Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:26:42 (8353)

2004-05-17 11:26:42# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. landbrh. til hamingju með að vera kominn með þessi mál inn í þing þó að seint sé. Samkvæmt eðlilegri dagskrá þingsins átti þingi að ljúka 7. maí. Núna er 17. maí þannig að þetta er alveg með síðustu skipunum. Ég fagna því samt að þessi mál séu komin á þennan rekspöl. Ég tek undir margt í þessum frumvörpum báðum og kem að því ræðu minni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðlagningu á sölu og búvörum, fyrra málið. Nú tekur það einungis til þess að festa áfram í sessi það kerfi sem ríkt hefur á markaði fyrir mjólk. Landbúnaðarráðherra sjálfur og við í þinginu höfum gagnrýnt það mjög að ekki væri sett inn eitthvert kerfi sem takmarkaði niðurboð á kjöti á markaðnum. Það er nánast hömlulaust niðurboð á kjöti. Samkvæmt þeim skýrslum sem hæstv. landbúnaðarráðherra leggur fyrir okkur er heimilt að setja lög sem geta gripið þar inn í tímabundið og leiðrétt kjötmarkaðinn. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur haft mjög stór orð um það ófremdarástand sem hefur verið á kjötmarkaðnum. Bændasamtökin hafa ályktað um það og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum fyrir a.m.k. tveimur árum síðan eindregið krafist þess að landbúnaðarráðherra og viðskiptaráðherra beittu sér fyrir því að kanna samkeppnisstöðu á íslenskum kjötmarkaði og leiðir til þess að bæta þar úr og koma í veg fyrir að við fáum bankaframleitt kjöt í stórum stíl sem hefur skekkt allan kjötmarkað hér á landi. Hvers vegna tekur ráðherra ekki á því máli eða er að vænta einhverra viðbragða á næstunni varðandi það?