Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:15:34 (8367)

2004-05-17 12:15:34# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk aðeins 20 mínútur í ræðu minni til að fjalla um þessi tvö stóru frumvörp og komst því bara að með hluta af því sem ég ætlaði að gera grein fyrir. Ég kem nánar að því í seinni ræðu minni.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að smásölumarkaðurinn er einmitt hinn endinn á keðjunni. Ábyrgð hans og þær aðgerðir sem þar fara fram verða bara hluti af þessari heild. Sú gríðarlega fákeppni sem hefur orðið á íslenskum smásölumarkaði væri sjálfsagt búin að rústa eða það væri að minnsta kosti óvíst hvernig staðan á mjólkurmarkaðnum væri ef þar hefðu gilt sömu lög, sömu reglur og sami frumskógabardagi og við höfum upplifað á kjötmarkaðinum vegna þeirrar samþjöppunar sem hv. þm. minntist á. Neytendur fagna að sjálfsögðu einhverju niðurboði í eina viku en ef við horfum til lengri tíma þá getur það ekki nema skaðað alla. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að þessum grunnþáttum bæði í framleiðslu og atvinnulífi þjóðarinnar og einnig í neyslu og neysluvörum þjóðarinnar sé búin sanngjörn og eðlileg umgjörð frá haga til maga eins og hæstv. ráðherra hefur sagt stundum, sem sagt frá upphafi og til neytenda. Smásölumarkaðurinn hefur leikið þar allt of lausum hala og ef það gengi áfram og yfirtæki mjólkurframleiðsluna þá held ég að ekki þyrfti að spyrja að leikslokum fyrir íslenska mjólkurframleiðendur innan tiltölulega skamms tíma.