekja athygli forseta á því sem stendur í 8. gr. um þingsköp Alþingis. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu.``

Ég vil líka vekja athygli forseta á því að í þessari bók sem heitir Háttvirtur þingmaður -- störf í þingsal, þingmál og fleira stendur á bls. 15, með leyfi forseta:

,,Forseta ber samkvæmt þingsköpum að hafa samráð við formenn þingflokka um skipulag þingstarfa og fyrirkomulag umræðna.`` --- Það er skýrt á kveðið um þetta í öllum þeim starfsreglum sem Alþingi hefur sett forseta um hvernig hann skuli starfa. Það er því miður ef forseti, nú eftir þetta langan feril samt í forsetastól, er ekki enn búinn að meðtaka þessi grundvallaratriði í forsetastjórn. Ég harma það.

Ég vil líka benda hæstv. forseta á að samkvæmt starfsáætlun þingsins sem var dreift í upphafi þings var kveðið svo á að þingfrestun skyldi verða 7. maí. Í dag er 17. maí. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að menn fara hrottalega dagavillt. Það er 17. maí í dag.

Mér er ekki kunnugt um að nein önnur formleg starfsáætlun þingsins liggi fyrir, engin. Samkvæmt útprenti lauk henni 7. maí.

Nú geri ég mér grein fyrir því að það getur þurft að framlengja þingið um einhverja daga til að ljúka brýnum málum sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma fram með eðlilegum hætti. En þá er það alveg klárt samkvæmt þingsköpum að forseti á að gera það í samráði við þingflokksformenn en ekki upp á sitt eindæmi eða lúta bara þar meirihlutavaldinu. Ég vil ítreka það fyrir hæstv. forseta að hann verður að fara að læra grundvallaratriði þingskapa sem honum er ætlað að hafa hér í heiðri og honum er ætlað að stýra hér fundum og störfum Alþingis í samráði við þingflokksformenn en ekki bara meiri hlutann.