Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:33:05 (8371)

2004-05-17 12:33:05# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alrangt sem kemur fram í máli hv. þm. og sá misskilningur má ekki vera hér uppi að sá samningur sem gerður hefur verið við bændur nú er ekki samningur um peninga til afurðarstöðva. Það eru beingreiðslur til bænda. Það eru engir peningar að fara í gegnum þetta til afurðastöðvanna. Þær reka sig á samkeppnismarkaði (AKG: Óbeint.) undir ákveðnum lögum og með ákveðnar skyldur þannig að það er misskilningur hv. þm. og ég vil leiðrétta hann hér að beingreiðslurnar eru til bænda og eru í raun niðurgreiðslurnar sem tryggja þessar góðu afurðir á lægra verði inn á borð neytenda. Þetta verður að vera alveg skýrt í hugum hv. þingmanna og þeir mega ekki misskilja það.

Hvað það varðar að langur vegur sé á milli afurðastöðva og bænda þá hygg ég að í mjólkuriðnaðinum sé ekki langur vegur á milli afurðastöðva og bænda. Mjólkuriðnaðurinn hefur verið rekinn undir mjög farsælu skipulagi. Bændur sitja í stjórnum þessara fyrirtækja. Fulltrúaráðsfundir fara með málefnin. Ég hef setið marga þessa fundi og það er alveg skýrt að bændurnir eru mjög nærri stjórnum þessara fyrirtækja, gagnrýna og marka stefnuna, enda eiga bændur samtíðarinnar þessi afurðafyrirtæki.